Fyrsti vefstjórinn til að koma í viðtal í flokknum sívínsæla “Fólkið í vefbransanum” er einn mesti reynsluboltinn í vefstjórn á Íslandi og því sönn ánægja að kynna Þorfinn Skúlason hér til leiks.

Þorfinnur er afskaplega mætur maður, skemmtilegur, hlýr í viðkynningu og hefur komið að mörgum bestu vefjum á Íslandi síðustu 15 ár.

Eins og með svo marga vefstjóra hefur Þorfinnur áhugaverðan bakgrunn. Hann er íslenskufræðingur og hefur kennt þau fræði í Háskóla Íslands. Þorfinnur hefur auga fyrir hönnun, kann skil á öllum helstu sviðum veffræðanna, leynir á sér í tækniþekkingu og hefur aflað sér víðtækrar reynslu sem án efa nýtist honum vel í krefjandi vefstjórastarfi hjá alþjóðlegu fyrirtæki í dag.

Teymi hans hjá Alvogen hlotnaðist mikill heiður fyrir alvogen.com á síðustu SVEF hátíð fyrir besta fyrirtækjavefinn. En kynnumst Þorfinni betur.

Nafn: Þorfinnur Skúlason

Starfið í dag: Senior Global Webmaster eða vefstjóri Alvogen. Sé um þróun og rekstur allra vefja Alvogen og Alvotech.

Fyrri störf: Vefstjóri siminn.is, Vefráðgjafi hjá Gæðamiðlun, Mekkano og Kveikjum. Verkefnisstjóri hjá Eskli og Advania. Þróunarstjóri veflausna Nova.

Fjölskylduhagir: Giftur Kristrúnu Höllu Helgadóttur, sagnfræðingi hjá Íslenskri erfðagreiningu, saman eigum við þrjár dætur, Emblu, Kristínu og Magneu.

Menntun: Íslenskufræðingur með MA próf í íslenskum bókmenntum, sérhæfing í bókmenntum 18. aldar. Lauk sitt hvoru árinu í viðskiptafræði við HÍ og fornámsári við MHÍ (nú LHÍ).

Hvað færðu þér í morgunmat? Ristað brauð og kaffi.

Uppáhaldsdrykkur? Bjór, indian pale ale eða porter.

Ef ekki Ísland hvar værir þú að vinna þá? Ég gæti helst hugsað mér að vinna í Danmörku.

Besta kvikmyndin? Erfitt að velja eina: Ghost dog – the way of the Samurai, Get Carter (1971) og margar myndir Steve Mcqueen.

Uppáhaldstónlistin? Jazz, teknó, gamalt groove, stöðug leit að einhverju nýju. Flest allt með Gus Gus er gott, opnaði eyrun nýlega fyrir íslensku rappi, Kött Grá Pje, 7berg, Heimi rappara og MC bjór.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir utan vinnunnar? Vera með fjölskyldunni, hlusta á tónlist, lesa, fara út að hlaupa, hitta vini.

Hvernig slakarðu á? Ég slaka best á úti í náttúrunni. Oft dugir að fara í góðan göngutúr, en dvöl í sumarbústað eða ferð um landið slakar á öllu.

Alvogen vefurinnAf hvaða verkefni ertu stoltastur? Vefnum Alvogen.com, hef mikið unnið í honum undanfarið ár. Fengum SVEF verðlaun fyrir hann í fyrra.

Stærsti áhrifavaldur í vefmálum? Steve Krug, hef blendnari tilfinningar til Jacob Nielsen.

Besta vefbókin? Don’t Make Me Think.

Ef þú mættir aðeins vera á einum samfélagsvef, hvern myndirðu velja? Pinterest.

Besti vefur sem þú hefur unnið við? Vefur bílalánafyrirtækisins Avant, árið 2007 reis hátt, þrjár reiknivélar, vídeóbanner, gagnatengingar við 10 bílasölur í gegnum SSIS tengingar og umsóknarferlið á vefnum.

Mikilvægasta viðurkenningin sem þú hefur fengið? SVEF verðlaunin 2013, alvogen.com besti fyrirtækjavefurinn.

Er nauðsynlegt að kenna vefhönnun/vefstjórnun/vefforritun? Ég er ekki í nokkrum vafa um að það væri til mikilla bóta. Þegar ég hóf störf árið 1998 sem ritstjóri vefs Símans var til að mynda heitið vefstjóri ekki til og alla þekkingu hefur maður þurft að verða sér út um sjalfur í gegnum árin. En síðan þá hefur bransinn þroskast mikið og mikil þekking orðið til sem gagnlegt væri að kenna. Fagið er umfangsmikið og kemur inn á mörg svið en með þessu móti mætti dýpka þekkinguna.

Hvað ertu mest forvitin(n) um þessa dagana? Dróna og þrívíddaprentara.

Tækin þín (síminn, tölvan, skjáir, annað): Samsung S4, Dell ProBook 6570b, iPad, Samsung NX210 myndavél.

Bókamerkin þín: Awwards.com, smashingmagazine.com, alistapart.com, mbl.is, visir.is, dv.is, wired.com, dustygroove.com, soundcloud.com, youtube.com.

Öppin: Gmail, Flipboard, Plant vs Zombies, Strava, Candy Crush, Facebook, Vivino, Strætó appið, QuizUp.

Uppáhaldshlutur á skrifstofunni: Kaffivélin.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.