Innri vefir hafa í gegnum tíðina ekki hlotið þá virðingu sem þeir eiga skilið. Þeir eru neðar í virðingarröð en ytri vefir og Facebook er farið að ógna stöðu þeirra að einhverju leyti. Félagslífið og umræðan er að færast þangað. En innri vefurinn á betra skilið. Með réttu viðurværi getur hann verið líf- og samskiptaæð fyrirtækis, bætt starfsanda og verið þekkingabrunnur starfsmanna.

Þessi grein var upprunalega birt á bloggi Hugsmiðjunnar.

Við skulum ekki gera óraunhæfar kröfur til innri vefja því yfirleitt skortir stuðning. Það er ekki sanngjarnt að fara fram á það við munaðarlaust barn sem kemst sjaldan í bað, lýtur engum aga og er að auki með persónuleikaröskun að fara allt í einu að hegða sér eins og prúðbúið sunnudagaskólabarn.

Ólík umhyggja fyrir innri og ytri vef

Vefir fyrirtækja eru yfirleitt mikil krútt í byrjun. Upplifun af fæðingu var góð, hann kom eðlilega í heiminn, engin merki um meðfædda galla eða ofvöxt á meðgöngunni.

Innri vefir, hins vegar, eiga það til að skakklappast í heiminn. Óeining um áherslur og eignarhald verður oft í ferlinu. En vegna þess að búið er að verja miklum tíma og fé í verkefnið þá er talið nauðsynlegt að ýta honum úr vör. Ekkert húllumhæ. Bara tilkynning frá forstjóra í tölvupósti að nýr innri vefur sé fæddur með góðum óskum um bjarta framtíð.

Það hefur verið sagt um innri vefinn að daginn sem hann fer í loftið þá hefjist samfellt hnignunarskeið sem lýkur ekki fyrr en hafin er vinna við nýjan vef. Hann verður oftast að óskapnaði vegna slælegrar stjórnunar og stuðnings. Lýtalæknar gera ekkert gagn þegar þannig er ástatt. Þá er frekar spurning um að kalla til svæfingalækni og leggja drög að nýjum vef. Byrja með autt blað, tóman huga sem er ómengaður af fyrri mistökum.

Nú gæti einhver sagt að hér sé hlaðið í of mikla neikvæðni. Kannski, en það þarf stundum að taka sterkt til orða til að fá fram breytingar.

Vekjaraklukkan hringir. Ekkert snús lengur – tökum innri vefinn alvarlega!

Veljum réttu foreldrana

Áður en við leggjum af stað við smíði á nýjum innri vef þurfum við að fá hagsmunaaðila að borðinu sem eru líklegastir til að skapa fagurt, vel upp alið og gáfað afkvæmi. Til þess þarf rétta litninga, metnað og áhuga.

Nýir foreldrar verða að vera umfram allt umhyggjusamir, tilbúnir að leita sér þekkingar, hafa ríka samúð með skoðunum starfsmanna, samstilltir þegar kemur að reglum, tilbúnir að beita aga ef með þarf (þora að segja nei), eiga auðvelt með samskipti og ekki síst átta sig á að fæðingu lokinni tekur við skuldbinding til margra ára að hugsa vel um og næra barnið fram á fullorðinsár.

Jafnvel þótt þessi formúla gangi upp er ekki útilokað að upp úr sambandinu slitni og við taki forræðisdeilur hagsmunaaðila.

Foreldrar innri vefsins þurfa líka að sýna tryggð og hollustu. Lausaleikskrógar (aukavefir og hliðarkerfi) hafa skaðað marga innri vefi. Tilvera slíkra króga geta valdið djúpstæðum sárum í sambandi foreldranna sem taka langan tíma að gróa.

Látum þetta ekki gerast. Verum ábyrg; sýnum fyrirhyggju, umhyggju og áttum okkur á því að góður innri vefur getur:

  • Auðveldað okkur störfin
  • Létt okkur lundina
  • Fært okkur saman
  • Kennt
  • Miðlað
  • Skilað ávinningi

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.