Þegar litið er yfir nýlegar auglýsingar um störf vefstjóra eru kröfurnar ansi fjölbreyttar sem gerðar eru til umsækjenda. Það er auðvitað farið fram á að viðkomandi eigi auðvelt með mannleg samskipti. En hvar er þess svo sem ekki krafist? Það er víðast farið fram á þekkingu á HTML og jafnvel CSS og .NET. Algeng er krafa um þekkingu á SEO eða leitarvélabestun. Vefstjóri þarf að kunna að lesa í vefmælingar, hafa reynslu af verkefnastjórnun, góða þekkingu á íslensku og færni í ensku. Yfirleitt er krafist háskólamenntunar. Loks er gjarnan óskað eftir þekkingu á myndvinnslu og jafnvel færni í vefhönnun.Ég stend fastar á því en fótunum að vefstjórinn verður að hafa grunnþekkingu á HTML, án þess kemst hann ekki langt. Það er ekkert vefumsjónartól það gott að ekki komi til þess að skoða þurfi kóðann til að laga vefsíður. Vefstjóri þarf líka að kynna sér aðra tækni á bak við vefinn og geta mætt tæknimönnum keikur þegar þeir flagga alls kyns þriggja og fjögurra stafa orðum eins og ASP, CSS, AJAX, XHTML og RSS . Vefstjóri þarf að vita hvað vefþjónn er, nafnaþjónn, SQL og hvað þetta heitir allt saman.

Vefstjóra er nauðsynlegt að hafa gott vald á eigin tungumáli og helst einnig vera vel fær í enskri tungu. Það er enginn vefur án texta og efnis og þetta er í senn mikilvægasti hluti vefsins og sá vanmetnasti.

Hann þarf að hafa innsýn í starf markaðsfólksins og skilja þarfir þeirra og um leið hafa hemil á þeim! Vefstjóri þarf að kunna skil á SEO málum (leitarvélabestun), metatögum og öðru sem þarf til að gera vefinn okkar sýnilegan.

Hann þarf  líka að geta talað við stjórnendur, haft sannfæringarkraft til að tryggja stuðning stjórnenda við vefmálin og fá peninga til að sinna þeim vel. Það gerist víst ekki mikið án þeirra.

Og líklega allra mikilvægasti hæfileikinn er sá að geta tekið ákvarðanir! Ef hópur af fólki er kallaður saman til að fara yfir útlitstillögur að vef þá er jafn líklegt að fáist jafn margar skoðanir og fólkið er margt inni á fundinum. Þá er mikilvægt að vefstjóri taki slaginn og leiðir umræðuna og það er vefstjóra að taka lokaákvörðun. Markaðsfólkið má ekki ráða of miklu, ekki heldur tæknifólkið og ekki forstjórinn! Kúnstin er hins vegar að taka tillit til allra þessara ólíku skoðana og láta sem að allir hafi haft áhrif á lokaútkomuna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.