Í þessum 100. pistli sem ég birti á funksjon.net langar mig að líta til baka og vera á persónulegum nótum. Ég rýni stuttlega í feril minn í vefmálum en beini fyrst og fremst sjónum mínum að vefiðnaðinum, hlutverki og hugsjónum. Af þessu tilefni hóf ég útgáfu á fréttabréfi sem ég nefni Fróðleikur um vefmál. Kíktu á það og fáðu þér áskrift ef þér líst á.

Það var aldrei skrifað í skýin að vefurinn yrði framtíðarstarfsvettvangur minn þegar ég var í háskólanámi í stjórnmálafræði og alþjóðastjórnmálum enda veraldarvefurinn á upphafsreit þegar ég var að ljúka námi frá Amsterdam 1994. Ég hafði ekki einu sinni skrifað tölvupóst á því herrans ári.

Fyrsta starfið mitt var hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og þar sinnti ég upplýsinga- og fræðslumálum. Á síðasta vetrinum mínum árið 1996 sótti ég námskeið í HTML hjá guðföður veraldarvefsins á Íslandi, Gunnari Grímssyni, enda var stofnunin komin með plön um að koma upp vef. Líkt og önnur fyrirtæki höfðum við takmarkaða hugmynd um hvaða hlutverki honum var ætlað.

Frá 1997 þegar ég tók við starfi útgáfustjóra Siglingastofnunar þá fékk ég verðugt verkefni að gera nýjan vef sem þjónaði mikilvægu hlutverki við sjófarendur með upplýsingum um veður og sjólag. Þar vann ég með Margmiðlun undir forystu núverandi forstjóra Advania, Gesti Gestssyni. Eftir þetta verkefni fann ég að þarna væri ekki bara heillandi vettvangur heldur einnig sérlega hentugur fyrir minn karakter, introvertinn.

Heillandi vefheimur

Fyrstu sex árin eftir útskrift vann ég hjá hinu opinbera. Bæði skemmtileg og krefjandi störf sem ég fékk að móta enda enga forvera að finna á þessum nýja og spennandi vettvangi í starfsemi fyrirtækja. Það var svo árið 2001 að vefurinn varð mitt aðalstarf (eftir eitt ár í markaðsmálum hjá PricewaterhouseCoopers) þegar ég réði mig til Kaupþings í starf vefritstjóra. Kaupþing var minn vinnustaður næstu 7 árin og rúmlega það. Þetta var líklega eitt fárra starfa þar sem vefritstjóri (eða vefstjóri) var í fullu starfi. Þar losnaði ég við kynningarmálin, markaðsmálin og að þurfa að vera stöðugt í framlínu sem hentar jú ekki introvertinum.

Hvað er það við vefheiminn sem gerir hann svo heillandi? Af hverju laðaðist ég að vefnum og hef í dag unnið lungann úr ævistarfinu á því sviði? Í viðtali sem var tekið við mig í Morgunblaðinu 2001 þegar ég hafði nýlega tekið við starfi vefritstjóra Kaupþings var ég spurður um hvað það væri sem drægi mig að vefnum.

Ég kynntist þessum heillandi heimi af alvöru fyrir fjórum árum þegar ég vann að uppbyggingu vefseturs Siglingastofnunar, www.sigling.is. Það var mjög spennandi og þá fannst mér ekki vera aftur snúið, þetta hlyti að vera framtíðarstarfsvettvangurinn. (Morgunblaðið, 16. ágúst 2001)

Bankamaður með engan áhuga á peningum

Fjármálaheimurinn heillaði mig ekki sem slíkur. Á öllum mínum starfstíma í banka átti ég aldrei verðbréf eða hlutabréf (nema óbeint í gegnum lífeyrissjóði). Ég sagði stundum að ég væri bankamaður með engan áhuga á peningum.

En áhugi minn á vefmálum óx og Kaupþing gaf mér tækifæri til að vaxa og þróast. Það er gott að vera í starfi þar sem skilningur er á mikilvægi vefmála (hvað sem annað má segja um reksturinn).

Eftir um 6 ár í bankanum leitaði hugur minn í trúarbragðafræðina og þangað kúplaði ég mig með því að sækja eitt og eitt námskeið um islam, kristni, búddisma og önnur trúarbrögð heimsins. Ég var líklega orðinn nokkuð nokkuð súr af því að miðla upplýsingum um milljarðagróða bankamanna. Ég las því á kvöldin en þjónaði Mammon á daginn. Námið var ákveðin frelsun og líklega alveg nauðsynlegt. Ekki vegna trúarþarfar heldur fróðleiksþorsta efahyggjumannsins.

Trúarbrögð hafa heillað mig í yfir 20 ár og hver veit nema ég taki upp þráðinn þar síðar í háskólanámi. Kannski ef meðul á vefnum munu taka upp á því að helga fyrst og fremst vondan tilgang. En það hafa þau nefnilega ekki gert.

