Fúnksjón vefráðgjöf hóf starfsemi 1. ágúst 2013 og því er nýlokið öðru heila starfsári þessarar ráðgjafar. Ég gerði upp árið 2014 í pistli og mér finnst gott að halda þessari hefð og gefa út nokkurs konar ársskýrslu Fúnksjón slf. – ekki síst fyrir mig sjálfan. Hér er ekkert dregið undan og tölfræðin opnuð upp á gátt. Raunveruleikaþáttur í boði Fúnksjón.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá er Fúnksjón slf. vefráðgjöf eins manns, Sigurjóns Ólafssonar, og það er nánast meitlað í stein að starfsmönnum skal ekki fjölgað. Það leit ekki vel út með það markmið í byrjun árs 2015 en frá upphafi árs og fram að sumarfríi var ég kafsigldur í verkefnum. Sem betur fer var seinni hluti ársins rólegri.

Ég vil meina að Fúnksjón hafi nokkra sérstöðu á markaðnum. Að starfa einn þýðir að ég er engum háður en þekki markaðinn ansi vel. Það er líka góð tilfinning að geta nýtt nær tveggja áratuga reynslu af vefmálum til að styrkja vefmál fyrirtækja og stofnana. Mottó mitt er og hefur alltaf verið einfalt: Að hjálpa fyrirtækjum að búa til einfaldari og betri vefi.

20% veltuaukning

Það hefur verið sígandi lukka í starfseminni. Ég var að taka saman tölur um veltu frá byrjun. Hún hefur vaxið jafnt og þétt eða um 20% á milli ára. Stundum er ég áhyggjufullur um hvort ég hafi nóg af verkefnum en svo tekst mér talsvert oftar að hafa stórar áhyggur af því að hafa of mikið að gera. Konan segir að mér sé ekki viðbjargandi. Það verður jú einhver að hafa áhyggjur!

Það þekkja það flestir sem stunda eigin rekstur að það er ekki nóg að vera önnum kafinn í verkefnum dagsins heldur verður jafnt og þétt að huga að verkefnum morgundagsins. Ég hef verið svo heppinn að verkefnin hafa nær öll komið til mín og ég hef í raun aðeins “sótt” tvö verkefni en þau hafa reyndar verið með þeim stærstu sem ég hef sinnt frá upphafi. Svo ég ætti nú kannski að vera duglegri að sækja! Það er nefnilega þannig með þessi verkefni sem eru sótt að þau langar mann sérstaklega mikið í. Enn sem komið er hef ég ekki lent í neinu verkefni sem hef séð eftir að hafa tekið að mér. En ég hef líka afþakkað nokkur, fyrst og fremst þar sem ég taldi að aðrir væru betri en ég að sinna því.

Vindum okkur þá í starfsemi ársins. Hún var í stuttu máli talsvert frábrugðin fyrri árum. Minni tími var fyrir skrif, ég minnkaði við mig kennslu og afþakkaði boð um að halda fyrirlestra. Þess í stað tók ég að mér mun fleiri ráðgjafaverkefni og fyrsta stóra innravefs verkefnið leit dagsins ljós. Auk þess gaf ég út bók og fjölskyldan stóð í heilmiklum húsnæðisframkvæmdum fyrstu mánuði ársins.

 

Bókin um vefinn og önnur skrif

Bókin um vefinnLíkt og árið 2014 bitnuðu annir mikið á eigin skrifum sl. ár, svo mikið að mér er eiginlega illt. Janúar byrjaði af krafti með þremur greinum en svo liðu hvorki fleiri né færri en fimm mánuðir þar til næsti pistill fór í loftið. Í millitiðinni kom út Bókin um vefinn og einhverjir vildu álykta að ég væri mettur. Bókin komin út og verkefninu því lokið! Nei öðru nær, ég hef mikla ástríðu fyrir því að skrifa en vantar meiri tími og líklega betra skipulag.

Eins og áður hefur verið nefnt var langþráðu markmiði náð í febrúar 2015 þegar Bókin um vefinn: Sjálfshjálparkver fyrir metnaðarfulla vefstjóra leit loksins dagsins ljós eftir talsvert langa meðgöngu. Ég get ekki annað en verið sáttur með viðtökurnar. Bókin fékk mikið lof frá fólki sem ég met mikils og fólki sem ég vissi ekki áður deili á eða taldi ekki að hefði áhuga á efninu. Það hafa margir spurt mig um sölutölur en mér skilst á forleggjaranum að bókin hafi selst í 5-600 eintökum (nóvember 2015) sem ég er ferlega ánægður með. Fyrir utan örfáar Facebook auglýsingar hefur bókin ekkert verið auglýst.

Bókin um vefinn hefur verið kennd í Tækniskólanum og Háskóla Íslands (eh… já ég kenni í báðum skólum!). Vonandi ratar hún inn í námskrár fleiri menntastofnana. Ég veit um tvær vefstofur sem hafa keypt bókina í talsverðu magni og gefið sínum viðskiptavinum. Það er reyndar mjög snjall leikur því með lestri bókarinnar eru góðar líkur á að vefstofurnar fái talsvert betri viðskiptavini með skýrari sýn á vefmálin.

