Í þessari grein ætla ég að gera framsetningu frétta á vef að umtalsefni og bera saman íslenska og breska fréttavefi. Vefur Breska ríkisútvarpsins, BBC, skarar fram úr að mínu mati en íslenskir fréttavefir standa honum langt að baki. 

Það er kannski lítil sanngirni að bera vef BBC saman við íslenska fréttavefi en við eigum samt að læra og taka mið af þeim bestu.

Höfum í huga að það er talsvert ólíkt að skrifa fyrir vef en aðra miðla. Við þurfum að hafa í huga að lesendur hegða sér allt öðruvísi, þeir sniffa og skanna texta fremur en að lesa eins og um bók væri að ræða. Lesendur á vefnum eru óþolinmóðari. Ef þeir sjá ekki strax inntakið í frétt þá er jafn líklegt að þeir hörfi.

Skrifum fyrir fávísa

Í fréttaskrifum fyrir vef þurfum að nýta okkur kosti vefsins, svo sem að tengja efni saman og vísa í aðra vefi. Við þurfum að vanda fyrirsagnir, þær þurfa að selja og vera lýsandi. Við þurfum að forðast langar setningar, flókin orð, langar málsgreinar og aldrei gera ráð fyrir því að lesendur þekki bakgrunn þess efnis sem við erum að skrifa um. Með öðrum orðum við þurfum að skrifa fyrir fávísa en um leið bera virðingu fyrir lesandanum og ekki síst tíma hans.

Líkt og í hefðbundinni blaðamennsku þá er öfugi pýramídinn í fullu gildi í skrifum fyrir vefinn. Frétt á ekki að vera uppbyggð eins og morðgáta. Við þurfum að koma okkur að kjarna málsins í fyrstu málsgrein. Við þurfum að forðast málalengingar og auðvitað að vanda okkur. Á eftir stuttum inngangi koma upplýsingar sem styðja við aðalatriðin, loks ítarupplýsingar og tenglar.

Hætturnar í skrifum fyrir vef

Stór hætta í skrifum fyrir vef er fljótfærni. Við vöndum okkur ekki jafn mikið og værum við að undirbúa texta fyrir prent. Þetta sér maður á hverjum degi. Það er mjög auðvelt að birta efni á vef og hraðinn er líka oft mikill. En fljótfærni skilar sér í ambögum, stafsetningarvillum, klúðurslegum setningum og almennt óskýrum texta. Allt þetta hefur áhrif á orðspor vefsins.

Það hefur verið tómstundagaman hjá sumum að halda utan um meinlegar villur á fréttavefjum, sérstaklega á sumrin þegar afleysingablaðamönnum fjölgar.

Okkur hættir einnig til að birta of langan texta, stórar málsgreinar sem verða fráhrindandi og draga athyglina frá því sem skiptir máli. Það er nefnilega svo auðvelt að birta efni á vef og freistingin er mikil að birta allt sem maður á í fórum sínum eða kolli.

Handrit BBC að framsetningu frétta fyrir vef

Fréttavefur BBC
Fréttavefur BBC

Nýlega flutti ég fyrirlestur fyrir blaðamenn á einum stærsta fréttavef landsins. Af því tilefni tók ég mig til og skoðaði nokkuð kerfisbundið hvernig blaðamenn á íslenskum fréttavefjum skrifa sínar fréttir og setja þær fram (á hefðbundnum vef). Einnig tók ég mig til og skoðaði með sömu gleraugum tvo breska fréttavefi, sem ég sæki mest í, þ.e. Guardian og BBC.

Blaðamenn á fréttavef BBC gera allt rétt og fylgja skýrum leiðbeiningum.

  • Lýsandi og stuttar fyrirsagnir
  • Inngangur, ein málsgrein, með samantekt á efni fréttarinnar með feitletrun
  • Stuttar setningar og málsgreinar, gjarnan aðeins ein setning í málsgrein
  • Lengri greinar brotnar upp með lýsandi millifyrirsögnum
  • Bólulistar (bullets) notaðir til að brjóta textann enn betur upp
  • Myndir styðja við efni fréttarinnar og glæða hana lífi
  • Tilvitnanir í viðmælendur
  • Vel skrifaður og villulaus texti
  • Tenglar í ítarupplýsingar og skyldar fréttir
  • Hljóð og myndefni er notað til stuðnings
  • Auðvelt að deila fréttum

Guardian einfaldar ekki málin

Það nægir að skoða nokkur dæmi af vef BBC til að sjá að þessi forskrift er viðhöfð í hverri einustu frétt. Fréttirnar eru líka þægilegar í lestri. Blaðamenn vita að stór hluti þeirra sem lesa vefinn hafa ekki ensku að móðurmáli. Textinn er því einfaldari en t.d. á vef Guardian þar sem manni líður stundum eins og þörf sé á fimm háskólagráðum til að komast í gegnum efnið.

