Kröfulýsing vefverkefna„Ég held að innan við 10% viðskiptavina minna hafi mótaða hugmynd um markmið með smíði á nýjum vef og enn færri hafa spáð í efni á vefnum áður en þeir óska eftir tilboði í smíði á nýjum vef”.

Svo mælti ráðgjafi í vefmálum nýlega í spjalli.

Ég hrökk ekki í kút. Þó svo að ég hafi engar haldbærar tölur sem ráðgjafinn sagðist hafa tilfinningu fyrir þá held ég að þetta sé nærri lagi. Flest vefverkefni fara af stað án nokkurs eða í besta falli sáralítils undirbúnings. Það þarf bara nýjan vef. Ekkert flókið. Bara eins og ný auglýsing, frískum aðeins upp á útlitið og öllum líður betur. En vefur er ekki auglýsing eða bæklingur.

Þegar ein belja mígur…

Hvatinn að því að smíða nýjan vef kviknar gjarnan hjá stjórnendum fyrirtækja. Þeir hafa neikvæða upplifun af vefnum, annað hvort af eigin raun eða frá viðskiptavinum. Enn líklegri ástæða er að samkeppnisaðilinn er búinn að opna nýjan vef. Þetta er ekkert öðruvísi en í sveitinni. Þegar ein belja mígur þá eru allar aðrar í spreng.

Stjórnandi fyrirtækisins gefur fyrirmæli til markaðsdeildar eða vefstjóra um að það séu „allir” að tala um hve vefurinn sé ómögulegur. Við þurfum nýjan vef segir framkvæmdastjórinn. Markaðsstjórinn tekur við skipuninni og er ekkert að þræta heldur biður vefstjóra að ganga í málið. „Við þurfum nýjan vef og það hið fyrsta.”

Vefstjóri er enn ólíklegri til að þræta og fer af stað með verkefnið. Setur sig í samband við vefstofuna sem smíðaði núverandi vef.

Leikþáttur: Samtal vefstjóra og ráðgjafa

Eftir kurteislegt spjall og ansans sveiattan veðrið á höfuðborgarsvæðinu í sumar kemur vefstjórinn sér að efninu.

Vefstjóri: „Við þurfum nýjan vef, geturðu gert okkur tilboð og sagt okkur hvenær hann geti verið tilbúinn?”

Ráðgjafinn er almennilegur en spyr óþægilegra spurninga. „Áður en ég get svarað þarf ég smá upplýsingar frá þér.

– Hafa notendaprófanir komið illa út?
– Hafið þið sett ykkur markmið með nýja vefnum?
– Hvað er að virka vel og hvað ekki á gamla vefnum?
– Áttið þið ykkur á hvað notendur finna ekki?
– Eruð þið komin með drög að nýju veftré og skipulagi?”

Vefstjóri ákveður að stoppa ráðgjafann áður en hann heldur lengra. „Hægan, hægan. Hvað meinarðu með þessum spurningum? Geturðu ekki bara skutlað á mig tilboði í nýjan vef á morgun. Ég þarf að taka þetta fyrir á næsta fundi markaðsdeildar og við þurfum aðeins að vita hvað þetta kostar sirka. En láttu mig vita ef þið eruð upptekin, ég heyri þá í öðrum.”

(Ráðgjafi áttar sig á stöðunni)

Ráðgjafi: „Jú jú ég get svo sem tekið saman sirka hvað þetta gæti kostað og tekið mið af sambærilegum vefjum. En það væri óneitanlega gott að vita svona um það bil hverju þið viljið ná út úr nýjum vef, hvaða hönnun þarf að vinna og virkni. Ég reyni þá að senda á þig tölur fyrir lok dagsins en þær eru aðeins til viðmiðunar.”

Vefstjóri: „Flott, já þessi smáatriði koma síðar. Við þurfum bara að drífa í þessu. Getum ekki farið inn í haustið með þennan gamla ónýta vef og markhópurinn okkar er námsmenn. Ekki láta mig líta illa út, þetta þarf bara að gerast. Ok?”

