Likeable Social Media
Metsölubókin Likeable Social Media

Fyrirtæki sem vilja nýta sér samfélagsmiðla í þjónustu og markaðssetningu þurfa að þekkja vel grundvallaratriðin áður en haldið er af stað. Það er auðvelt að gera mistök og stundum geta einföld mistök haft vondar afleiðingar.

Vefstjórar sem bera gjarnan ábyrgð á Facebook síðum sinna fyrirtækja þurfa því að þekkja þessi grundvallaratriði.

Samfélagsmiðlar eru alls ekki nein töfralausn fyrir fyrirtæki og það er varhugavert að feta þá braut að láta samfélagsmiðla eingöngu um að miðla upplýsingum og fórna vefnum eins og dæmi eru um. Saman geta þessir miðlar náð góðum árangri ef vel er á málum haldið. Nútíma markaðsmenn vita að vefurinn er mikilvægasti markaðs- og samskiptamiðillinn. Samfélagsmiðlar geta stutt vel við vefinn og því nauðsynlegt að þekkja kosti og galla þeirra.

Í metsölubókinni Likeable Social Media eftir Dave Kerpen er fjallað um hvernig fyrirtæki geta náð árangri á samfélagsmiðlum. Höfundurinn tekur fyrst og fremst Facebook sem dæmi en mikið af hans ráðum eiga jafn vel við miðla eins og Twitter og LinkedIn. Hér fyrir neðan fara nokkur heilræði úr þessari bók.

Af hverju að líka við Facebook síðu fyrirtækja?

Hvers vegna ætti fólk yfirhöfuð að smella á “like” við fyrirtækjasíðuna þína á Facebook? Samkvæmt skýrslu frá CoTweet og ExactTarget þá eru eftirfarandi 10 helstu ástæður fyrir því að neytendur segjast líka við fyrirtækjasíður á Facebook:

  1. Fá afslætti og tilboð
  2. Sýna vinum að þeir styðji vörumerkið
  3. Fá eitthvað frítt
  4. Vera upplýstur um það sem er á döfinni
  5. Fá upplýsingar um framtíðarverkefni
  6. Fá upplýsingar um væntanlegar útsölur
  7. Til skemmtunar
  8. Fá aðgang að efni sem er ætlað útvöldum
  9. Fræðast meira um fyrirtækið
  10. Mennta sig á sviðum sem fyrirtækið sérhæfir sig í

Sáraeinfalt en samt ekki hægt að svindla

Uppskrift að árangri fyrir fyrirtæki á Facebook er frekar einföld og fyrir þá sem ekki vilja lesa lengra þá þarf fyrst og fremst að hlusta og vera virkur, sannur og geðþekkur. Það er vel hægt að klúðra einfaldri uppskrift og vissulega eiga sum fyrirtæki ekki réttu hráefnin. En þeir sem eiga þau og fylgja einföldum leiðbeiningum munu fá fólk til að líka við fyrirtækið og smella á “like”.

1. Byrjaðu á að hlusta og hættu aldrei að hlusta. Eins freistandi og það getur verið að skella sér beint í samræðu á Facebook og Twitter þá verður að hafa í huga að þarna eiga sér stað samskipti og hlustun en ekki bara útgáfa á upplýsingum. Á því er mikill munur. Hlustaðu því fyrst áður en þú tjáir þig á móti. Þú getur líka tekið þátt í samræðunum sem hlustandi.

2. Skilgreindu markhópinn þinn betur en þú hefur gert nokkru sinni. Á Facebook nærðu bestum árangri ef þú þekkir vel markhópinn þinn og beinir sjónum sérstaklega að honum en ekki öllum fjöldanum, það er bæði peninga- og tímasóun.

3. Hugsaðu og hegðaðu þér eins og viðskiptavinurinn.

4. Ekki segja viðskiptavininum að líka við þig heldur segðu honum hvers vegna hann á að líka við þig. Láttu þetta snúast um þá en ekki þig

5. Taktu þátt. Búðu til einlægar samræður við og á milli þinna viðskiptavina.

6. Vertu fljótur að svara öllum slæmum athugasemdum. Ef fyrirtækið þitt er ekki tilbúið að svara neikvæðum athugasemdum þá er það ekki reiðubúið að vera á Facebook. Að biðjast fljótt afsökunar eða bjóða lausn á vandamáli getur líka skilað markaðsávinningi.

7. Svaraðu líka góðum athugasemdum. Með því að segja bara “takk” þá ertu að segja að þú tekur eftir því sem sagt er um þig og að viðskiptavinurinn skiptir máli.

8. Segðu hlutina eins og þú meinir það. Það geta flestir greint á milli þess hvort skilaboð frá fyrirtæki er bara markaðssetning eða raunveruleg samskipti. Ef þú ert vélrænn eða býður bara auglýsingamennsku þá snúast viðskiptavinirnir gegn þér.

9. Vertu heiðarlegur og gegnsær. Það skilar sér á endanum í meira trausti og langtímaviðskiptasamböndum.

10. Spurðu margra spurninga. Ef þú ætlar að fá upp samræðu í samfélagsmiðlum þá verðurðu að spyrja spurninga. Þær fá fólk til að tjá sig.

11. Veittu raunveruleg verðmæti og gerðu það frítt. Það byggir upp traust, orðspor og jafnvel sölu.

12. Deildu sögum, þær eru þinn samfélagsgjaldmiðill. Sögur fá fyrirtækið til að lifna við, t.d. deildu sögunni um hvernig fyrirtækið varð til. Myndband til stuðnings sögunni er einnig sniðug viðbót.

13. Hvettu viðskiptavini til að deila sögum.

14. Láttu samfélagsmiðlana vera hluta af heildarupplifun viðskiptavinarins. Reyndu að fá sem flesta innan fyrirtækisins til að taka á jákvæðan hátt þátt í samfélagsmiðlum. Það byggir upp menningu sem sýnir að Facebook er eðlilegur hluti af menningu fyrirtækisins.

15. Notaðu auglýsingar á samfélagsmiðlum til að auka áhrif þín.

16. Viðurkenndu þegar þú gerir mistök og bættu upp fyrir þau.

17. Vertu á undan samkeppninni. Færðu viðskiptavinum spennu, eitthvað óvænt og það sem hrífur.

18. Ekki selja! Gerðu bara auðveldara og kallaðu fram þörf fyrir viðskiptavini að kaupa.

 

Niðurstaða

Hegðaðu þér bara þannig á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum að fólki líki við fyrirtækið þitt!

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.