Faghópur um vefstjórnun hjá Ský efndi til hádegisfundar um starf vefstjórans 13. mars sl. Vefstjórnendur frá stjórnarráðinu, Háskóla Reykjavíkur, Landsbankanum, Bláa lóninu og mbl.is fóru yfir helstu þætti í sínu starfi og sögðu frá áhugaverðum verkefnum sem þeir hafa verið að vinna að.

Líklega er starf vefstjóra aldrei nákvæmlega eins frá einu fyrirtæki til annars. Þessi erindi staðfestu það. Starfsheitin eru líka mismunandi. Stundum er enginn titlaður vefstjóri þó verkefnin feli í sér vefstjórn.

Áður en ég kem að einstökum erindum þá langar mig að draga saman þau atriði sem flest erindin áttu sameiginlegt. Erindi Soffíu frá mbl.is var af öðrum toga en hin en varpaði ljósi á umfang þess og vanda að reka stærsta fréttavef landsins.

Út frá þessum erindum get ég dregið eftirfarandi ályktanir:

  • Mikið vanmat er hjá stjórnendum á umfangi starfsins og kostnaði við rekstur vefja
  • Almennur misskilningur er ríkjandi á því hvað vefstjóri gerir
  • Mikil barátta er við að hafa vefi viðráðanlega
  • Mikil samskipti einkenna starfið og allir eru í hlutverki sáttasemjara
  • Stöðugur þrýstingur er alls staðar frá um smíði undirvefja (sem svo enginn sinnir)
  • Allir eru á leið eða komnir í skalanlega (responsive) vefhönnun
  • Allra mikilvægast er að kunna að segja NEI og standa við það!

Vefur stjórnarráðsinsBjörn Sigurðsson, vefstjóri stjórnarráðsins

Umfang starfs vefstjóra stjórnarráðsins er lyginni líkast. Hlutverk hans er ekki síst að samræma og þróa vefi allra ráðuneytanna. Björn styður við vefstjóra í hinum ráðuneytunum. Þeir eru yfirleitt að sinna vefstjórn sem hluta af öðrum störfum (30-80% starf).

Björn fær stöðugt beiðnir um að koma upp nýjum vefjum sem tengjast t.d. nefndastarfi og verkefnum. Slíkir vefir daga yfirleitt uppi fljótlega eftir að þeir fara í loftið og enginn er til að sinna þeim. Enskir vefir stjórnarráðsins fá einnig litla athygli.

Eitt mikilvægasta í starfinu er að segja NEI svo vefmálin fari ekki úr böndunum. Umfangið vex jafnt og þétt. Markmiðið er að minnka efni og lágmarka stærð vefjanna.

Það sem Björn verður áskynja í starfinu er ekki síst takmarkaður skilningur stjórnenda og annarra starfsmanna á umfanginu. Það eru litilr peningar til umráða og vöntunin er ekki síst á sviði fræðslu til þeirra sem sinna vefstjórn.

Vefur Háskólans í ReykjavíkSteinunn Jónasdóttir, vefstjóri Háskólans í Reykjavík

Að temja drekann sinn var heitið á erindi Steinunnar og rímaði ágætlega við vandann sem Björn lýsti. Vefur HR var kominn í ógöngur þar til nýr vefur leit dagsins ljós á síðasta ári. Hann var orðinn stjórnlaus, alltof mikið af efni, of margir með aðgang, gæðin bágborin og samlíking við dreka átti vel við.

Steinunn byrjaði að tala um misskilning um hlutverk vefstjórans. Ef þú forritar ekki, hannar ekki og skrifar ekki efni á vefinn. Hvað gerirðu þá eiginlega, er spurt?

Starfið er viðamikið hjá Steinunni, hún á í samskiptum við hóp fólks innan og utan skólans. Enginn dagur er eins. Hún sér einnig um samfélagsmiðla, auglýsingamál á netinu og meira að segja tekur að sér umsjón með myndatökum!

Til að koma böndum á vefinn var vefráð stofnað og fækkað í hópi þeirra sem höfðu aðgang að vefumsjónarkerfinu úr 30 í 7. Það hafði mjög jákvæð áhrif á gæði vefsins. Efni var skorið niður um þriðjung, bæði texti og síðufjöldi. Afar mikilvægt í starfinu er að segja NEI, ástunda vefræði eða takmarkað lýðræði.

Þau gerðu átak í að færa undirvefi undir aðalvefinn, það hefur gengið vel og oft nægir að vera með undirsíðu á aðalvefnum.

Unnið er að því að gera vefinn skalanlegan en tími vannst ekki til þess áður en nýr vefur fór í loftið. Einnig stendur til að gera speglaða útgáfa af vefnum á ensku.

Vefur LandsbankansSnæbjörn Konráðsson, forstöðumaður vefdeildar Landsbankans

Vefdeild Landsbankans er um margt öfundsverð. Hún hefur á að skipa 22 starfsmönnum. En vefdeild er líklega rangnefni því þetta er margmiðlunarhús. Auk vefjanna er unnið við allt stafrænt efni, PowerPoint kynningar, myndbönd, vefborða, veffréttabréf, skjálausnir, hraðbanka, netbanka og mobile lausnir.