Ráðgjafi: „Ha, ertu að tala um að klára vefinn fyrir haustið? En það eru sumarfrí núna og erfitt að ná í einhvern. Svo kemur ágúst og þá höfum við 4 vikur áður en skólarnir byrja. Ég skil þína aðstöðu en þetta er kannski ekki alveg raunhæft.”

Vefstjóri: „Síminn er 113 fyrir vælubílinn. Fæ ég þá tölurnar fyrir lok dags?”, segir vefstjórinn kokhraustur.

Fyrirhyggjuleysi skaðar vefinn

Þetta er því miður íslenskur veruleiki og ekkert svo ýkt mynd. Það er ótrúlega lítill skilningur á að það þurfi að undirbúa vefverkefni áður en haldið er af stað í vefhönnun og forritun.

Fá fyrritæki nýta sér notendaprófanir áður en vefur er settur í loftið. Lygilega margir láta hjá líða að greina umferð og notkun áður en tekið er til við smíði á nýjum vef.

Enn færri átta sig á að orð skipta máli. Mig grunar að stór hluti af nýjum vefjum opni með næstum sama efni í nýju búningi. Það er alltof seint hugað að skrifum og myndefni. Oftar en ekki gripið til þess óþverraráðs að flytja alla „geymsluna” með. Dusta aðeins rykið en birta nánast sama efnið.

Vefhönnun stendur almennt með miklum glæsibrag á í Íslandi. Í alþjóðlegum samanburði standast nýir íslenskir vefir fyllilega samanburð við það sem best gerist erlendis. Sama má segja um forritun. Ég hef unnið með þvílíkum afburðaforriturum í gegnum árin að ég efast um að viðlíka hæfileika sé hægt að sækja út fyrir landsteinana.

En þegar kemur að undirbúningi, þarfagreiningu, kröfulýsingu, skrifum, upplýsingaarkitektúr og almennri notendaupplifun þá er eins og engrar sérfræðikunnáttu eða reynslu sé krafist. Það geta jú allir klambrað saman texta, stillt upp síðum, afritað og límt efni.

Það er átaks þörf og viðhorfsbreytingar. Fæstir vefstjórar hafa hlotið mikla þjálfun og taka því miður aðeins við skipunum. Í því liggur ansi stór hluti vandans. Við þurfum að þjálfa vefstjóra og veita þeim kjark til að standa á grunnprinsippum.

Með góðum undirbúningi má spara verulega fjármuni í hönnun og síðar forritun vefja. Það er dýrkeypt að vaða áfram þó framkvæmdastjórinn eða markaðsstjórinn hafi átti svefnlausa nótt yfir útspili keppninautarins. Fáðu fjármálastjórann í lið með þér. Sýndu fram á að með því að viðhafa handarbaksvinnubrögð við smíði á nýjum vef þá er líklegt að ávinningur af vefnum verði lítill eða jafnvel enginn.

Berum virðingu fyrir vefnum og predikum mikilvægi hans. Vefurinn er fyrir löngu orðinn mikilvægasti snertiflötur við viðskiptavini flestra fyrirtækja og stofnana. Veitum góða þjónustu, hlustum á viðskiptavininn, vöndum okkur og förum vel með það fjármagn sem okkur er trúað fyrir.

9 Comments

  1. Frábær grein hjá þér Sigurjón 🙂 Það gamla góða gildir nefnilega alltaf = í upphafi skyldi endinn skoða 🙂

    1. Takk fyrir að Sissa. Við þurfum að huga sérstaklega að þjálfun og fræðslu fyrir vefstjóra. Þá fer þetta að ganga betur 🙂

  2. takk fyrir frábæra færslu. Er að byrja að skoða síðuna þína og sé að ég á alveg eftir að sökkvað mér niður í bloggið þitt 🙂

    Vel gert

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.