Það er að verða hálft ár frá því að ég skrifaði færslu síðast á vefinn minn. Það er alltof langur tími og þá ekki síst fyrir mig sjálfan. Vonandi hafa einhverjir lesendur líka saknað þess.

Bókin um vefinn kom út í mars sl. og frá þeim tíma hef ég ekki skrifað stafkrók. Var bókin sjálf orsakavaldur? Er Sigurjón saddur? Hefur hann ekkert meira að segja? Nei, ekkert af þessu skýrir þögnina.

Orsökin liggur ekki síst í því að ég tók upp á því að skipta um húsnæði í byrjun ársins og fjölskyldan tókst á við stór og mikil verkefni i framkvæmdum sem rifu frá mér kvöld og helgar sem fram til þessa hafa verið nýtt fyrir bloggskrif. Og þeir sem þekkja það að vera á hvolfi í vinnu (aldrei verið jafn mikið að gera í ráðgjöfinni), með ung börn og stússast í verklegum framkvæmdum heima fyrir vita að það skilur ekkert bensín eftir á tankinum.

Tæpu hálfi ári síðar ætla ég að gera tilraun til reglulegra bloggskrifa. Ekki vegna þess að mér finnst ég bera skylda til þess heldur vegna þess að ég hef þörf fyrir það. Skrifin hafa alltaf verið fyrir mér verkfæri til að losa mig við hugsanir, tappa af í einhverjum skilningi og miðla þekkingu.

Eftir svona langt hlé er erfitt að byrja. Hugsunin er að fyrsta færslan verði að vera sérlega góð, helst sú besta sem ég skrifað fram til þessa. Ég set á mig óþarfa pressu. Og það er það sem ég ætla að reyna að létta af mér. Bloggskrifin þurfa ekki að vera ódauðleg. Þau hafa ekki verið það fram að þessu en ég hef undanfarið verið að ofhugsa málin og það veldur líklega smá stíflu sem ég vona að bresti núna.

Verkefnin sem ég komið að undanfarin tvö ár hafa verið lærdómsrík. Ég tel mig þekkja íslenskan vefheim mun betur en áður, þekki styrkleika og veikleika helstu vefstofa landsins, kosti og galla helstu vefumsjónarkerfa, hef greint strauma og stefnu í vefhönnun og veflausnum. Svo hef ég kynnst fjölda vefstjóra og eigendum vefja fjölmargra fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka sem ég hef lært af og gefið mér margt til að hugsa um. Á þeim tæplega tveimur árum sem Fúnksjón hefur verið starfandi hef ég unnið fyrir um 50 viðskiptavini sem hafa undantekningalaust verið áhugaverð verkefni, hvert á sinn hátt. Ég ætla að gera þessum verkefnum smátt og smátt skil, skrifa nokkurs konar reynslusögur eða “case-study” sem vonandi aðrir geta lært af.

Um þetta og fleira til ætla ég að skrifa um á komandi vikum og mánuðum. Ég vona að þið fylgið mér áfram. Gleðilegt vefsumar!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.