Fréttabréfið – Fróðleikur um vefmál – kom út sex sinnum á árinu. Áskrifendum hefur fjölgað hægt og bítandi en ekkert átak hefur verið gert til að fjölga þeim. Frá því að fréttabréfið hóf göngu sína í lok apríl 2014 hefur áskrifendum fjölgað um tæp 300% úr litlum 62 áskrifendum í 184. Ég er afskaplega sáttur með þennan fjölda því meirihluti af áskrifendum les fréttabréfið samkvæmt tölfræði MailChimp. Þetta leshlutfall ásamt þeim fjölda sem smellir á tengla úr fréttabréfinu er langt umfram öll meðaltöl sem gefin eru upp eins og myndin fyrir neðan ber með sér.

Lestur og smellir á Fróðleik um vefmál

En skoðum aðeins betur tölfræði ársins um skrifin:

  • 9 greinar birtar á funksjon.net sem er veruleg fækkun frá fyrra ári en þá voru þær 26
  • 182 áskrifendur voru að Fróðleik um vefmál í árslok og fjölgaði um 38
  • 6 fréttabréf gefin út
  • 2 greinar í Tölvumál Ský (umfjöllun um vefumsjónarkerfi o.fl.)
  • 2 greinar birtar í vefútgáfu Tölvumála Ský
  • 1 bók gefin út! – Bókin um vefinn: Sjálfshjálparkver fyrir metnaðarfulla vefstjórnendur

Kennslan og fyrirlestrar

Annað hryggjarstykkið í starfsemi Fúnksjón er kennsla og hitt er vefráðgjöf. Á vorönn 2015 var ég hvorki að kenna í Háskóla Íslands né að kenna önnur námskeið. Það hefur ekki gerst í háa herrans tíð og mikil lukka því ég hefði líklega annars bugast með kennslu ofan á álagið sem var á fyrri hluta ársins. Á haustönn kenndi ég hins vegar námskeið í HÍ eins og undanfarin ár, var með stundakennslu í öðru námskeiði í HÍ og loks kenndi ég þrjár lotur í nýju námi í vefþróun í Tækniskóla Íslands.

Skoðum tölfræði um kennslu, fyrirlestra og nemendur:

  • 2 opinberir fyrirlestrar (SKÝ og SVEF) og nokkrir óopinberir
  • 2 námskeið fyrir MA-nemendur í Háskóla Íslands á Hugvísindasviði
  • Kennsla í vefþróun við Tækniskóls Íslands
  • 60 (ca) nemendur í heild hafa sótt námskeið mín á árinu
  • 200 (ca) manns (yfir 1000 ef upptaka er talin með) hafa hlýtt á fyrirlestra sem ég hef haldið á árinu
  • 6 nemendur aðstoðaðir í verkefnum við Háskóla Íslands

Fyrirlestur sem ég hélt hjá SVEF (Samtök vefiðnaðarins) í nóvember vakti talsverða athygli en þar leitaðist ég við að upplýsa hvað vefur kostar. Fundurinn var vel sóttur og auk þess voru margir sem horfðu á í beinni útsendingu eða hafa horft á upptöku síðar. Alls eru 815 áhorf komin á YouTube þegar þetta er skrifað. Enn fremur var frétt á visir.is um efnið.

Tölfræði funksjon.net

Í takt við mun færri greinar á árinu (9 í stað 26) minnkaði umferð um vefinn minn annað árið í röð en þó ekki nema um 26% sem ég er bara sáttur við. Það gleðilega við árið er að greinar sem ég þó birti vöktu nokkrar talsverða athygli og eru meðal mest lesnu greina frá upphafi bloggsins.

Umferð um funksjon.net

Yfirlit umferðar árið 2015 (2014 í sviga)

  • 4.505 (5.755) gestir
  • 6.518 (8.818) heimsóknir
  • 13.225 (18.874) síður skoðaðar
  • 2,03 (2,14) síður í hverri heimsókn
  • 1,49 (2,13) mínútur í meðaldvalartíma
  • 63,18 (61,85%) brotthvarfshlutfall

Hvaðan komu heimsóknirnar?
Hæsta hlutfall heimsókna er í gegnum leitarvélar en talsverð fækkun var þó í hlutfalli umferðar frá öðrum vefjum sem skýrist aðalllega af því að árið 2014 fékk vefurinn mikla umferð frá visir.is og mbl.is í tengslum við umfjöllun um greinar á vefnum um sveitarstjórnarkosningar. Tölur frá 2014 eru í sviga.

