Það kvað við nýjan tón við afhendingu Íslensku vefverðlaunanna þetta árið. Hátíðin hefur verið haldin í gegnum tíðina með nokkuð lágstemmdum hætti á veitingastað og síðustu ár í krúttlegu Tjarnarbíói. Í ár var hins vegar öllu tjaldað til og efnt til fagnaðar í Eldborg, hinum stórkostlega tónleikasal í Hörpu.
Það var öðruvísi stemning. Dálítið settlegra. Mæting var góð en salurinn samt hálf tómur enda líklega um 1500 sæti laus. Fámennt var á svölunum.
Forseti lýðveldisins droppaði við og afhenti ein verðlaun. Vanur maður á ferð enda líklega sá Íslendingur sem hefur mesta reynslu á þessu sviði. Ræðan var stutt en ég datt samt strax út. Kannski föstudagsþreyta, kannski eitthvað annað. Ég ímynda mér að honum hafi verið tíðrætt um íslenska sigra og yfirburði okkar á sviði vefþróunar. Víkingablóðið hefur án efa komið við sögu sem og áræðni, áhættusækni og vinnusemi. Síðan hefur forsetinn líklega óskað okkur til hamingju með daginn áður en hann hélt á braut.
Einar Þór, formaður SVEF, tók við keflinu af forsetanum og kynnti hina verðlaunahafana. Hann kynnti líka dómnefnd sem var frábærlega skipuð þetta árið. Í fyrra var að mínu mati ekkert jafnvægi þegar litið var til bakgrunns hópsins.
Í ár var dómnefndin skipuð einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn:
Virkilega góð blanda þar sem allar stoðir vefsins áttu sinn fulltrúa. Fagnaðarefni líka að sjá fulltrúa frá hinu opinbera sem eru annars sjaldséðir í SVEF samfélaginu.
Eitt sem má gagnrýna varðandi skipan nefndanna (fyrir utan hvað greyið fólkið fær litla umbun) er að ekki eru til varamenn þegar kemur upp vanhæfi. Óneitanlega þá kemur það reglulega upp í störfum nefndarinnar. Stundum þurftu 3 af 7 nefndarmönnum að víkja í mati á tilnefndum vef sem er vitaskuld bagalegt. Heppilegra væri að í slíkum tilvikum væru til varamenn. Eins er ekki óhugsandi að taka upp aðferðir hundaræktenda (!) og fá inn erlenda sérfræðinga með í dómnefndarstörfin.
Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins. Þau hafa verið haldin frá árinu 2000 þegar strik.is hlaut verðlaun fyrir besta vefinn. Hátíðin er haldin með það að markmiði að efla vefiðnaðinn, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Verðlaunahafar þetta árið voru:
Ef við getum talað um einhvern sigurvegara í hópi vefstofa á þessari hátíð þá var uppskeran best hjá vefstofunni í Keflavík, Kosmos og Kaos. Hugsmiðjan var sigurvegari síðasta árs. Skapalón átti hins vegar flestar tilnefningar í ár. Þessar vefstofur (og fleiri) eru vitaskuld með frábært hæfileikafólk innan sinna raða og allar líklegar til stórræðna á næstu árum.
Ferðabransinn var áberandi meðal verðlaunahafa og kemur kannski ekki á óvart því gróskan þar er mikil. Þar sem tekjurnar eru mestar þar verða líklega alltaf metnaðarfyllstu vefirnir smíðaðir.
Þrír af verðlaunavefjunum eru skalanlegir (bluelagoon.com, dohop.is og hugsmidjan.is) en fastlega má búast við að þorri verðlaunaðra vefja á næsta ári verði responsive (skalanlegir eða snjallir).
Flokkarnir 11 sem SVEF býður upp á eru umdeildir og kominn tími á breytingar. Ég hef aldrei áttað mig á muninum á þjónustu- og upplýsingavefnum og svo sölu- og kynningarvefnum. Að vera með sér flokk sem heitir smá- eða handtækjavefur er spes og verður líklega ekki endurtekinn. Það eru allir vefir smá- eða handtækjavefir (hvað eru handtæki?) í sjálfu sér þó þeir lagi sig kannski ekki allir sem best að símum og spjaldtölvum.
Aðstöðumunur hjá fyrirtækjum er oft á tíðum gríðarlegur þegar kemur að fjármagni og mannskap. Þess vegna var líklega ákveðið að bjóða upp á sér flokk fyrir minni fyrirtæki á sínum tíma sem er vel. En það þarf að gera fleiri breytingar. Hér er mín tilllaga um flokka:
Það eru ákveðin rök fyrir því að taka út nokkra geira þ.e. fjármálastofnanir, opinber fyrirtæki og fyrirtæki í ferðamálum. Þetta eru stórir geirar með sérstöðu sem væri hægt að rökstyðja nánar síðar. Það er sjálfsagt að halda í verðlaun fyrir minni fyrirtæki. Einnig finnst mér að megi sameina áhugaverðasta og frumlegasta flokkinn. Appið á að sjálfsögðu heima í þessum hópi þó sum þeirra séu strangt til tekið ekki veflausnir (efni í marga pistla). Ég hef mikinn áhuga á því að hafa flokk fyrir innri vefi en það er hinn þögli og ósýnilegi hluti vefheimsins sem svo margir annars hafa snertingu við.
Hvað sem öllu líður þá á vefurinn og vefbransinn bjarta framtíð um ókomin ár. Það sýndi sig á þessari hátíð.