Frábær vefur segir þér hver lykilverkefnin eru um leið og þú lítur á vefinn. Viðskiptavinir vilja ekki þurfa að hugsa. Þeir eru komnir til að leysa verkefni, mættir á vefinn þinn og hann verður að aðstoða þá við að leysa verkefnin, bæði fljótt og vel. Þolinmæði þeirra er afar takmörkuð. Vefur Nova.is er dæmi um víti til að varast.

Samlíking við rúllustiga á flugvelli á mjög vel við heimsókn á vefinn*. Þetta er svipaður tími (og oft reyndar mun styttri) sem notendur á vefnum gefa sér til að finna það sem þeir leita að. Það er ekki tilviljun að stór skilti með áletrunum á borð við “Trains”, “Toilets” og “Tickets” blasa við okkur á flugvellinum þegar við rúllum niður. Skiltin beina okkur í rétta átt og við erum búin að taka ákvörðun við enda rúllustigans.

Þekktu lesendur og þeirra verkefni

Vefstjórar þurfa að hafa tvö megin markmið að leiðarljósi í sínu starfi. Númer eitt þekkja lesendur og númer tvö þekkja þeirra verkefni. Hafið aðeins það efni sem hjálpar þeim að leysa þessi verkefni. Annað er bara fyrir þeim. Þið verðið að þekkja orðin sem þeir nota, verðið að læra að hugsa eins og þeir en ekki eins og fyrirtækið. Besta leiðin til að ná settu marki er að fylgjast með hegðun notenda. Setja upp notendaprófanir, skoða leitarorðin sem þeir nota á vefnum og hvað það er sem skilar þeim á vefinn. Skoðaðu líka samkeppnisaðilana. Hver eru viðtekin heiti á ólíkum vörum og þjónustu?

Markaðsdeildin stýrir partýinu hjá Nova

Vefur símafyrirtækisins Nova er gott dæmi um það sem aðrir vefstjórar eiga að forðast í skipulagi vefs. Það er auðvelt að sjá fyrir sér stemningsfund á markaðssviði fyrirtækisins þar sem teknar voru ákvarðanir um tenglaheiti og flokka á vef Nova í beinu framhaldi af bæklingunum og auglýsingunum sem kynna stærsta skemmtistað í heimi. Vefstjórinn hefur hrifist með og algjörlega fallið fyrir snilldinni. Það er líka ekkert skemmtilegt að vera leiðinlegi gaurinn í partýinu. Auðvitað höfum við flokka eins og Barinn, Stólinn, VIP og Baksviðs í leiðarkerfinu. Það segir sig sjálft. Og já bætum svo við flokknum Þjónusta. Þarna erum við alveg með þetta!

Forsíða nova.is

 

Eru ekki allir búnir að uppgötva þetta? Stóllinn er að sjálfsögðu heiti fyrir þjónustuvef viðskiptavina. Það segir sig sjálft. Baksviðs geymir auðvitað upplýsingar um fyrirtækið, verslanir og bloggið. Nema hvað? Ég veð auðvitað á barinn til að fara í dótabúðina og til að kaupa boli (bíddu er ég enn á vef símafyrirtækis?). Það kemur kannski smá hik á mig þegar ég sé VIP því mig grunar að það standi fyrir Very Important Person og mér finnst ég ekkert vera svo mikilvægur. En fínt að smella og uppgötva að þar finn ég netsímann og tölvupóstþjónustu. Algjörlega brilljant. Svo ef það er minnsti vafi þá smellir maður á flokkinn Þjónusta (því hinir flokkarnir lýsa engri þjónustu, er það nokkuð… annars?). Brandararnir eru vitaskuld þar. Bíddu brandarar… eh já…

Gott fyrirtæki sem misskilur vefinn

Það er svo frábært að fá svona vefi upp í hendurnar, gerir allt sem maður predikar svo ljóslifandi og líka bara skemmtilegt. Nova er flott fyrirtæki, það hefur gríðarlega ánægða viðskiptavini samkvæmt Íslensku ánægjuvoninni og virðist ná síaukinni markaðshlutdeild frá risunum á markaðnum. Auglýsingarnar frá þeim eru bráðskemmtilegar. En fyrirtækið er algjörlega að misskilja hlutina á vefnum.

Á vefnum erum við búin að ná viðskiptavininum til okkar og eigum að hjálpa honum, ekki flækjast fyrir honum. Við eigum að forðast innihaldslausa frasa og fyrirsagnir. Ég sem viðskiptavinur vil bara vita hvernig ég get skoðað stöðuna á þjónustuvef, vil sjá innskráningu takk fyrir en ekki setjast í stól. Ég vil vita hvað þjónustan kostar. Ég vil vita hvar verslanirnar eru og hvenær þær eru opnar. Ég vil vita hvar ég get keypt pung til að nota í sumarbústaðnum. Þessi og fleiri lykilverkefni þurfa að vera augljós en ekki í felubúning. Nova.is gerir vel með tengla í fæti og vefurinn er auðvitað langt í frá alslæmur en feilar á lykilþáttum í smíði góðs vefs.

Vefstjóri þarf að hafa bein í nefinu

Vefstjórar verða að hafa bein í nefinu til að sporna við beinni yfirfærslu á markaðs- og auglýsingaefni á vefinn eins og sést í tilviki Nova. Gefið ykkur tíma til að leggjast yfir tenglaheiti, fyrirsagnir og heiti á flokkum á vefnum. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni. Fáið aðstoð frá notendum og setjið ykkur í þeirra spor. Þá fyrst ná viðskiptavinir markmiðum sínum og allir hagnast!

 

* Samlíking við rúllustiga er fengin úr bók Gerry McGovern: Killer web content

 

Tengt efni

 

Áskrift að fróðleik um vefmál?
Á funksjon.net eru reglulega birtir pistlar um vefmál. Hægt er að gerast áskrifandi með tölvupósti eða fá uppfærslur með RSS.

 

 

One Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.