2015 Intranet Design AnnualNielsen Norman Group hefur í 14 ár efnt til samkeppni um bestu innri vefina í heiminum. Öllum er frjálst að senda inn tilnefningar, frá hvaða landi sem er og frá hvaða fyrirtæki sem er. Yfirleitt eru sigurvegararnir stór fyrirtæki og reyndar nær öll risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða með að meðaltali 14.250 starfsmenn þetta árið. Eitt íslenskt fyrirtæki hefur komist í þessa frægðarhöll, Kaupþing árið 2009.

Niðurstöður fyrir 2015 skýrsluna voru nýlega birtar og í þessari grein ætla ég að tæpa á því helsta sem einkennir hlutskörpustu innri vefina. Auk þess að rýna í helstu tilhneigingar í hönnun og virkni greina skýrsluhöfundar m.a. frá meðalstærð teyma sem vinna að innri vefnum og hversu langan tíma vinnan tekur.

Stærri teymi og minni tími

Í ár er tilhneigingin sú að teymin eru að stækka og það tekur styttri tíma að smíða innri vefi eða að meðaltali um 17 mánuði sem telst drjúgt í íslenskum veruleika. Þessi tími hefur farið hratt niður á við síðustu ár enda er önnur tilheiging sú að unnið er að stöðugum umbótum í stað þess að vera með “stóra” opnun á nokkurra ára fresti. Alment er það farsælli aðferð í stórum vefverkefnum, innri sem almennum vefverkefnum.

Íslenskir vefstjórar líta örugglega með öfundaraugum á fjölda starfsmanna sem er í meðal innri vefs teyminu en í “minni” fyrirtækjum með undir 5.000 starfsmenn eru að meðaltali 9 starfsmenn í teymi á hverja 1.000 starfsmenn. Það myndi þýða að nokkur íslensk fyrirtæki ættu að vera með 6-10 starfsmenn í slíku teymi. Ég þykist vita að það sé fjarri öllum raunveruleika.

Í 8 af 10 fyrirtækjum sem unnu að þessu sinni var notast við aðkeypta ráðgjöf af ýmsu tagi t.d. varðandi efnisstefnu (e. content strategy) og þjálfun í efni, hönnun, forritun, uppsetningu, upplýsingaarkitektúr, tengingum við kerfi, SharePoint, samfélagstól, verkefnastjórnun, nytsemi, undirbúning og þarfagreiningu.

Hvað einkennir innri vefina?

Nokkur samsvörun er í hönnun innri vefja við það sem er að gerast í hönnun ytri vefja. Eftirfarandi eru mest áberandi tilhneigingarnar á innri vefjum í ár (afsakið slakar og/eða skort á þýðingum sums staðar):

  • Skalanleg vefhönnun. Fimm af tíu innri vefjum voru snjallir / skalanlegir (e. responsive). Fyrirtækin náðu að sigrast á algengum áhyggjum af öryggi og buðu starfsmönnum aðgang að efninu á ýmsa vegu.
  • Leitarsíun. Algengasta tilhneigingin á innri vefjum í ár eru auknir möguleikar á að sía niðurstöður, eftir flokkum eins og áður en líka með nánari efnisorðum og skilgreiningum (e. faceted search). Þetta krefst þess að leitartæknin bjóði upp á þennan möguleika sem og að tryggja að lýsandi lykilorðum sé bætt við efni sem er sett inn.
"Hover" virkni í leitarniðurstöðum
“Hover” virkni í leitarniðurstöðum
  • “Hover” virkni fyrir skjótvirkara aðgengi að leitarniðurstöðum. Hönnuðir innri vefja eru farnir að veita greiðara aðgengi að upplýsingum með minni fyrirhöfn. Með því að fara með músinni yfir tilteknar leitarniðurstöður er hægt að fá ítarupplýsingar án þess að smella. Þetta er nokkuð sem SharePoint býður upp á í nýjustu útgáfu sinni.
  • Leit sem virðir ekki landamæri. Enn önnur tilhneiging sem tengist leit en er ekki jafn sterk og aðrar tilhneigingar er leit sem virðir ekki landamæri (e. federated search) eða virkni sem leitar í öllum hlutum vefsins. Þessar girðingar í leit hafa lengi verið til vandræða á stærri innri vefjum.
  • Flöt hönnun. Svonefnd flöt hönnun er orðin ríkjandi í vefhönnun í dag þar sem skuggar og kúptir hnappar víkja fyrir flötum ferhyrningum og hringjum.
  • Róterandi bannerar. Það er ekkert lát á róterandi bannerum á innri vefjum þó svo að þeir virðist vera á útleið í almennri vefhönnun.
  • Mælikvarðar fyrirtækisins á forsíðu. Til að upplýsa og hvetja starfsmenn áfram setja nokkur fyrirtæki ýmsa mælikvarða fyrirtækisins á forsíðu innri vefsins, svo sem hlutabréfaverð og aðra árangursmælikvarða.
  • Ofurleiðarkerfi. Á stórum innri vefjum eru ofurleiðarkerfi (e. megamenus) algeng til að birta valmynd á djúpum innri vefjum.
  • Snjallar myndbandalausnir. Það hafa margir áttað sig á möguleikum og áhrifamætti þess að nýta myndbönd á snjallan hátt á innri vef. Notkun snjallsíma hefur gert þennan möguleika mun aðgengilegri en áður.
  • Feitir fætur. Nokkrir verðlaunavefir bjóða upp á stóra “fætur” og gefa þannig notendum vefsins tækifæri á að finna það sem leitað er að neðst á síðunni. Þetta hefur gefist vel í almennri vefhönnun. Þessi stóru fætur eru skýrt aðgreindir í hönnuninni með öðrum bakgrunnslit. Notendur búast orðið við að finna mikilvæga tengla í fætinum.

Þetta var í stuttu máli það helsta sem einkennir bestu innri vefina 2015 samkvæmt skýrslu Nielsen Norman Group. Ég hvet þá sem hafa áhuga á að kynna sér efnið betur að kaupa eintak af skýrslunni. Stóri ávinningurinn er mikill fjöldi skjáskota sem lesendur fá að heimi sem er flestum hulinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.