Það má til sanns vegar færa að ég sé nokkuð reyndur í vefmálum. Það breytir því hins vegar ekki að ég get verið stundum ansi mikill amatör og hef reyndar viðurkennt á mig fúsk. En kann ég að koma vef í fyrsta sæti í Google?

Google Webmasters gðgnTölum um leitarvélabestun. Eða ætti ég að segja markaðssetning á netinu? Þarna er klárlega svið sem liggur utan við mína sérfræðiþekkingu. Það breytir því ekki að ég skrifa stundum um efnið og vissulega má segja að ég sé stundum býsna gagnrýnin á starfsaðferðir sérfræðinga á þessu sviði.

Menn leggja ýmislegt í sölurnar til að verða nr. 1 í Google. Á Íslandi eru flest leitarorð hins vegar ekki óyfirstíganlegur hjallur. Það hef ég reynt og bara reyndar alveg óvart. Leyfið mér að koma með dæmi.

Bloggið og sýnileiki í leitarvélum

Fyrir tæplega 4 árum, í lok árs 2009, setti ég upp þennan vef funksjon.net. Hann var hugsaður sem stuðningsvefur fyrir námskeið sem ég byrjaði að kenna hjá Endurmenntun Háskóla Íslands á sama tíma. Vefurinn fór ósköp rólega af stað, stöku grein með löngu millibili var birt á vefnum og þá gjarnan í samhengi við ný námskeið sem ég kenndi ca. tvisvar sinnum á ári.

Síðar fór ég að hugsa. Úr því að ég var að lesa allar þessar bækur um vefmál til að halda mér á tánum, hví ekki að skrifa útdrátt og lærdóm af því sem ég fékk með lestri bókanna. Í raun eigingjörn hugsun.

Ég er ekki svokallaður límheili, heldur verð að hamra hluti, helst með lyklaborði, til að skilja til fulls. Sem ég og gerði. Skrifaði grein eftir grein um bók eftir bók. Hafði ekkert annað í huga en að þjóna í raun eigin sjálfselskum hvötum og styðja í leið við nemendur mína.

Umferð á vefinn var ósköp lítil til að byrja með og reyndar tvö fyrstu árin. En svo fór ég að rýna í gögn úr Google Analytics. Stöðugt fleiri voru að koma inn í gegnum Google leitarvélina. Það varð klárlega til að ýta undir eigin hégómagirnd. Úllala, ég er ekki lengur á síðu 3 í Google. Blessaður nafni minn myndhöggvarinn var búinn að einoka niðurstöður leitarvélarinnar líklega frá fyrsta degi.

Sjálfur hafði ég engan áhuga á að skyggja á listamanninn Sigurjón Ólafsson. En fyrir sakir eigin athyglissýki (introvertinn leynir á sér) þá kitlaði mig aðeins að finnast undir leitarorðum eins og vefráðgjöf, vefstjóri, vefmál, skrif fyrir vef, námskeið og annað efni sem ég var reglulega að skrifa um.

Maður skrifar ekki fyrir leitarvélar. Punktur.

Ég hafði sjálfur kynnst starfsaðferðum sérfræðinga í leitarvélabestun og vissulega minntust þeir stundum á að mikilvægt væri að endurnýja efni en meiri áhersla var á að nota reglulega „réttu“ lykilorðin (keywords) til að skreyta textann með, hafa sama efnið sem víðast á netinu og ná sem flestum tenglaskiptum. Aðferðir sem voru ekki til að þjóna lesendum heldur leitarvélum því þær skila árangri var mér sagt.

Allt í góðu. Komum okkur að kjarna málsins. Ég veit í raun mest lítið um markaðssetningu á netinu (a.m.k. lítið um trikkin) en á fjórum árum og tæplega þó kemst ég að því að það er bara eitt sem hægt er að stóla á til að vera sýnilegur í leitarvélum. Nefnilega gott efni sem er uppfært reglulega.

Hvað er svo í gangi? Ég verð bara að biðjast forláts. Það var ekki ætlunin að troða mér fram fyrir sérfræðinga eins og vefhönnuði, auglýsingastofur og ég tali nú ekki um sérfræðinga í leitarvélabestun í niðurstöðum leitarvéla (svei mér þá, ég hef dúkkað upp á síðu 1 í Google fyrir orðið sem ég kann ekki við að nefna enn einu sinni í sömu grein). Mér finnst þetta hálfpartinn óþægilegt og vildi gjarna gefa sumt af þessu eftir.

Puð og tímafrek vinna!

Lesandi góður, það er í raun fátt sem þú getur stólað á annað en vönduð regluleg skrif til að skila þér raunverulegum árangri í leitarvélum. Þetta er puð og tímafrekt í þokkabót.

Eitt og annað getur stutt við það, svo sem hraður vefur og gott vefumsjónarkerfi en þetta eitt og sér kemur þér ekki á síðu 1 í Google.

Fyrirgefðu ástin mín, mér þykir þetta leitt. Ég ætlaði alls ekki að stíga í vænginn, en Google sér eitthvað við mig. Ekki hafa áhyggjur. Google leitarvélin er eins blind og manneskja getur orðið blind. Henni er þar af leiðandi sléttsama um útlit, flotta virkni og skeytir lítt um myndefni, myndbönd og hljóð. Þú hefur ekkert að óttast. Þessi ást er bara platónsk og ég viðurkenni ekki að hún sé endurgoldin en mér þykir samt stundum vænt um leitarvélina blessaða.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.