Nýleg hönnunarverðlaun til gov.uk. kunna að vera tákn um breytta tíma í vefþróun. Mér kæmi ekki á óvart ef ársins 2013 yrði minnst fyrir það að það var þá sem áherslur breyttust á vefnum. Ár notandans gekk í garð.

Vefurinn er varla tvítugur

Vefur Icelandair 1997
Vefur Icelandair 1997 var líklega hannaður af forriturum

Veltið þið því stundum fyrir ykkur hve stutt er síðan veraldarvefurinn kom til sögunnar? Árið 1996 var í raun fyrsta árið þar sem veraldarvefurinn náði útbreiðslu og var ekki lengur eitthvað sem nördarnir og háskólarnir sátu einir að. Ég velti þessu stundum fyrir mér enda búinn að vera viðloðandi vefi á Íslandi frá 1997 eða í rétt 16 ár.

Fyrstur ár veraldarvefsins voru ár tækninnar, þar sem forritarar og kerfisstjórar réðu för. Vefir voru smíðaðir fyrst og fremst til að sýna snilli forritara, hve flókna hluti væri hægt að framkvæma og deila á milli tölva (ekki notenda sérstaklega). Þetta voru yfirleitt afskaplega ófrýnilegir vefir og hugtakið notendaupplifun var víðs fjarri.

Við tóku ár þar sem vefhönnun réð ríkjum. Það þótt enginn vefur almennilegur nema hann skartaði hreyfimyndum (gif) af bestu gerð, “splash” síður fylgdu í kjölfarið, þá náði flash yfirhöndinni og loks í dag er enginn vefur með vefjum nema hann skarti megabanner. Og það á tímum þekktrar bannerblindu.

Hjarðhegðun einkennir vefþróun. Það er einhver (forystu)sauður sem leiðir og aðrir fylgja. Við eigum það stundum til að líta niður á veröld sauðkindarinnar en lítum okkur nær.

Breytt nálgun

Hönnuðir hafa í seinni tíð verið meðvitaðir um nytsemi, tónað niður hönnunina og gert hana vænlegri fyrir venjulegt fólk. Forritarar fá í vaxandi mæli kennslu í notendamiðaðri hönnun. Kennsla í forritun og hönnun vefsins fer stöðugt batnandi. Kennsla í notendaupplifun (UX) og stjórn efnis er þó enn stórlega ábótavant. Á þeim sviðum á fólk enn að stökkva fullskapað inn í sitt hlutverk.

Þessar breytingar í nálgun forritara og hönnuða ásamt hægfara aukinni virðingu fyrir efni og skipulagi vefja virðast vera að skila sér í merkilegum breytingum. Og til vitnis um þær breytingar, að mínu mati, eru nýleg hönnunarverðlaun til ríkisvefs Stóra-Bretlands, gov.uk.

Verðlaun gov.uk vatnaskil í vefþróun?

Gov.uk
Gov.uk: Fúnksjón ofar fagurfræði

Þessi atburður hefur vakið athygli og umtal víða í vefheimum. Mér kæmi ekki á óvart ef ársins 2013 yrði minnst fyrir það að það var þá sem áherslur breyttust á vefnum. Ár notandans gekk í garð.

Verðlaunin sem gov.uk hlaut eru ekki vefverðlaun sem fáir utan faghópsins taka eftir heldur virtustu hönnunarverðlaun konungsdæmisins. Og það var ekki verðlaunað fyrir hönnun í þeim skilningi að almenningur standi agndofa og horfi tímunum saman á ódauðlegt sköpunarverk. Nei það var verið að verðlauna hönnun sem tekur númer 1, 2 og 3 mið af notandanum og þörfum hans.

Vá það er eitthvað!

Ég hef aðeins verið að melta þetta og skoða gov.uk betur og að mínu mati er ljóst að hér hafa orðið tímamót. Kannski vatnaskil í vefþróun? Þessi vefur er hafsjór gagnlegra upplýsinga og sérlega aðgengilegur. Hann á ekki aðeins eftir að gagnast þegnum Elísabetar drottningar heldur getur sauðsvartur almúginn hvar sem er á jarðarkringlunni nýtt sér snilldina.

Mitt mat er að hér eftir verður ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að vefir sem hafa eitthvað annað hlutverk en að hanga uppi sem skraut á veraldarvefsveggnum verða að bjóða notandanum inn á Saga Class. Kampavín og heita hreinsiklúta hér eftir fyrir alþýðu vefheimsins.

Skál fyri því.

 

2 Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.