Samtök vefiðnaðarins, SVEF, brydduðu upp á nýjung á fyrsta fundi haustsins. Það var efnt til morgunverðarfundar að þessu sinni og boðið upp á gómsæt rúnnstykki og kaffi. Þroskamerki? Dálítið fullorðins að mæta á morgunverðarfund í stað bjórkvölds, ræða um opin gögn og vefinn.

Áhugi minn á opnum gögnum er frekar nýtilkominn og má eiginlega rekja til vefsins vegvisir.is sem ég nýti mér óspart. Hingað til hef ég eftirlátið forriturum og meira tækniþenkjandi mönnum eftir þetta svið.  Opin gögn eru heillandi viðfangsefni, eitthvað sem vefurinn og neytendur eiga eftir að njóta góðs af um langa framtíð. Vegferðin er rétt hafin.

Guðbjörg og stefna stjórnvalda

Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri upplýsingasamfélagsins hjá innanríkisráðuneytinu, hóf fundinn með því að reifa þá vinnu sem er í gangi hjá hinu opinbera, stöðu og framtíðarsýn eins og það var orðað.

Fyrir nokkrum árum var vefurinn opingogn.is opnaður en hann veitti þá aðgang að gögnum frá Fjársýslu ríkisins, um útgjöld hins opinbera. Í dag hefur svo sem ekki mikið bæst við en alls eru fimm gagnapakkar skráðir á vefnum. Þrír frá Fjársýslunni (gjöld, tekjur og sértekjur), einn frá Þjóðskrá (staðsetning fasteigna) og einn frá Landmælingum (landupplýsingar). En mjór er mikils vísir.

Í máli Guðbjargar kom fram að stefnt er að því að opnað verði fyrir aðgang að 80% af mikilvægustu gagnagrunnum ríkis og sveitarfélaga fyrir árslok 2016. Þetta er metnaður í lagi og það verður virkilega ánægjulegt ef þessi markmið nást. Guðbjörg lagði þó áherslu á þetta væri langtímaverkefni til hagsbóta fyrir almenning og fyrirtæki. Mikilvægt væri að forgangsraða og missa ekki sjónar af meginmarkmiðunum sem væru gagnsæi og nýsköpun.

Íslensk stjórnvöld hafa gert samning við erlent ráðgjafafyrirtæki og eru einnig að skoða erlendar fyrirmyndir eins og Open Knowledge samtökin. Eins er verið að skoða hvort stjórnvöld undirriti Open Government Partnership yfirlýsinguna, en að henni standa samtök þjóða sem vilja leggja áherslu á og stefna að opnun gagna. Öll helstu nágrannalönd Íslands hafa stigið það skref eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Open Government Partnership
Open Government Partnership: Hvar er Ísland?

Kristján Ingi og apis.is

Það er mikil gróska í grasrótinni eins og erindi Kristjáns Inga Mikaelssonar og Huga Hlynssonar báru með sér. Á apis.is er unnið óeigingjarnt starf með aðgengi að spennandi gögnum sem hafa fengið frábærar viðtökur en flestir þekkja vefinn vegna gagna frá Strætó. Ungt skapandi fólk fær þar frábæran efnivið til að bæta upplifun og aðgengi að þessum mikilvægu samgöngupplýsingum. Ekki veitir af myndi einhver segja!

Önnur gagnasett á apis.is eru m.a. frá Samgöngustofu, kvikmyndir.is, Fyrirtækjaskrá og Veðurstofunni. Það vandast aðeins málið hjá undirrituðum að gera þessu efni almennileg skil því ég sóna fljótt út þegar talað er um kóða og tækni. En það breytir því ekki að erindin voru flott. Kristján Ingi sagði að það hefði verið afar mikill áhugi á gögnunum frá Strætó sem þeir skröpuðu af straeto.is. Með þessu verkefni komst vefurinn apis.is á kortið og það var mikil hvatning fyrir þá sem standa að vefnum enda fengu þeir mikið hrós og hvatningu.

Það er núna um 25 manns sem hafa með einum eða öðrum hætti komið að þessu verkefni. Mikið af gögnum er á leiðinni t.d. frá Landmælingum. Það ríkir spenningur fyrir því og vilji til að taka þetta verkefni á næsta stig, gera enn auðveldara að koma með gögn inn í það og deila með áhugasömum.

Hugi og Hvað er í bíó?

Hvað er í bíó? vefurinnÍ lokin talaði Hugi Hlynsson um vefinn hvaderibio.is en þetta verkefni nýtir gögn af apis.is og byrjaði sem skólaverkefni í Háskóla Íslands. Vefurinn veitir greitt aðgengi að upplýsingum um það sem er í bíó og notendur geta síað gögnin eftir tíma, heiti og staðsetningu.

Hugi sagði að þetta væri í raun bara viðmót ofan á gögn og eiginlega ekkert að gerast þarna eins og hann orðaði það. En það var óþarfa hógværð. Þessi vefur er ansi nytsamur, hefur skýrt markmið og þjónar notendum hratt og vel.

Opin gögn skapa mikil tækifæri. Um leið og gögnin eru komin þá myndast vettvangur þar sem fólk getur farið að búa til hluti. Hönnuðir og forritarar fara að leysa vandamál sem fólk vissi ekki að væru til og leysa sköpunarmátt sinn úr læðingi. Fókusinn á að vera á notendaupplifun sagði Hugi og það eru orð að sönnu hvað vefinn hvaderibio.is varðar. Ef gögnin eru stöðug, áreiðanleg og uppfærð þá erum við í góðum málum, sagði hann.

Fyrir vefinn Hvað er í bíó skipti hraði og einfaldleiki miklu máli. Fólk vill fara í bíó og taka skjótar ákvarðanir. Hugi sagði að mikilvægt væri að sækja gögnin á hraðan máta þar sem flæðið er lykilatriði og komi þeim hratt til notandans.

Í lokinn minntist Hugi á vefinn Strae.to sem er nýtt verkefni í þróun og nýtir einmitt gögnin frá straeto.is. Það gildir það sama um þennan vef og hvaderibio.is – hér er notendaupplifun með áherslu á hraða, fallega hönnun og nytsemi að leiðarljósi.

Vá hvað það eru spennandi tímar framundan

Af þessum erindum að dæma þá eru spennandi tímar framundan. Við eigum von á því að á næstu tveimur árum verði búið að opna fyrir 80% af mikilvægustu gögnum hins opinbera. Og þegar risinn vaknar þá fara mýslurnar á kreik, skapa, búa til nýja upplifun og skila ávinningi fyrir almenning og fyrirtæki. Svei mér þá ef Seðlabankinn þarf ekki að uppfæra hagvaxtarspá sína.

Ég fór mettur, sæll og glaður af þessum fyrsta morgunverðarfundi SVEF. Er ekki frá því að árvekni mín hafi verið betri en á bjórkvöldi þó svo að ég hafi á köflum átt fullt í fangi með að skilja allt enda verð ég seint talinn “góður í tölvum” eins og maðurinn sagði.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.