Í nýlegri grein fjallaði ég um notkun viðtala í undirbúningi vefverkefna og minntist þá lítillega á æfingu sem ég kýs að kalla flokkunaræfingu en kallast card-sorting á ensku. Mig langar að fjalla nánar um þessa aðferð en hana nota ég í auknum mæli í verkefnum. Aðferðin er í senn einföld og árangursrík ef rétt er að henni staðið.

Æfingin minnir meira á föndur en vefvinnu. Það er engin ein rétt leið til að gera þessa æfingu. Ef “card-sorting” er slegið upp í leitarvél þá koma upp margar ólíkar nálganir en til þess að flækja hlutina ekki um of vísa ég í eigin reynslu og framkvæmd sem þarf alls ekki að vera sú eina rétta. Ég hvet ykkur til að prófa þessa aðferð og kanna hvort ykkur þyki flokkunaræfing skynsamleg leið til að skipuleggja vefinn.

Skipulag æfingarinnar

Flokkunaræfing - card sortingÆfingin gengur í grófum dráttum út á það að flokka miða eftir skyldleika þar sem er búið að skrifa niður heiti á algengustu 30-100 síðum á núverandi vef samkvæmt vefmælingum. Ef um nýjan vef er að ræða eða þú hefur ekki vefmælingar til að styðjast við þá velurðu síður sem þú telur að séu mikilvægustu síðurnar. Fjöldinn fer eftir stærð vefsins eða hve löngum tíma þú vilt verja í æfinguna.

Þegar þú hefur valið síðurnar skrifaðu heitin niður, t.d. á gula miða sem hægt er að líma á vegg, eða prentaðu á spjöld sem raða má á borð. Hver og einn finnur þá aðferð sem honum hentar. Eitt sett af miðum er búið til fyrir hvern þátttakanda.

Þessi æfing getur verið einskorðuð við þátttöku vefstjóra og vefhönnuðar en ég mæli með að fá að lágmarki 8-10 notendur til að hún sé marktæk. Fáðu bæði hagsmunaaðila á vefnum (starfsmenn) og venjulega notendur, helst jafnt hlutfall.

Boðaðu þátttakendur til fundar og hafðu fundarstaðinn nægilega stóran til að allir geti unnið í einu rými. Gerðu ráð fyrir 1-2 klukkustundum í æfinguna, en lengdin fer eftir umfangi hennar. Umbun til þátttakenda getur verið sambærileg og í notendaprófunum, t.d. gjafakort eða bíómiðar.

Útskýrðu verkefnið fyrir hópnum. Ef miðarnir eru 50 gefðu þátttakendum u.þ.b. 30 mínútur til að flokka þá eftir skyldleika. Að því loknu gefa þeir hverjum flokki heiti og skrifa á auðan miða. Heitið þarf að vera lýsandi fyrir efnið og þátttakendur ættu að taka sér ágætan tíma til að velta því fyrir sér. Biðjið þá um að sjá fyrir sér vef í huganum og líta á þessi heiti sem skiltin sem eiga að leiða þá áfram á vefnum.

Þegar allir hafa lokið sinni flokkun gengur stjórnandi á milli, fær hvern og einn til að útskýra sína niðurstöðu í 3-5 mínútur, hinir fylgjast með og umræður eiga sér stað. Síðan er gengið að næsta og endurtekið, svo koll af kolli.

Að lesa úr niðurstöðum

Fyrir eiganda vefsins væri ákjósanlegt að niðurstaðan gæfi til kynna sterkan meirihlutavilja hjá notendum um skipulag vefsins. Stjórnandi verkefnisins vinnur nánar úr þessum tillögum og nýtir þær ásamt öðrum greiningargögnum til að gera skissu að skipulagi vefsins sem síðan getur farið í prófun.

Í nýlegu verkefni sem ég hef verið að vinna að fengum við 5 notendur og 5 starfsmenn til að taka þátt í flokkunaræfingu sem gáfu áhugaverðar niðurstöður og sannfærðu mig endanlega um ágæti æfingarinnar.

Það kom í ljós að notendur flokkuðu miðana með allt öðrum hætti en starfsmenn. Í kjölfarið komu játningar. Hluti starfsmannanna áttaði sig á að það var búið að tala svo sterkt fyrir einni nálgun að þeir voru hættir að hugsa sjálfstætt og játuðu að notendur hefðu líklega rétt fyrir sér með skipulag vefsins.

Í framhaldi gerðum við notendaprófanir á tveimur skissum með sitt hvoru leiðarkerfinu sem byggðust á niðurstöðum æfingarinnar. Niðurstaðan var afdráttarlaus, notendur sem komu í prófun voru 100% sammála viðskiptavinunum sem höfðu komið í flokkunaræfinguna. Það þurfti ekki frekari sannanir. Allir í hópnum sannfærðust og voru sáttir með skýra niðurstöðu.

Ef þið hafið reynslu sem þið villjð deila af notkun flokkunaræfingar eða athugasemdir við þessa grein þá endilega komið þeim á framfæri. Er flokkunaræfing góð þýðing á card-sorting?

2 Comments

  1. Var að það ofangreint sem þú hafðir ekki tíma til að gera s.l. miðvikudag. Kannski maður lesi þetta til glöggvunar sbr að “glöggva” á gúglinu.

  2. Vel þess virði að prófa þessa æfingu í vefverkefnum. Synd að við höfðum ekki tíma til þess í námskeiðinu en endilega að lesa sig til…

Leave a Reply to Sigurjón Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.