Hinn stóri misskilningur um vefstjórastarfið

Höfundur
Dagsetning
janúar 16, 2014
Flokkar
Lestrartími
11 min
Höfundur
Dagsetning
24. júni 2025
Lestrartími
11 min

Þeir sem vinna við vefstjórn eiga stundum erfitt með að útskýra í hverju starf þeirra felst. Það eru ýmsar ranghugmyndir í gangi og víða vantar upp á skilning og virðingu fyrir starfi vefstjórans. Það er okkar að fræða og breyta þessu en verum þolinmóð. Starf vefstjórans er tiltölulega nýtt starfsheiti og enn í mótun.

Eftirfarandi samtal, sem var hlerað í íslensku fjölskylduboði í vor, gefur hugmynd um innsýn og virðingu venjulegs Íslendings fyrir starfi vefstjórans. Nöfnum hefur verið breytt.

Fjölskylduboðið

Persónur og leikendur:
Nína, 58 ára bókari hjá Hagræðingu ehf og frændi hennar Jón, 32 ára vefstjóri hjá Fyrirmyndarstofu ríkisins.

Nína bókari: „Sæll, mikið er langt síðan. Þú gekkst menntaveginn ólíkt mörgum í fjölskyldunni. Mikið hlýtur móðir þín að vera stolt af þér. Æ ég vildi að sonur minn myndi hysja upp um sig buxurnar. En hvað um það. Hvað gerir þú í dag vinur?“

Jón vefstjóri: „Hæ frænka, ég sé um vefmál hjá Fyrirmyndarstofu. Er vefstjóri.“

Nína: „Já veðmál, áhugavert. En er það ekki ólögleg starfsemi? Þarf vélstjóra í það?“

Jón: „Nei sko vefmál með effi. Ég stýri vefnum eða þú kallar það kannski heimasíðu, er vefstjóri sko.“

Nína: „Æ fyrirgefðu, fannst þú segja annað. Ég setti upp heimasíðu fyrir saumaklúbbinn um daginn. Það var nú frekar einfalt. Er þetta ekki huggulegt starf?“

Jón (orðinn smá pirraður): „Huggulegt, jú en það er erilsamt og krefjandi. Mikið að gera.“

Nína: „Já það eru allir svo uppteknir. Ert þú þá svona að hanna vefinn?“

Jón: „Nei, ég geri það nú ekki. Við erum með mann í því.“

Nína: „Þú ert þá svona tölvumaður. Það er nú framtíð í því. Æ ég vildi að sonur minn…“

Jón: „Nei sko vefstjóri er ekki að hanna eða forrita…“

Nína (grípur fram í): „Hvað gerir þú þá Jón? Ertu kannski bara að leggja undir á vefnum? Ég hafði kannski þá rétt fyrir mér eftir allt (hlær)“.

Jón (rauður í framan): „Sko, ég skipulegg vefinn, sé um efnið og sé til þess að það sé einfalt og gott að nota vefinn…“

Nína (búin að missa áhugann og engu nær): „Jæja Jón minn, ertu ennþá í boltanum?“

Mennt er máttur

Við eigum langt í land en það glittir í von um aukinn skilning og virðingu fyrir störfum okkar. Það helst í hendur við vaxandi mikilvægi vefsins og aukinnar fræðslu og menntunar.

Verum þolinmóð. Að öðlast virðingu samfélagsins tók handverks- og iðnaðarmenn langan tíma. Stétt vefiðnaðarmanna er enn á þroskastigi unglings í árum talið. Samkvæmt orðabókinni erum við meira og minna öll fúskarar í íslenskum vefiðnaði.

 

Mynd: © Royalty-Free/Corbis

Viltu deila þessari færslu?