Ég hef verið að glugga í tvær bækur sem fjalla um upplifun notenda og viðmótshönnun eða notendamiðaða hönnun. Báðar hafa vakið mig til umhugsunar um nálgun í vefhönnun. Hvað skiptir máli þegar við hönnum og skipuleggjum vefi?

Önnur þeirra er hin klassíska Design of Everyday Things eftir Donald E. Norman, sem upphaflega var gefin út 1988, og hin er Seductive Interaction Design eftir Stephen P. Anderson sem kom út 2011.

Sex stig notendaupplifunar

User experience hierarchy of needs
User experience hierarchy of needs. Mynd frá bók Stephen P. Anderson: Seductive Interaction Design

Mig langar að gera kenningu eða módeli um upplifun notenda í bók Stephen nokkur skil og yfirfæra á vefi. Hann stillir því upp í sex stig eða pýramída sem hann kallar “User Experience Hierarchy of Needs”.

  1. Virkar (Functional)
    Er nægilegt fyrir okkur að vefurinn virkar, er rétt forritaður?
  2. Áreiðanlegur (Reliable)
    Viljum við kannski fara skrefi lengri og hafa hann áreiðanlegan og nákvæman?
  3. Nothæfur (Usable)
    Flestir vilja ná enn lengra og hafa hann notendavænan og hægt sé að nota vefinn án erfiðleika.
  4. Þægilegur (Convenient)
    Næsta stig þar fyrir ofan í vel heppnaðri viðmótshönnun er að vefur sé þægilegur. Hann sé sérstaklega auðveldur í notkun og virki eins og hugur manns. Yfir þetta stig er erfitt að komast.
  5. Ánægjulegur (Pleasurable)
    Enn ofar í pýramídanum er ánægjustigið,  að fara inn á vef sem er svo góður að hann veitir vellíðan og fá löngun til að deila upplifuninni. Þessu stigi ná fáir vefir.
  6. Þýðingarmikill (Meaningful)
    Efsta stigið er að vefur hafi merkingu fyrir mann sjálfan, upplifunin er svo sterk að hönnunin hefur persónulega þýðingu fyrir okkur.

Stephen segir að tækniafurðir og upplifun af þjónustu þurfi helst að fara í gegnum þessi sex þroskastig sem að ofan greinir. Frá því að upplifunin er: „Hey, þetta virkar bara“ yfir í efsta stig sem er „Þetta hefur þýðingu í mínu lífi“. Sumir myndu segja að ýmsar afurðir Windows falli í fyrsta flokkinn og afurðir Apple eins og iPhone í þann sjötta. Aðrir kunna að mótmæla!

Snjallsímar og spjaldtölvur breyta áherslum

Í árdaga vefsins var klárlega fókusinn á fyrsta stigið. Það voru forritarar og tæknimenn sem leiddu vefþróun og það eina sem skipti í raun máli var að vefurinn væri vel forritaður og virkaði. Annað var aukaatriði. Við sjáum á síðustu árum að vefir hafa almennt náð þriðja stiginu. Vefstjórar sætta sig ekki við annað en að vefirnir séu nytsamir og margir reiða sig á notendaprófanir. Margir ná fjórða stiginu og búa til þægilega vefi en það eru fáir vefir sem fara hærra.

Með örri þróun snjallsíma og spjaldtölva er almenningur kominn með tæki í hendurnar og vill leika sér með þau. Þá er ekki nóg að smáforrit eða app sé „bara“ þægilegt og einfalt í notkun. Notendur vilja upplifun, þeir vilja hlaða niður smáforritum sem gaman er að nota. Mörg fyrirtæki hafa áttað sig á þessu og leggja mikinn metnað í að forritið hafi þýðingu fyrir notandann og hvetji hann til að deila upplifun sinni.

Það krefst mikillar vinnu og útsjónarsemi að ná þessum efstu stigum í vefþróun og forritun fyrir snjallsíma eða spjaldtölvur. Og það er aldrei hægt að sleppa þessum fjórum stigum sem á undan fara. Án þeirra verður lausnin byggð á sandi.

Fylgstu með notendum

Grunnurinn að því að ná árangri er að víkja aldrei frá notendamiðaðri hugsun í viðmótshönnun. Og til þess að ná því þurfum við að þekkja notendur. Það gerum við ekki síst með því að fá þá reglulega til okkar í prófanir og fylgjast með hegðun þeirra.

Donald Norman segir í bók sinni að ef það eru einhver mikilvæg skilaboð í bók hans þá eru það þessi: „Lærið að horfa. Lærið að fylgjast með. Fylgist með ykkur sjálfum. Fylgist með öðrum.“

Ég hef í gegnum árin verið mikill fylgismaður notendaprófana og er sannfærður um gildi þeirra. Líklega hef ég lært lang mest á því einmitt að fylgjast með upptökum af raunverulegum notendum vafra um vefi sem ég hef unnið að. Í hverri einustu prófun verður ákveðin „jahá“ og „ekki hefði mér dottið þetta í hug“ upplifun. Alveg sama hvað við teljum okkur vera góð í okkar fagi sem vefstjórar, vefhönnuðir, upplýsingaarkitektar, forritarar eða markaðsfólk þá kenna notendur okkur alltaf lexíu.

Hönnum alltaf vefi með þarfir notenda í huga og gerum upplifunina ánægjulega fyrir þá.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.