Í síðustu viku voru kunngjörð úrslit Íslensku vefverðlaunanna en SVEF (Samtök vefiðnaðarins) hafa staðið fyrir þessari skemmtilegu uppskeruhátíð íslenska vefiðnaðarins í 11 ár. Í þessum pistli langar mig að skoða störf SVEF dómnefndarinnar en samsetning nefndarinnar vakti nokkra athygli mína.

Ótvíræður sigurvegari var vefur Orkusölunnar en hann fékk m.a. verðlaun fyrir besta útlit og viðmót og besta íslenska vefinn. Þessi vefur virðist vera vel að verðlaununum kominn. Hann er léttur og aðgengilegur, hönnunin er frískleg, letur er stórt, leiðarkerfi skýrt, nytsemi virðist góð, aðgengileiki án efa í fyrsta klassa (ef ég þekki vinnubrögð Hugsmiðjunnar rétt), texti ágætlega skrifaður og efni endurspeglar markmið fyrirtækisins.

Samsetning dómnefndar

Ég kann ekki að leggja mat á hversu vel vefur Orkusölunnar er úr garði gerður í bakenda en ég efast ekki um að þar standi hann öllum íslenskum vefjum framar þar sem hvorki fleiri né færri en 6 af 11 dómnefndarmeðlimum SVEF í ár hafa forritun sem sitt sérsvið. En svona var nefndin skipuð eftir sérsviðum:

  • Einn hefðbundinn vefstjóri með efni og nytsemi sem sérsvið
  • Þrír með vefhönnun sem sérsvið
  • Sex með bakgrunn í forritun
  • Einn með reynslu af rekstri vefja

Samkvæmt mínum upplýsingum þá hefur hver meðlimur í dómnefnd sjálfdæmi í því hvernig hann metur vefina. SVEF leggur ekki til sérstakar leiðbeiningar. Hver meðlimur skoðar því væntanlega vefina út frá sínu sérsviði.

Án þess að fella nokkurn dóm yfir störfum dómnefndarinnar þá finnst mér þessi samsetning engan veginn endurspegla vægi ólíkra þátta í smíði á góðum vef. Ég hugsa að margir geti verið sammála Paul Boag um að það séu ákveðnar grunnstoðir sem hver vefur verður að hvíla á. Ef jafnvægi næst ekki í þessum grunnstoðum stendur vefurinn ekki traustum fótum. Þessar grunnstoðir eru:

  • Nytsemi
  • Aðgengileiki
  • Útlitshönnun
  • Tækniþróun
  • Efni
  • Skýr markmið

Þar sem SVEF verðlaunin eru fagverðlaun þá væri að mínu mati hyggilegt við val á næstu dómnefnd að gæta jafnvægis í sérsviðum meðlima og að þau endurspegli betur ofantaldar grunnstoðir. Einnig mætti skoða hvort ástæða sé til að vera með nokkurs konar tékklista og samræma hvernig hver og einn dómnefndarmeðlimur vinnur sína vinnu. Þetta er vanþakklátt starf, fólk leggur ómælda vinnu á sig fyrir engin laun og án efa fær gagnrýni úr ýmsum áttum enda verðlaun af þessu tagi aldrei óumdeild.

Varúð!

Það skal skýrt tekið fram að ég á hagsmuna að gæta í þessari umfjöllun, átti aðkomu að nokkrum tilnefndum vefjum í gegnum mitt starf og á eigin vegum. Hvatinn að þessum skrifum er þó klárlega faglegs eðlis. Ég vil veg SVEF sem mestan og vil vinna að sem mestri fagmennsku í íslenskri vefsíðugerð. Ennfremur óska ég öllum verðlaunuðum vefjum til hamingju!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.