Upplifun viðskiptavina er stór þáttur í velgengni fyrirtækja og þar leikur vefurinn lykilhlutverk því þar er oft fyrsta (jafnvel eina) snerting viðskiptavinar við fyrirtækið. Mobile þróunin mun hafa mikil áhrif á upplifun viðskiptavina.

Afar spennandi tímar eru framundan á vefnum. Stóraukin umferð í gegnum snjallsíma og spjaldtölvur breytir upplifun viðskiptavina af þjónustu á netinu.

Úti í heimi varð skalanleg* (responsive eða snjöll) vefhönnun ríkjandi stefna árið 2012. Á Íslandi má segja að fyrstu skrefin hafi verið stigin í þessa átt á síðasta ári en fastlega má búast við að stór hluti nýrra vefja á þessu ári lagi sig að öllum skjástærðum.

Þó skalanlegu vefirnir séu tiltölulega fáir á Íslandi þá má merkja nú þegar ákveðnar tilhneigingar í hönnun þessara vefja (t.d. varðandi leiðarkerfið) án þess að hefð hafi myndast t.d. gagnvart því hvar logo (merki), leiðarkerfi og leit, eða L-in þrjú, eru staðsett.

Í hefðbundinni vefhönnun hafa myndast nokkuð skýrar hefðir í kringum þessi þrjú L en ekki jafn augljósar, eðlilega, í skalanlegri vefhönnun.

Áskorun fyrir stóra vefi

Fyrir stærri vefi er talsverð áskorun að breyta hefðbundnum vef (optímiseraður fyrir 1024px breidd) og aðlaga að 320px, 480px og 768px upplausn (sjá skjámyndir). Það þekki ég frá því verkefni að laga vef Íslandsbanka að öllum skjástærðum. Bankinn er með stórar töflur, reiknivélar, myndabanka og aðra virkni sem fyrirfram má ætla að verði ekki einfaldar í birtingu fyrir snjallsíma.

islandsbanki.is
Vefur Íslandsbanka er skalanlegur. Leiðarkerfið var áskorun sem og töflur og reiknivélar

Eigendur vefja hafa í raun ekkert val. Þeir verða að laga vefi að öllum tækjum, því fyrr því betra. Minn litli vefur (Fúnksjón) er í dag með umferð upp á 15-20%  frá símum og spjaldtölvum sem er vöxtur frá innan við 5% árið áður. Sá vefur er aðeins með mobile útgáfu, skalast ekki en það stendur til bóta á þessu ári.

Fyrirtækjavefir eru líklega með lægri prósentu í heimsóknum í gegnum mobile tæki og sennilegt að sú tala sé í kringum 5-10% í dag. Vöxturinn er þó það mikill að við munum líklega sjá a.m.k. tvöföldun í mobile heimsóknum árið 2013. Erlendis er gert ráð fyrir að netumferð í gegnum mobile tæki fari fram úr netumferð í gegnum tölvur strax á næsta ári.

Frumkvöðlavefir á Íslandi

Einn fyrsti responsive vefurinn á Íslandi er líklega vefur Vátryggingafélags Íslands og vafalaust hafa margir litið til hans þegar lagt var af stað í aðlögun vefja að mismunandi skjástærðum. Önnur tryggingafélög hafa ekki enn sem komið er fylgt í kjölfarið.

vis.is
Vefur VÍS er skalanlegur og líklega með fyrstu responsive vefjum á Íslandi

Eftir því sem ég kemst næst þá eru fjármálafyrirtæki, upplýsingatæknifyrirtæki og stærri ríkisfyrirtæki í meirihluta þeirra fyrirtækja sem hafa tekið upp skalanlega vefhönnun.

Aðeins Íslandsbanki hefur stigið þetta skref af viðskiptabönkunum þremur. Ýmis minni fjármálafyrirtæki (Auður Capital, Virðing og Lykill) hafa hins vegar fetað þessa slóð en merkilegt nokk þá hafa símafyrirtækin Nova, Vodafone og Síminn ekki enn lagt í þessa vegferð þó jólavefur Símans sé undantekning.

Notendur sætta sig ekki við “desktop” vef í síma

Æði stór hluti af netnotkun, þá sérstaklega utan vinnutíma, er í gegnum síma og spjaldtölvur. Upplifunin er beinlínis vond þegar vísað er á “desktop” vef og undantekningalítið hrökklast maður burt af slíkum vefjum, sérstaklega þegar vafrað er í gegnum snjallsíma. Ráp í gegnum Kindle og iPad sleppur oftast en stærri vefir koma illa út í símum, þá sérstaklega þeir sem byggja á mega leiðarkerfi (mega menu).

Yfirlit um íslenska skalanlega / responsive / snjalla vefi

Í þessari grein er ekki gerlegt að hafa tæmandi yfirlit um íslenska responsive vefi en þetta er tilraun til að halda utan um þá helstu miðað við janúar 2013. Í meðfylgjandi lista má finna þá vefi sem ég veit fyrir víst að eru skalanlegir. Gaman væri að fá ábendingar um fleiri.

Athugið: Listi uppfærður 6. febrúar 2013

Ríkisstofnanir
Ríkisskattstjóri – rsk.is
Fjármálaeftirlitið – fme.is
Landsvirkjun – landsvirkjun.is

rsk.is
Vefur Ríkisskattstjóra er stór og skalanlegur

Tryggingafélög
Vátryggingafélag Íslands – vis.is

Upplýsingatæknifyrirtæki
Advania – advania.is
Microsoft á Íslandi – microsoft.is
Reiknistofa bankanna – rb.is

Vefstofur
Hugsmiðjan – hugsmidjan.is
Kosmosogkaos – kosmosogkaos.is

Hugsmiðjan
Hugsmiðjan trúir því að allir vefir eigi að vera snjallir

Bankar
Íslandsbanki – islandsbanki.is
Landsbanki Íslands – landsbanki.is

Fjármálafyrirtæki
Virðing – virding.is
Kreditkort – kreditkort.is
Lykill (fjármögnun MP banka) – lykill.is
Auður Capital – audur.is
Lífeyrissjóður verslunarmanna – live.is 

Dohop leitarvélin
Dohop leitarvélin lagar sig að öllu skjástærðum

 

Ferðabransinn
Íslandsstofa – islandsstofa.is
Inspired by Iceland –  inspiredbyiceland.com

Önnur fyrirtæki
Samskip – samskip.com
Hagar – hagar.is
Dohop – dohop.is
Marorka – marorka.com
Reitir – reitir.is
Jólavefur Símans – jol.siminn.is

Ef þú lesandi góður veist af góðum skalanlegum vef þá endilega sendu mér línu eða kommentaðu í gegnum vefsíðuna.

 

* Þýðing á responsive er ekki óumdeild. Snjöll eða skalanleg vefhönnun er helst notað. Í dag aðhyllist ég skalanleg þar sem mér finnst það vera mest lýsandi en áskil mér rétt til að breyta um afstöðu.

6 Comments

Leave a Reply to Sigurjón Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.