Jóhönnu, framkvæmdastjóra Sjá ehf., þekkja líklega flestir sem eru eldri en tvævetur í vefbransanum á Íslandi. Að minnsta kosti þeir sem láta sig nytsemi og aðgengi varða. Jóhanna er þó ekki manneskja sem vill berast mikið á og það var því ánægjulegt að sannfæra hana til að koma til viðtals í flokknum Fólkið í vefbransanum.

Stelpurnar (já lengst af eingöngu stelpur) í Sjá eru frumkvöðlar í notendaprófunum og aðgengisúttektum á vefjum og hugbúnaði á Íslandi. Fyrirtækið hefur starfað óslitið frá 2001 og skilað miklu til vefsamfélagsins, ekki síst í formi notendaprófana, vefráðgjafar og aðgengismála. Jóhanna hefur sömuleiðis látið að sér kveðja í stjórn SVEF og þannig unnið að stefnumótun fyrir vefsamfélagið á Íslandi.

Frá 2001 hef ég þekkt þær Jóhönnu og Áslaugu og fengið mikilvæga ráðgjöf og aðstoð við að búa til notendavænni og aðgengilegri vefi. Með árunum hef ég sannfærst betur og betur um gildi notendaprófana á öllum stigum vefþróunar. Þá er gott að eiga sérfræðinga að.

Bækistöðvar Sjá hafa alla tíð verið í miðbæ Reykjavíkur og þangað hefur alltaf verið notalegt að koma. Síðustu árin hafa þær verið á Klapparstíg, áður í Ingólfsstræti og senn á Laugavegi 13 (frá 1. janúar 2015).

En nóg af masi. Hver er Jóhanna?

Nafn: Jóhanna Símonardóttir

Starfið í dag: Framkvæmdastjóri og ráðgjafi hjá Sjá ehf. Sem ráðgjafi vinn ég náið með viðskiptavinum Sjá, sé um framkvæmd prófana og annarra úttekta ásamt því að halda utan um rekstur fyrirtækisins.

Fyrri störf: Ég er einn af stofnendum Sjá og hef verið þar frá upphafi en fyrirtækið var stofnað 2001. Þar á undan var ég verkefnastjóri hjá Íslensku vefstofunni, aðstoðarmanneskja upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar og eftir að ég lauk námi var ég fararstjóri á Spáni í 4-5 ár, flakkaði á milli Costa Brava, Barcelona og Kanarí.

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Tómasi Edwardssyni og við eigum 3 börn. Símon 11 ára, Finn 9 ára og Önnu Maríu 3 ára.

Menntun: Msc í mannfræði frá LSE, og BA í mannfræði og spænsku frá HÍ.

Hvað færðu þér í morgunmat? Stóran kaffibolla.

Uppáhaldsdrykkur? Sódavatn.

Ef ekki Ísland hvar værir þú að vinna þá? Hef sterkar taugar til Spánar en mér finnst Skandinavía líka spennandi.

Besta kvikmyndin? Pulp Fiction var mikil upplifun á sínum tíma.

Uppáhaldstónlistin? Undanfarið hef ég hlustað mikið á nýja GusGus diskinn – Mexico.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir utan vinnunnar? Fara í sund með börnunum mínum.

Hvernig slakarðu á? Horfi á mynd, les bók, fer í sund.

Af hvaða verkefni ertu stoltust? Fyrir utan það að hafa komið Sjá á laggirnar og staðið vaktina í bráðum 15 ár verð ég að nefna úttektina Hvað er spunnið í opinbera vefi? Við hjá Sjá höfum komið að framkvæmd úttektarinnar í gegnum tíðina. Gríðarlega stórt verkefni þar sem um 300 opinberir vefir stofnana og sveitarfélaga eru teknir út. Virkilega metnaðarfullt og skemmtilegt verkefni en við komum meðal annars að því að undirbúa og skipuleggja úttektina þegar hún var fyrst framkvæmd árið 2005.

Jakob Nielsen
Jakob Nielsen, stærsti áhrifavaldurinn

Stærsti áhrifavaldur í vefmálum? Jakob Nielsen

Besta vefbókin? Rocket Surgery Made Easy eftir Steve Krug

Ef þú mættir aðeins vera á einum samfélagsvef, hvern myndirðu velja? Ég á í haltu mér-slepptu mér sambandi við Facebook og verð því líklega að segja Facebook.

Besti vefur sem þú hefur unnið við? Það er enginn besti vefur fyrir mér en auðvitað verða allir vefir sem fara í gegnum notendaprófun hjá Sjá miklu betri.

Mikilvægasta viðurkenningin sem þú hefur fengið? Að hafa komið að því að festa notendaprófanir í sessi á Íslandi og að eins lítið fyrirtæki eins og Sjá hafi náð að leiða brautina.

Er nauðsynlegt að kenna vefhönnun/vefstjórnun/vefforritun? Tvímælalaust, það vantar nánast alveg þessa vídd inn í nám sem er í boði á Íslandi í dag.

Hvað ertu mest forvitin um þessa dagana? Maður er alltaf að spá í notendahegðun og upplifun og reyna að fylgjast með trendum og þróun hvað það varðar.

Tækin þín: Ég nota venjulega borðtölvu á skrifstofunni en er svo með frábæra og afar netta Fujisu Lifebook fartölvu. Þori varla að segja hvaða síma ég er að nota núna, iPhone 3 sem er alveg afleitur.

Bókamerkin þín: Fylgist alltaf með Nielsen og Gerry McGovern, nú og auðvitað Funksjon.net 🙂 Þar fyrir utan SmashingMagazine, Wired, Webcredibles…

Öppin: Uppáhaldsappið mitt núna er C25K, mæli með því.

Uppáhaldshlutur á skrifstofunni: Áslaug!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.