Það er lenska á Íslandi að tala um heimasíðu þegar fjallað er um vefi. Ég þoli það illa, heimasíða er vitaskuld rangnefni fyrir vefi en ber sterkt vitni um hve danskan á enn sterk ítök hér á landi í tungumálinu. Danir, og reyndar Norðmenn líka, tala gjarnan um “hjemmesider” þegar þeir fjalla um vefi.

Með veikum mætti hef ég reynt að andæfa fólki þegar það segir heimasíður þetta og heimasíður hitt. Fjölmiðlar hafa margir hverjir fallið í þennan pytt en mér hefur þó fundist Ríkisútvarpið yfirleitt vera með þetta rétt.

Heimasíðan sigrar í Google

Því miður þá held ég að þetta sé töpuð barátta enda talar tölfræðin sínu máli í niðurstöðum þegar orðin eru “gúggluð”. Þar hefur heimasíða algjöra yfirburði yfir vef eða hvað þá vefsetur. Þrátt fyrir að þessi vitleysa viðgangist mun þó ekki neitt fá mig til að beygja mig undir þessa vondu málhefð. Heimasíða er vissulega til á hverjum vef, hver vefur hefur sína forsíðu eða heimasíðu (e. homepage) en það eru fáir vefir sem státa aðeins af einni síðu. Jakob Nielsen gaf einu sinni út bók, Homepage Usability, sem fjallaði um heimasíður þar sem hann tók fyrir 50 upphafssíður á vefjum og greindi þær út frá nytsemi. En vel að merkja hann var aðeins að fjalla um forsíðu hvers vefs eða það sem mætti kalla heimasíðu.

Hvað segir Íslensk orðabók?

Í grundvallarriti íslenskrar tungu Íslenskri orðabók (útg. 2007) er heimasíða skilgreind svona:

“fyrsta vefsíða eða inngangssíða umdæmis (sic!) á Veldarvef sem leiðir oft til annarra vefsíðna”.

Í sömu bók er talað um vefsetur eða vef, vefsetur er skilgreint svona:

“vefsíður á Veraldarvefnum sem eiga sér upphaf í sameiginlegri heimasíðu, ásamt öllum fylgiskjölum sem þeim tengjast”.

Gott og vel, þetta er dálítið stirðbusalegt en höfundur orðabókarinnar er samt alveg með þetta. Hann skilur að heimasíða er bara upphafssíða vefs en ekki vefurinn sjálfur. En þorri Íslendinga áttar sig ekki á þessu og tönnlast á því að kalla vefi heimasíður eins og danskurinn. Hversu lengi ætlum við að sætta okkur við dönskuskotna íslensku?