Í lok september flyt ég erindi um tengsl búddisma og notendaupplifunar á vef á ráðstefnunni EuroIA í Edinborg. Þessi titill á erindi ásamt tilkynningu um nýstofnað fyrirtæki mitt Fúnksjón vefráðgjöf var tilefni viðtals á Rás 1 mánudaginn 19. ágúst.

Dagur Gunnarsson tók viðtalið fyrir þáttinn Sjónmál sem er á dagskrá alla virka daga kl. 11. Fyrirsögn greinarinnar er tekin af ruv.is. Ég leyfði mér að gera endurrit úr viðtalinu hér fyrir vefinn. Það vantar líklega nokkur „sko“ inn í endurritið en að öðru leyti er það nokkurn veginn orð fyrir orð. Ef eitthvað hefur misfarist skrifast mistökin á mig en það má hlusta á viðtalið á vefnum.

Viðtalið

Dagur: Hérna í hljóðstofu er kominn Sigurjón Ólafsson frá Fúnksjón vefráðgjöf. Velkominn.

Sigurjón: „Þakka þér fyrir.“

Dagur: Vefráðgjöf, erum við skammt á veg komin með þennan nýja miðil, vefinn… vefsíður?

Sigurjón:„Já og nei, það er í raun ágætlega staðið að vefmálum hjá fyrirtækjum og stofnunum. Svona á yfirborðinu, myndi ég segja. Vefir eru almennt vel hannaðir og tæknilega vel útfærðir en það er dálítið skammt á veg komið það sem snýr að efni og undirbúningi vefverkefna. Það er það sem ég er að einblína á í minni ráðgjöf þ.e að undirbúa verkefni betur og gera þau betur í stakk búin að fara í hönnun og forritun. Vel að merkja vefurinn er ungur miðill.“

Dagur: Fólk les texta öðruvísi á vefnum ekki satt, það þarf að sérsníða þetta svolítið?

Sigurjón: „Klárlega, notendur lesa allt öðruvísi á vef en í bók, dagblaði eða tímariti. Þar af leiðandi þarf að sníða textann með öðrum hætti og matreiða hann öðruvísi fyrir notendur. Það er það einmitt sem ég hef verið að miðla í mínum skrifum og kennslu í Háskóla Íslands og víðar. Það er hversu mikilvægt er að vanda vel texta og efni á vef. Þannig að af því að ég sagði að vefurinn stæði á yfirborðinu nokkuð vel, útlitslega og fólk hefur lítið við það að athuga en það skortir dálítið á að hjálpa notendum að lesa sig eða skanna sig í gegnum vefinn.“

Dagur: Hverjar eru svona helstu gildrurnar eða mistökin sem flestir detta í að gera á vefmiðlum?

Sigurjón: „Ætli það sé ekki ofhlaðið efni. Ekki nægilega meitlað og kemst ekki að kjarna málsins. Það er kannski stóri vandinn að vefstjórar skilgreina ekki lykilverkefni eða “top tasks” á vefnum. Heldur eru oft að flækja vefinn með alls konar efni sem í raun bara truflar hinn venjulega notanda að leysa sín verkefni. Þetta er kannski það allra algengasta. Og megin ástæðan fyrir því að þetta er stóri vandinn er að vefstjórar hafa almennt litla þjálfun, því miður. Lenda dálítið í að verða vefstjórar, oft í hlutastarfi og eru þ.a.l. ekki nógu keikir að standa á sínu… að hleypa ekki öllu sem berst inn á vefinn. Það er dálítið þannig.“

Tengsl búddisma og notendaupplifunar

Dagur: En segðu mér aðeins frá tengslum búddisma og notendaupplifunar sem mér skilst að sé titill á erindi sem þú ert að fara að flytja.

Sigurjón: „Hérna, já það er gaman að segja frá því. Mér var boðið að flytja erindi á ráðstefnu evrópskra upplýsingaarkitekta. Kannski dálítið framandi heiti fyrir marga hér á Íslandi en þetta er stór grein útí heimi sem heitir upplýsingaarkitektúr en þar er ég að fara að flytja erindi um tengsl búddisma og notendaupplifunar á vef.

Þetta efni svona kom bara dálítið til mín. Ég er áhugamaður, þetta er svona svolítið hobbý til hliðar… mitt hliðarsjálf er að stúdera trúarbrögð og án þess að vera trúaður þá hefur þetta svona lifað með mér í 20 ár. Og ég hef verið að lesa um trúarbrögð heimsins og eftir því sem ég las meira um búddisma þá fann ég svolítið samhljóm um það sem við erum svolítið að vandræðast með á vefnum og flestir vefstjórar og þeir sem stýra vefum… þeirra meginvandamál fyrir utan þetta sem ég nefndi áðan um ofhlaðið efni er stefnuleysi á vefnum.

Menn setja sér ekki tiltekna stefnu og í kenningum búddismans … þá eru svo mörg atriði sem eru svona haldreipi fyrir þá sem stýra vefsvæðum og það er þetta svona kannski öfgaleysi og þessi samúð sem að er predikuð með náunganum og það er nákvæmlega það sem við þurfum að gera. Við þurfum að hafa mikla samúð með notandanum, vilja hlusta á hann og kynnast hans þörfum af fordómaleysi. Þess vegna þurfum við að vera að kalla notendur í viðtöl og það eru fleiri atriði eins og meðalhófið.

Og það er þessi fókus sem er svo ríkjandi í búddismanum að þú þurfir að hafa hvað sem þú ert að gera hverju sinni og þurfir að hafa fullan hug við það sem þú ert að gera. Það er oft erfitt í starfi vefstjórans að ná þessum fókus út af þessu áreiti og þar sem að það sækir að þér efni og áreiti úr svo mörgum áttum og… það, já fleiri atriði, þessi þekkingarleit í búddismanum.

Guð er ekki góður vefstjóri

Er sko sagt að þekkingarleysi er eiginlega rót alls ills. Fyrir okkur sem vinnum í vefmálum þá þurfum við stöðugt að leita okkur þekkingar og það er undir þér sjálfum komið. Það er enginn sko guð þarna uppi sem hjálpar þér að stýra vefnum og í búddismanum er það líka predikað. Það er enginn algóður guð sem stýrir öllu í þínu lífi og í þínu umhverfi. Það er mikið undir þér komið hvernig manneskja þú ert.

Það er svo margt sko. Nú hljómar það eins og ég sé sanntrúaður búddisti en ég… búddismi er í mínum huga fyrst og fremst heimspeki og mögnuð heimspeki sem er hægt að yfirfæra á svo margt og til góðs en auðvitað fyrir öðrum er það trú og fyrir flesta sem heyra orðið búddismi sjá fyrir sér tíbetskan munk í kufli og krúnurakaðan. En það er ekki bara ég heldur milljónir aðrir sem sjá þessi góðu gildi sem hægt er að yfirfæra á starf og einkalíf þannig að… þetta ætla ég að reyna svona að tengja. Ég er svona dálítið að tengja mitt áhugamál og starf í þessu erindi.“

Dagur: Já þetta hljómar nú bara mjög gáfulega… hinn búddíski vefstjóri. Sigurjón Ólafsson, þakka þér innlitið í Sjónmál og áhugaverðar vangaveltur um vef og trúmál.

Sigurjón: „Bestu þakkir.“

 

Mynd: sakhorn 38 frá / FreeDigitalPhotos.net

One Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.