Í kennslustofu í grunnskóla sonar míns eru þessi skilaboð áberandi: “Allir eru góðir í einhverju, enginn er góður í öllu”. Þessa góðu speki má auðveldlega yfirfæra á grafíska hönnun og vefinn. Það er nefnilega fjarri því að allir grafískir hönnuðir séu góðir vefhönnuðir.

Auglýsingastofur skilja ekki vefinn

Ég hef unnið á nokkrum vinnustöðum í gegnum tíðina sem hafa skipt við stórar auglýsingastofur. Enn hef ég ekki hitt þar fyrir grafískan hönnuð sem skilur vefinn til fulls. Það er eins og þeir séu alltaf með einum eða öðrum hætti að afrita efni úr hönnun fyrir prent og koma fyrir á vef. Má vera að ég hafi verið óheppinn en mig rennur í grun að þetta sé reynsla flestra vefstjóra. Auglýsingastofurnar hafa ítrekað reynt að koma að vefverkefnum sem ég hef stýrt en aldrei með góðum árangri. Málið er að þær virðast ekki skilja vefinn. Auðvitað er hér um einföldun að ræða og klárlega eru til undantekningar frá þessu en svona hefur mín upplifun verið.

Það vantar ekki að hönnunarstaðallinn sem auglýsingastofan tekur saman fjallar um vefinn. Með honum koma leiðbeiningar t.d. um notkun leturs, lita, mynda og áferðar. Góður vefhönnuður getur unnið með slíkan staðal og búið til vef sem tónar vel við ímynd fyrirtækisins. Þó hann þurfi oft að finna málamiðlanir þá getur útkoman verið mjög góð.

Þessi vandi er þó fráleitt séríslenskur. Ég minnist þess þegar Kaupþing ákvað að taka upp “svart brand” í miðri útrásinni, átti að vera nokkurs konar BMW bankabransans – lúxusbrand. Þegar ég sá hönnunarstaðalinn vissi ég að vefurinn yrði mikil áskorun fyrir mig sem vefstjóra. Fyrstu tillögur auglýsingastofunnar í London (Naked Communications) sem reyndar vann með þarlendri vefstofu (Hyperhappen) voru vægast sagt óvinsamlegar grundvallaratriðum í smíði á nytsömum vef. En til að gera langa sögu stutta var vefhönnunin tekin yfir af okkar eigin vefhönnuði en unnin í góðri samvinnu við Tjallana.

Simon Collisson á ÍMARK

Vefhönnun er verulega frábrugðin hönnun fyrir prent þó margar auglýsingastofur hafi ekki enn áttað sig á þessu. Það var því mikið fagnaðarefni þegar hinn virti hönnuður Simon Collisson var fenginn til að tala á ÍMARK deginum í febrúar sl. Megin skilaboðin sem Simon flutti voru frekar einföld en um leið afskaplega skýr: Vefurinn er ekki prent!

Auðvitað ekkert nýtt í þessum skilaboðum þannig séð en að fá kanónu eins og Simon til að flytja skilaboðin hefur vigt. Og ekki síst í ljósi þess að hann flutti erindi sitt frammi fyrir stórum sal sem var stappfullur af sérfræðingum og áhrifafólki í markaðsmálum á Íslandi. Það verður gaman að sjá hvort skilaboðin komist alla leið og auglýsingastofur ráði sérhæfða vefhönnuði til starfa og reyni þar með að næla sér í stærri sneið af vefhönnunarkökunni.

Önnur skilaboð frá Simon voru þau að á vefnum deilir fólk þekkingu og vinnu (e. sharing industry) og hann lagði áherslu á að góðir vefhönnuðir eru svo miklu meira en bara hönnuðir á vefsíðum. Alvöru vefhönnuður er svo margt, hann:

  • hannar
  • þróar
  • mótar stefnu
  • skrifar
  • fræðir
  • stjórnar

Erindi Simons var þrusugott og hann tók vitaskuld á ýmsu öðru sem vert væri að fjalla um síðar, s.s. “repsonsive” hönnun og samspili texta og hönnunar. Fyrst og fremst var ég ánægður með framtak ÍMARK, þetta var mjög gott innlegg fyrir aukinn skilning á gildum vefhönnunar í heimi markaðsfólks.

Vefhönnuður er líka ráðgjafi

Nýlega rakst ég á grein í tímaritinu Computer Arts (apríl 2012) þar sem prent- og vefhönnun var borin saman. Í henni var hönnun fyrir prent líkt við kvikmyndagerð en hönnun fyrir vefi ætti meira sameiginlegt með tölvuleik. Í tölvuleiknum hefur notandinn áhrif á framvindu leiksins en kvikmyndaáhorf býður ekki upp á annað en mötun þar sem við erum þiggjendur en höfum engin áhrif. Á þessu er vitaskuld verulegur munur og þarf að taka tillit til.

Þegar við ráðum vefhönnuð erum því ekki bara að leita að manneskju sem stóð sig best í skólanum og kann á öll verkfærin. Vefhönnuður þarf að vera ráðgjafi og vinna náið með vefstjóra. Hann þarf að skilja vefinn. Saman geta þeir myndað teymi sem skilar góðu verki. En svona vefhönnuðir eru ekki á hverju strái og við sem njótum slíkra hæfileika getum talist heppin.

Nánari upplýsingar

2 Comments

  1. ég man eftir þessum fyrirlestri og ég stóð upp til að klappa. Þetta voru skilaboðin sem íslenskir markaðsstjórar höfðu mest gagn af að mínu mati.Mér finnst því gaman að rekast á þessa grein núna, löngu seinna 🙂

  2. Já ég mætti bara á ÍMARK til að sjá Simon og fannst frábært að íslenskt markaðsfólk fengi svona skýr skilaboð um vefinn. Það er kannski að skila sér núna, a.m.k. finnst mér ég verða var við viðhorfsbreytingu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.