Vefurinn hefur sem betur fer æðri tilgang: Að færa fólk saman, deila upplýsingum, gera líf fólks þægilegra, auðugra og bæta samskipti í heiminum. Þetta voru markmið upphafsmannsins Tim Berners-Lee og sem betur fer er enn sá andi sem svifur yfir vötnum.

Hvort vinnur þú við heimasíður eða vefi?

Það er hins vegar sægur til af fólki sem stýrist af öðrum hvötum og hefur fundið sér starfsvettvang í vefgeiranum en sá minnihluti skyggir engan veginn á hinn göfuga meirihluta sem starfar af óeigingjörnum metnaði á degi hverjum til þess eins að gera vefinn (heiminn) að betri stað í dag en hann var í gær.

Hvernig stendur á þessu? Af hverju virðist vefiðnaðurinn vera einn af fáum iðnaðargeirum sem hefur ekki fyrst og fremst gróðasjónarmið að sínu eina takmarki?

Það er ekki einfalt svar við þessu. Það sem ég skynja þó helst er að það eru ákveðnar manngerðir sem þrífast og dafna í vefheiminum.

Það er aldrei gott að skipa fólki í dilka en ég ætla að taka áhættuna af því hér. Í sinni einföldustu mynd er fólk sem vinnur við heimasíðugerð (ég hata orðið heimasíður) og vill fyrst og fremst græða á daginn og grilla á kvöldin. Svo er fólkið sem sinnir vefsíðugerð. Það hjálpast að við að bæta vefheiminn í anda þeirra hugmynda sem veraldarvefurinn var stofnaður í kringum um.

Nú kann einhver að reka í rogastans. Þetta hugsjónafólk sem ég er að taka hér í nánast guðatölu veigrar sér svo ekki við að taka himinháar (að mati sumra) fjárhæðir á tímann sem fær venjulegt fólk til að svitna! Góð og gild rök.

Þó gróðinn sé ekki það sem rekur flesta áfram í sínum störfum á vefnum þá vilja allir virðingu fyrir sínum störfum. Í okkar heimi fæst virðing ekki nema með mælikvarða peninga. Markmið mitt t.d. með stofnun Fúnksjón vefráðgjafar var að efla virðingu fyrir starfi vefstjórans, mikilvægi undirbúnings vefverkefna, mikilvægi innri vefja, skrifa fyrir vefinn og umfram allt að gera einfaldari og betri vefi. Það kostar tíma og peninga að gera hlutina einfalda. Ef ég ætlaði að selja ráðgjöfina á tombóluprís þá myndi ég aldrei ná markmiði mínu en sel þess í stað á sanngjörnu verði.

Það er gott að gefa. Það selur!

Í vefiðnaðinum deila menn þekkingu og flestir án skuldbindinga. Fólk les greinar, bækur, dregur lærdóm af verkefni sem það vann, á ráðstefnu sem það sat eða deilir færslu sem það sá á Twitter. Í einhverjum geira myndu menn lúra á þessari þekkingu og halda henni fyrir sig. Hræddir um að einhver annar myndi “stela” hugmyndinni og ná af sér viðskiptavini.

Þannig hugsa fæstir í vefgeiranum (á heimsvísu). Við erum tilbúin að gefa frá okkur þekkingu, við bloggum, höldum fyrirlestra, kennum og tístum. Þetta gerðum við löngu áður en markaðsfólk fann upp hugtakið efnismarkaðssetning (e. content marketing) sem er reyndar mikil blessun fyrir okkar geira og stuðlar að aukinni virðingu fyrir efni.

Lærdómurinn af þessu: Það er gott að gefa. Það selur!

Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að vefiðnaðurinn hefur tekið samfélagsmiðlum svona vel. Þar virkar ekki hefðbundin sölumennska, þvert á móti. Fólk sækir í samskipti, vill heyra fólk deila sögum, taka þátt í samræðu og umbunar vel þeim sem virða leikreglurnar.

Þegar ég hóf bloggskrifin mín 2011 vakti ekkert annað fyrir mér en að þjónusta nemendur sem sóttu námskeið hjá mér í Endurmenntun HÍ. Síðan vatt þetta upp á sig. Ég fann að það var frelsandi að skrifa um hluti sem ég var að lesa um og kynna mér. Af hverju ekki að deila þekkingunni? Síðar komu regluleg bloggskrif sér vel.

Þessi miðlun þekkingar hefur skilað mér þorra þeirra viðskiptavina sem ég hef unnið fyrir sl. ár (takk Google) auk þess sem kennslan hefur skolað nokkrum viðskiptavinum á land. Fólk kemur til mín vegna þess að það telur að ég búi yfir þekkingu og reynslu sem hentar þeirra verkefnum. Það finnst mér æðislegt því ég er lítill sölumaður.

Það er gott að vera hluti af þessum skapandi vefheimi sem ber virðingu fyrir heiðarleika og hugsjónum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.