Öfugur pýramídi
Öfugur pýramídi

Þurfum við að setja okkur í ákveðnar stellingar þegar við skrifum fyrir vefi sem eru skoðaðir í snjallsímum og spjaldtölvum? Nei. Við skrifum ekki sérstaklega fyrir mobile en þess í stað leggjum við enn meiri þunga á grundvallaratriðin í skrifum fyrir vef.

Í skrifum fyrir vefinn leggjum við í inngangi áherslu á mikilvægustu upplýsingarnar. Ef þú nærð ekki athygli notenda strax þá er líklegt að þeir hverfi á vit annarra upplýsinga. Og ef vefurinn þinn styður ekki almennt birtingu í símum og spjaldtölvum eru góðar líkur á að notandinn leiti til samkeppnisaðila.

Hafðu bara eina hugmynd í hverri málsgrein. Notendur skanna fyrirsagnir og upphafssetningar í leit að orðum sem eru líkleg til að svara þeirra spurningum.

Það felast veruleg tækifæri í að bæta efni á vefnum með tilkomu tækja með minni skjái en á hefðbundnum tölvum. Að mínu mati verða vefir skalanlegir á næstur árum og það er vissulega nokkur hausverkur í byrjun að gera vef skalanlegan (e. responsive) en tækifærin gera hann léttvægan.

Hvatning til að gera róttæka hluti

Í mobile þróuninni felst stórt tækifæri í að bæta upplifun notenda með því að bæta efnið á vefnum. Vegna þessarar þróunar þá þurfum við að breyta aðferð okkar við að búa til, stjórna og halda við efni.

Mobile þróunin á að vera hvatning til að gera róttæka hluti, fækka síðum, taka til í leiðarkerfi, minnka efni á hverri síðu, bæta framsetningu með fyrirsögnum, bólulistum og framsetningu blaðamannsins sem hefur öfuga pýramídann i heiðri. Mögulega verður engin þörf á mega leiðarkerfi lengur!

Norska vefráðgjafarfyrirtækið Netlife Research vann að endurskipulagningu vefs símafyrirtækisins Telenor. Þau fækkuðu síðum um 80%, úr 4000 í 500, enginn saknaði þeirra síðna sem hurfu, það varð 40% fækkun símtala í þjónustuver og sala jókst á vefnum til muna. Þessi dæmisaga ætti að vera öðrum fyrirtækjum til hvatningar að taka til á vefnum.

Mobile kallar þessar áherslur fram og styður við þá hugmyndafræði okkar sem aðhyllumst kröfuna um nytsaman, fókuseraðan, efnisvandaðan vef sem veitir góða upplifun.

Mobile þróunin er því himnasending. Taktu henni fagnandi og breyttu rétt.

Við lifum á tímum sem bjóða upp á gríðarleg tækifæri til að bæta leiðir okkar til að smíða, stjórna og viðhalda efni. Í þessu felst einnig mikið tækifæri til að búa til betri notendaupplifun með því að bæta gæði efnisins. Ekki klúðra þessu tækifæri!

Aldrei verið mikilvægara að taka til

Sístækkandi upplausn, fullkomnari og stærri skjáir hafa stuðlað að ákveðinni værukærð í framsetningu efnis. Það eru sáralítil takmörk á því sem við höfum getað birt. Flóðgáttir hafa opnast fyrir rithöfundinn sem býr í svo mörgum.  Nóg er plássið og ekki stoppar vefumsjónarkerfið okkur í þessu.

Margir vefir eru af þessum sökum ógnarstórir. Þeim halda engin bönd. Og enn er sú hugsun víða ríkjandi að stærðin skipti máli á vefnum. Vefstjórar sem guma sig af stærð vefsins verða í vandræðum þegar þeim verður ljóst að megnið af umferð á vefinn á næstu árum fer ekki lengur í gegnum skjái í hárri upplausn. Það er líklegra en hitt að megnið af þessum síðum sem prýða vefinn hafi sjaldan eða aldrei verið heimsóttar.

Ef þú stendur í þeim sporum að endurgera vefinn þinn og ert ekki viss um næstu skref. Áttu að smíða app, búa til sér mobile vef til hliðar við fulla vefinn, hafa vefinn skalanlegan (responsive) eða einhverja blöndu af þessu?

Hver sem niðurstaðan þín verður þá er eitt öruggt. Vefurinn þinn þolir góðan niðurskurð. Þá á ég ekki bara við fjölda síðna heldur einnig magn texta á hverri síðu. Á þessum tímum sem við lifum á í dag þá hefur aldrei verið mikilvægara að taka til.

 

Mynd í haus er frá bradfrostweb.com

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.