Twitter er að taka flugið á Íslandi og ekki bara meðal nördanna. Þessi samfélagsmiðill er þó fjarri því búinn að ná viðlíka stöðu og Facebook þar sem drjúgur hluti þjóðarinnar ver tíma sínum á degi hverjum. Þegar ég held námskeið í vefmálum á vegum Endurmenntunar þá spyr ég alltaf nemendur hvort þeir séu á Twitter. Það eru að jafnaði um 2-3 í 25 manna hópi sem eru virkir og ég merki enga breytingu síðastliðin tvö ár. En meðalaldurinn er líka frekar hár í þessum námskeiðum.

Þú ert ekkert númer 12 í röðinni!

Þegar hinn almenni Íslendingur uppgötvar Twitter þá held ég að það verði ekki til baka snúið. Ekki síst þegar hann fattar að ekki þarf lengur að vera á bið í þjónustuverinu og hægt er að vaða fremst í röðina. Twitter og biðraðamenning Íslendinga fellur nefnilega saman eins og flís við rass.

Fyrirtæki sem taka þennan miðil alvarlega veita oft á tíðum hreint frábæra þjónustu, svara fyrirspurnum skjótt og vel. Oftar en ekki er hægt að fá miklu betri þjónustu en nokkurn tímann í gegnum síma og tölvupóst. Fjarskiptafyrirtæki (t.d. Síminn) og flugfélög (t.d. Icelandair) eru dæmi um fyrirtæki sem veita úrvalsþjónustu á Twitter. Prófið bara að skutla inn spurningu ásamt @icelandair eða @siminn. Sannið til, þið farið ekkert á bið.

Það þarf að þjálfa þjónustuverið

Það verður áhugavert þegar (og ekkert ef) holskefla af Íslendingum uppgötvar Twitter. Hvort íslensk fyrirtæki haldi í við þjónustustigið sem þau bjóða mörg hver í dag. Það verður ekki lengur hægt að treysta á áhugasama náungann í markaðsdeildinni til að halda þjónustunni gangandi 24/7.

Fyrirtæki þurfa að móta sér stefnu og vera viðbúin hinu óumflýjanlega. Þjónustuver og framlína fyrirtækja þarf að fá þjálfun, rétt eins og starfsmenn þar svara núna tölvupósti og síma. Viðskiptavinirnir á Twitter eru kröfuharðir og sumir myndu kannski segja á stundum frekir. Þeir hlífa heldur ekkert ef þjónustan er í ólagi. Afl tístsins og endurtístsins er ansi mikið.

Fyrirtæki á Twitter tala líka öðruvísi en á vefnum og öðruvísi en á Facebook. Þau vilja vera dálítið hipp. Enda markhópurinn ekki sá sami og í öðrum miðlum s.s. vef, Facebook eða í prentuðu markaðsefni. Mæli með að menn (konur er líka menn) kynni sér viðtal við Finn Magnússon, sérlegan Twitter sérfræðing, um notkun íslenskra fyrirtækja á þessum miðli. Hann nefnir góð dæmi um það sem ber að varast og ekki síður dæmi um fyrirtæki sem eru að gera þetta rétt.

Twitter er fyrir töffara

Samfélagið þarna höfðar að þvi er virðist talsvert meira til karla en kvenna. Og enn sem komið er þá er frekar um ungt fólk að ræða, ekki samt það allra yngsta, en flestir líklega á bilinu 25-40 ára.

Á Twitter er ekkert verið að bjóða upp á neitt snakk um fjölskylduna og daginn og veginn. Nei, þetta eru svona töffaraskilaboð, löng sms eiginlega (hámark 140 stafir). Held að Jónas Kristjánsson (jonas.is) ætti að drífa sig á Twitter. Jónas heggur. Engin óþörf orð, bara beint að efninu. Ekkert kjaftæði.

Twitter á líka ansi vel við íslenska karlmanninn. Hann vill engar málalengingar, segja hlutina eins og þeir eru. Já og enga viðkvæmni þó menn tali um að tísta sem er dálítið ámótlegt.

Ég er enn að fikra mig áfram í því hvernig ég nota Twitter og fer bráðum að ná þessu. Mér hefur fundist gott að vera á hliðarlínunni og fatta hvernig ég ætla að nálgast þennan miðil. Facebook tilheyrir nánast hinu liðna hjá mér en Twitter sogar mann til sín. Þar eru líka töffararnir!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.