Sumarið er tíminn sem ég nota í tiltekt á vefnum og þá kemur Google Analytics í góðar þarfir. Það er yndislegt að geta unnið heilu vinnudagana án áreitis. Vá hvað maður getur komið miklu í verk!

Júlí er æðislegur mánuður í vinnu. Á mínum sextán ára ferli í starfi vefstjóra þá var alltaf tilhlökkun að fá loks að vinna í friði. Best var að taka frí í júlí. Ekki misskilja mig, mér finnst æðislegt að komast í frí en það sem er svo gott við júlí er að þá eru allir aðrir í fríi. Friðurinn maður! Síminn hringir ekki, áreiti í tölvupóstum er lítið og kannski það besta að enginn boðar fundi.

Aðferðafræði Hússtjórnarskólans

Þegar ég stýrði bankavefjum þá hafði ég það fyrir reglu að ræsta vefina á sumrin og helst um áramót líka. Yfir veturinn hleðst alls konar drasl á vefina, óþarfa síður og efni verður úrelt.

Þessi aðferðafræði er þekkt í Hússtjórnarskólanum en ég er af þeirri kynslóð sem á mömmu sem gerði vorhreingerningar og jólahreingerningar. Það fór allt á hvolf og varð stundum mikið stress, sérstaklega fyrir jólin. En það er ekkert stress í sumarhreingerningunni á vefnum. Það ríkir bara friður.

Veltið þið því stundum fyrir ykkur hversu mikið drasl hefur safnast upp á einu ári heima hjá ykkur? Jólagjafirnar sem enginn hafði not fyrir, dótið sem krökkunum hefur áskotnast og hafa misst áhugann á, heimilistækin sem áttu að létta störfin en taka allt borðplássið, bækurnar sem voru keyptar á bókamörkuðum liðinna ára og safna ryki, fötin sem hanga enn upp í skáp með merkimiðanum, skótauið frammi í forstofu og allar vetraryfirhafnirnar. Úff hvað þetta er pirrandi. Við þurfum ekki allt þetta dót!

Og við þurfum heldur ekki allar þessar síður á vefnum, öll þessi skjöl, þessa textahlemma og illa lyktandi efni. Sullum því Ajax (hreingerningalegi þ.e.a.s.) á vefinn og skúrum í öll horn.

Skrúbbum langa halann

Gerry McGovern talar um langa hálsinn og langa halann í bókinni Stranger’s Long Neck. Þessi skýringarmynd hér fyrir neðan segir nánast alla söguna. Það er þess virði að ramma hana inn. Í langa hálsinum er efnið sem skiptir mestu máli og við þurfum að hlúa sérstaklega að því. Í langa halanum er mesta magnið af efni en minnst sótta. Stóri hluti af því má líklega missa sín.

Stranger's Long Neck
Mestu verðmætin liggja í langa hálsinum en ekki langa halanum

 

Aðeins lítill hluti efnis á hverjum vef skiptir virkilega máli. Margir vefir þola 60-80% niðurskurð og skila í kjölfarið mun betri árangri. Það hef ég sannreynt sjálfur og margar aðrar rannsóknir styðja það.

Höfum hugfast að vefstjóri hefur takmarkaðan tíma til að sinna starfinu. Eftir því sem vefurinn hleður utan á sig efni þá eykst tíminn sem þarf í viðhald og það sem verra er að óþarfa efnið mengar. Torveldar aðgang að því efni sem skiptir virkilega máli.

Hræðumst ekki Google Analytics

Google Analytics er verkfærið sem við eigum við að beita í baráttunni við efnisóværuna. Með þessu verkfæri getum við komist að því hvaða efni er mest skoðað. Ef þið eruð með meðalstóran eða stærri vef lofa ég ykkur því að þið fáið upp sambærilega mynd, þ.e. langan háls og langan hala.

Margir vefstjórar mikla það fyrir sér að skoða Google Analytics sem er algjör óþarfi. Þetta er mjög vinalegt tól. Vitaskuld er alls konar virkni þarna sem fæstir þurfa á að halda en gildir það ekki um öll forrit? Hræðumst það eigi. Ég fylgist með umferð á eigin vef á hverjum degi og jafnvel oft á dag t.d. þegar ég sendi út fréttabréf eða birti færslu á vefnum.

Skjámynd úr Google Analytics um umferð á funksjon.net
Þessi mynd minnir á jarðskjálftamæli en segir mér talsverða sögu

 

En hvaða gögn skipta mestu máli að skoða? Það er erfitt að gefa út algild svör um það. Það veltur nokkuð á hlutverki og markmiðum vefsins. Er þetta fréttavefur, söluvefur, þjónustuvefur, upplýsingavefur, vefverslun eða annað?

Þú sem eigandi vefsins þarft að skilgreina markmið með vefnum og hefur vonandi gert það. Notaðu þau markmið sem leiðarljós í rýni þinni á umferð um vefinn. Er markmiðið að safna áskrifendum að fréttabréfi, fá fólk til að lesa sem flestar greinar og deila þeim? Eða er markmiðið að auka sjálfsafgreiðslu, beina fólki í vefverslun og auka sölu á netinu?

Sestu yfir eigin markmið og út frá þeim skoðaðu umferðina í Google Analytics.

Til að gefa almennar leiðbeiningar þá hef ég tekið saman nokkur atriði sem flestir vefstjórar ættu að rýna reglulega í óháð eðli eða markmiðum vefsins.

  • Fjöldi einstakra (unique) notenda og hvaðan þeir koma. Ef margir vefir hafa tengla á þinn vef er það merki um að þú sért að gera eitthvað rétt. Magn er þó ekki það sama og gæði.
  • Hlutfall notenda sem koma aftur á móti hlutfalli nýrra notenda. Það er gott merki ef notendur koma ítrekað aftur á vefinn.
  • Hvernig notendur ferðast notendur um á vefnum. Hversu lengi þeir dvelja á síðu og hve margar síður þeir skoða. Er brotthvarfshlutfallið (e. bounce) hátt, þ.e. þeir sem skoða aðeins eina síðu og fara svo? Á hvaða síðu fara flestir út af vefnum (exit)?
  • Skoða hlutfall snjalltækjanotenda þ.e. þeirra sem koma inn á vefinn með símum og spjaldtölvum. Þarftu að hraða endurhönnun vefsins og gera vænan fyrir snjalltæki?
  • Rýna í hvaðan notendur koma, er það frá leitarvélum, samfélagsmiðlum, beint inn á vefinn eða með vísun frá öðrum vef?

Njóttu friðarins á næstu vikum og taktu til. Þér á eftir að líða svo miklu betur! Og ég lofa þér að fæstir hagsmunaaðilar í þínu fyrirtæki munu kvarta undan tiltektinni og örugglega enginn viðskiptavinur. Það mun öllum líða betur.

Gleðilegt sumar!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.