  • 37% (27%) í gegnum leitarvélar
  • 33% (35%) frá samfélagsmiðlum
  • 25% (23%) beint á vefinn
  • 4 (14%) vísanir af öðrum vefjum

Mest lesnu greinarnar á funksjon.net
Það er tæplega hægt að birta 10 mest lesnu greinarnar á vefnum fyrir árið 2015 því útgefnar greinar voru aðeins 9! Ég skammast mín og lofa úrbótum. En þessar sem ég birti fengu margar ansi mikla umferð og bæta upp að einhverju leyti fyrir lítið framboð. Tvær mest lesnu greinarnar eru núna komnar í 2. og 3. sætið yfir mest lesnu greinar á funskjon.net frá upphafi eða nóvember 2010.

Sex mest lesnu greinarnar voru (fjöldi “page views” í sviga) og aðeins sjónarmunur á tveimur efstu:

Viðskiptavinirnir

Á árinu hef ég unnið fyrir 31 fyrirtæki/stofnanir/félagasamtök í smærri og stærri verkefnum. Ég varð var við að flestir viðskiptavinir á liðnu ári komu í gegnum tilvísanir frá eldri viðskiptavinum sem er meiri háttar. Ég fór ekki á einn einasta sölufund þetta árið af eigin frumkvæði. Það er alltaf eitthvað um að kennslan skili um síðir viðskiptavinum en orðsporið er allt sem ég á og ég gæti þess eins og sjáaldur augna minna.

Flest verkefni hafa verið eins og áður í undirbúningi nýrra vefverkefna. Eitt stærsta verkefni ársins var innrivefs verkefni og auk þess sinnti ég verkefnastjórn í nokkrum verkefnum. Meðal fyrirtækja sem ég vann fyrir á árinu eru:

  • Betware / Novomatic Lottery Solutions
  • Bláa lónið
  • Dómstólaráð (Héraðsdómstólar)
  • Eimskip
  • FitSuccess / Betri árangur
  • Forsætisráðuneyti
  • Hæstiréttur
  • Hafnarfjörður
  • Háskóli Íslands
  • Isavia
  • Landspítalinn
  • Menntamálastofnun
  • Öryrkjabandalag Íslands
  • RARIK
  • Saga Travel
  • Seyðisfjörður
  • SFR

Nokkrir nýir vefir litu dagsins ljós þar sem mín ráðgjöf átti hlut að máli:

Auk þessara eru margir vefir í farvatninu þar sem ég hef komið að ráðgjöf. Sumir munu ekki líta opinberlega dagsins ljós (innri vefir) og önnur verkefni eru á sviði stefnumótunar, greiningar eða annarar vefráðgjafar þar sem nýr vefur er ekki markmiðið.

Vöruþróun stöðvuð

Meðvitaður um flopp ársins 2014 þegar ég bauð fram vöru sem enginn (0) hefur litið við þá lét ég staðar numið og einbeitti mér að núverandi vöruframboði. Ef það er eitthvað sem er öruggt í þessum heimi (fyrir utan að við munum öll einhvern tíma deyja) þá gildir hið fornkveðna að minna er meira. Í rekstri eins og mínum skiptir höfuðmáli að halda fókus. Bjóða upp á vel skilgreinda ráðgjöf og besta hana ár frá ári. Þess vegna varð engin ný vara til hjá Fúnksjón árið 2015!

Verkefnastaðan 2016

Ég var með áhyggjur af því í ársbyrjun 2015 (alltaf með áhyggjur) að ég þyrfti að fara að ráða starfsmann en það leystist sem betur fer.

Árið 2016 lítur vel út. Ég er enn að hnýta lausa enda í nokkrum stórum verkefnum sem vonandi klárast í janúar og febrúar. Auk þess eru a.m.k. þrjú verkefni að fara af stað í janúar og tvö af þeim innrivefs verkefni. Já og þessu til viðbótar er ég að hefja kennslu í nýju námskeiði í Háskóla Íslands sem á eftir að taka drjúgan tíma.

Árið 2016 ætlar því að fara af stað með sömu látum og liðið ár. Ég hvet þá sem vantar leiðsögn í vefmálum að hafa samband sem fyrst til að tryggja sér tíma í vefráðgjöf á fyrsta ársfjórðungi því hendur mínar eru aðeins tvær.

Farandskrifstofan

Fjölskyldan flutti út á land fyrir tæpu ári síðan og ég bý núna í skemmtilegu sjávarþorpi við Faxaflóann þar sem við unum okkur vel. Heimili mitt í Hafnarfirði hefur verið mín bækistöð flesta vinnudaga sl. árs og ég kann því vel að skipta tíma mínum á milli skrifstofu á Laugavegi (101), heimavinnustöð (220), hjá viðskiptavinum (101-240) og mörgum kaffihúsum á höfuðborgarsvæðinu.

Gleðilegt nýtt vefár!

Ég hef ágæta tilfinningu fyrir þessu ári. Það hefur verið sígandi lukka í minni starfsemi. Ég vona að svo verði áfram og líka hjá ykkur.

Takk fyrir samstarfið og lesturinn á árinu sem er liðið. Verið dugleg að hugsa um vefinn ykkar á nýju ári. Gleðilegt nýtt vefár!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.