Guardian fellur líka í þá gryfju að skrifa alltof langar fréttir fyrir vef, málsgreinar eru langar, textinn er ekki brotinn upp, það er gert ráð fyrir að lesandinn búi yfir ákveðinni þekkingu og málfarið eins og áður segir ekki ætlað fávísum en þó þokkalega menntuðum lesanda.

Íslenskir fréttavefir

Mest lesnar fréttir á mbl.is
Andlátsfregnir vinsælar á mbl.is

Ef við horfum á upptalninguna hér að ofan og skoðum íslenska fréttavefi út frá þessum leiðbeiningum, hvernig standa þeir sig?

Almennt séð standa íslenskir fréttavefir sig ágætlega í því að skrifa hæfilega langar fréttir og fyrirsagnir eru oft grípandi og ágætlega lýsandi. Þó hefur maður það stundum á tilfinningunni að verið sé að gabba mann til lesturs.

Í samantekt af vinsælustu fréttum vikunnar á ruv.is, mbl.is, visir.is, pressan.is og dv.is er augljós áherslumunur. Pressan.is og dv.is nota lengri fyrirsagnir og áherslur eru öðruvísi en á hinum vefjunum. Þar er meiri hasar og fréttir af frægu fólki vinsæl lesning. DV.is virðist taka mið af fréttavef eins og Verdens Gang í Noregi með aðaláherslu á fyrirsagnir og hvetja til sem flestra flettinga.

Ruv.is, visir.is og mbl.is beita allir frekar stuttum fyrirsögnum en nokkuð lýsandi. Þó undrast ég alltaf að sjá hve andlátsfregnir á mbl.is ná mikilli lesningu, oftar en ekki bara fyrirsögnin: “Andlát: Jón Jónsson”. Þetta segir lesandanum harla lítið en nægilega mikið til að vekja forvitni og verða ein af mest lesnu fréttum vikunnar.

Óttinn við að missa lesendur

Það sem er mest sláandi í samanburði við bresku vefina er hve lítið íslenskir fréttavefir vísa í ítarefni af öðrum vefjum. Þar virðist ráða för óttinn við að missa lesendur af vefnum og að lesnar síður verði færri en ella því íslenskir vefir, utan ruv.is, eru knúnir af þörf fyrir sölu á auglýsingum og þar skipta tölur um umferð miklu máli. Þarna eru hins vegar íslenskir fréttavefir að gefa lesendum sínum langt nef og neita þeim um helsta kost netsins, þ.e. að tengja saman síður og efni á vefnum.

Íslenskir fréttavefir standa sig heldur ekki nægilega vel í því að birta vísanir í skylt efni af eigin vef, nota lítt millifyrirsagnir þegar fréttir verða langar og margir vefir nýta ekki sérlega vel myndefni til stuðnings greinum. Mbl.is er þó klár undantekning frá því en þar kemur líka aðstöðumunur til, vefurinn býr yfir gríðarlega góðu myndasafni. Notkun mynd- og hljóðbrota er mjög vaxandi með fréttum og það höfðar til stórs hóps vefrápara.

Pressan.is er stundum eins og útibú YouTube hér á landi og mbl.is hefur gert og er enn að gera tilraunir með að vera n.k. sjónvarpsstöð á netinu. Ruv.is nýtir vel sinn gagnagrunn með mynd- og hljóðbrotum til stuðnings fréttum. Þeim hættir hins vegar til að birta of löng myndskeið auk þess sem þau hafa takmarkaðan líftíma á vefnum.

Þetta reddast

Takmarkaður yfirlestur og almennt tímaleysi einkennir vefblaðamennsku á Íslandi. Ég þori að fullyrða að enginn af íslensku fréttavefjunum býr við þann lúxus eins og BBC að hafa einhvern sem yfirfer hverja frétt og tryggir að hún sé hnökralaus áður en hún fer í loftið.

Hvers vegna við sættum okkur við lélegri gæði í skrifum fyrir vef er auðvitað áhyggjuefni en þar kemur örugglega til þetta mátulega kæruleysi sem gerir okkur að Íslendingum. Þetta redddast jú alltaf…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.