Gera má ráð fyrir því að allir sem reka vefi hafi það markmið að vefurinn finnist ofarlega í leitarvélum. Google gefur ítarlegar og góðar leiðbeiningar í þessum efnum sem ég hvet lesendur til að kynna sér.
Fjöldinn allur af ráðgjöfum gefur sig út fyrir að aðstoða vefstjóra og eigendur fyrirtækja að bæta sýnileika í leitarvélum. Aðferðafræðin sem notuð er gengur yfirleitt undir heitinu leitarvélabestun sem er þýðing á Search Engine Optimization eða SEO.
Það er fyllsta ástæða til að vera á varðbergi gagnvart ýmsum “sérfræðingum” á þessu sviði og þá sérstaklega þeim sem lofa skjótum árangri. Í raun veit enginn nema eigendur Google hvað það er sem raunverulega skilar bestum árangri. Það er enga uppskrift að finna og viðmið leitarvéla breytast líka reglulega.
Ég gef mig ekki út fyrir að vera sérfræðingur á þessu sviði en ég veit þó hvað er sem skilar árangri til langs tíma. Það er nefnilega ekkert sem kemur í staðinn fyrir gott efni og vel hannaðan vef. Þú sem vefstjóri verður að huga vel að uppbyggingu vefsins, finna leitarorðin sem notendur slá inn og nota þau á vefnum, skrifa læsilegan texta, velja heiti á tenglum af kostgæfni, byggja upp leiðarkerfið eftir vandlega íhugun og tryggja að vefurinn sé nytsamur. Það er því ekki einfalt að stytta sér leið í þessum efnum, þetta er vinna og aftur vinna. Og meira að segja nokkuð erfið vinna.
Ef þú ætlar að ná langt og auka möguleika þína á að vera á fyrstu síðu í leitarniðurstöðum þá verður þú að gera þér grein fyrir að þetta er langtíma verkefni. Þú verður í fyrsta lagi að átta þig á því hvernig fólk leitar á vefnum. Leitarvélabestun (SEO) er ekki langtímastefna. Það er hægt að beita ýmsum trikkum til að komast ofarlega en það vinnur gegn langtíma markmiðinu.
Efni á síðum sem ætlað er leitarvélum er yfirleitt óáhugavert og beinlínis fjandsamlegt lesandanum. Það er oft verið að stagla á sömu kjarnaorðunum. Það er leið meðalhófs í þessu sem öðru sem gildir. Það er hægt að skrifa efni sem gott er að lesa sem um leið skilar sér vel í niðurstöðum leitarvéla. Til að ná árangri þá þarftu að þekkja orðin sem viðskiptavinur þinn notar, ekki þín eigin.
Allir vefstjórar ættu að skrá sig inn á síðu Google Webmasters en þar er að finna leiðbeiningar frá Google um lykilþætti sem þarf að hafa í huga til að finnast í leitarvél og ekki síður yfirlit um óæskilegar aðferðir, sem geta valdið því að vefir fari á bannlista Google (blacklisted).
Hér er stutt útgáfa af leiðbeiningum Google. Þær eru mun ítarlegri og þá sérstaklega skauta ég hratt yfir tæknikaflann.
Aðrar leiðbeiningar eru flokkaðar í þrjá flokka
Áður en þú velur þér aðila til að vinna með í leitarvélabestun spurðu viðkomandi hvort hann fylgi leiðbeiningum Google?