Landsbankinn úthýsir engum verkefnum, allt unnið innanhúss. Með því fæst dýnamík sem erfitt er að keppa við þegar hönnuðir (3), ritstjórar (3), prófarar (2) og vefforritarar (13) sitja saman undir stjórn forstöðumannsins Snæbjarnar. Úr verður kemía sem skilar árangri að hans mati.

Og vefdeild Landsbankans státar vissulega af fjölda verðlauna en markmiðið er að vinna til vefverðlauna á hverju ári. Það er það sem stjórnendur skilja sagði Snæbjörn.

Hann hefur barist hart gegn fjölgun vefsvæða. Vill ekki sjá undirvefi. Og eins og Steinunn og Björn þá lagði Snæbjörn áherslu á mikilvægi þess að segja NEI og hafa stuðning við slíkar ákvarðanir. Hann lendir oft í stríði innanhúss en hefur stuðning stjórnenda.

Grafík selur segir Snæbjörn. Mikil vinna er lögð í útlit efnis frá deildinni, allt frá ritreglum á vef til fullhannaðs vefs.

Fyrir vefverðlaunin í ár var tekin ákvörðun um að rigga upp responsive vef. Það var gert á einni viku en allt teymið fór í verkefnið en það sem hjálpaði mikið til er að vefurinn var undir það búinn, settur upp í dálkum (grid). Landsbankinn hefur valið að fara ekki í smíði á appi heldur veðjað á veflausnir. Telja sig þjóna betur öllum viðskiptavinum þannig óháð tækjum.

Vefur Bláa lónsinsVignir Guðjónsson, verkefnastjóri hjá Bláa lóninu

Það var áhugavert að fá Vigni til að fræða okkur um verðlaunavefinn bluelagoon.com. Hann sagði okkur frá undirbúningi og tilurð vefsins en vinna við hann stóð yfir í um 2 ár. Það var efnt til samkeppni um hönnun vefsins en Kosmos og Kaos hreppti hnossið.

Að sögn Vignis var mikil rannsóknarvinna unnin og heildarsamhengið var mikilvægt. Samræma átti útlit á “offline” og “online” efni. Einnig var mikil áhersla á að fanga upplifunina sem er vissulega einstök hjá Bláa lóninu. Myndefni var ríkulegt og það hjálpaði mikið til við hönnun vefsins.

Vignir kom sjálfur að verkefninu í september 2012. Um það leyti var ákveðið að breyta um kúrs í ljósi upplýsinga um mobile heimsóknir. Ákveðið var að gera vefinn skalanlegan og þannig fór hann í loftið 9. nóvember 2012.

Mobile heimsóknir eru nú komnar í 27% fyrir .com vefinn og 16% fyrir .is og hafa þær vaxið úr 12% fyrir .com og 4% fyrir .is síðan í október 2011. Þetta er því fjórföld aukning á liðlega ári fyrir íslenska vefinn. Afar athyglisverðar tölur og brýning fyrir aðra vefstjóra að fylgjast grannt með mobile heimsóknum. Af mobile heimsóknum þá eru Apple græjur (iPhone og iPad) með yfirburðahlutdeild eða 79%.

Að sögn Vignis var umsögn dómnefndar SVEF í takt við upphafleg markmið með vefnum en umsögnin var eftirfarandi:

“Útlit vefsins er glæsilegt og styður fullkomlega þá upplifun sem fyrirtækið stendur fyrir. Efni og innihald vefsins er auðskilið auk þess sem auðvelt er að finna það sem leitað er að. Síðast en ekki síst þá skilar vefurinn sínu í hvaða tæki sem er.”

Mbl.isSoffía Haraldsóttir, framkvæmdastjóri mbl.is

Síðasta erindið var af nokkrum öðrum toga en þau sem á undan komu en Soffía gegnir hlutverki framkvæmdastjóra mbl.is og hennar hlutverk er ekki síst í að samþætta og miðla málum sem rímar reyndar býsna vel við starf vefstjórans.

Stóru áskoranirnar í starfi Soffíu eru að gera mikið úr litlu. Það er lítið fjármagn í boði fyrir reksturinn. Vefurinn þarf að standa undir sér með auglýsingasölu og það veldur oft miklum árekstrum við efni vefsins. Stoðir vefsins eru þrjár: efni, dreifing og tekjuöflun. Hún þarf að finna jafnvægi í þessum stoðum, halda trúverðugleikanum en um leið að reka vefinn og ná inn tekjum.

Ritstjórn mbl.is er sjálfstæð að sögn Soffíu, aðskilin frá ritstjórn blaðsins en þetta fyrirkomulag var tekið upp fyrir um ári síðan og gengur vel. Um 200 fréttir líta dagsins ljós á hverjum degi. Blaðamenn fylgja ákveðnum reglum en geta líka tekið ákvarðanir hratt. Áhersla er á að vera fyrstur með fréttirnar.

Þau eru með nánast allt heimasmíðað og unnið með opinn hugbúnað. Þau gera sér engar væntingar til verðlauna og undrast hve notendur eru þolinmóðir gagnvart vefnum. Þá var Soffía örugglega að vísa til auglýsingaborða sem verða sífellt meira áberandi á fréttavefjum.

Þau stefna að því að gera mbl.is responsive en það veltur á fjármagni og mannskap hvenær af því verður. Engin áform eru um að gera vefinn að áskriftarvef.