Þann 23. september 2015 var haldinn hádegisverðarfundur á vegum faghóps um vefstjórnun hjá SKÝ um „Hin mörgu andlit vefstjórans“. Faghópurinn, sem var endurreistur árið 2012, hefur staðið fyrir nokkrum viðburðum á hverju ári sem undantekningalaust hafa verið vel sóttir.

Það er kraftur í samfélagi vefstjóra. Við höfum fengið flott fólk í stjórn faghópsins og við sem þar störfum finnum fyrir meðbyr. Vefstjórastarfið er smátt og smátt að öðlast meiri virðingu innan fyrirtækja en það er engu að síðu langur vegur frá því að starfið sé nægilega vel skilgreint eða að hægt sé að segja að það ríki almenn vitund um starfið meðal almennings eða stjórnenda fyrirtækja.

Að efla virðingu og skilning á starfi vefstjóra hefur verið leiðarljós mitt síðastliðin 4-5 ár. Ég hef sjálfur um 17 ára reynslu af starfinu og fannst eftir þann tíma ég hafa einhverju að miðla. Ég hef bloggað reglulega síðastliðin ár um vefmál með fókus á hlutverk vefstjórans. Ég hef kennt námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, Vefakademíu Hugsmiðjunnar, Iðunni fræðslusetri, Tækniskólanum og Háskóla Íslands. Og ég hef skrifað bók sem er ætluð vefstjórum: Bókin um vefinn. Sjálfshjálparkver fyrir metnaðarfulla vefstjóra.

Það er sagt að dropinn holi steininn. Ég held að það sé rétt í þessu sambandi. Það hefur náðst sæmilegur árangur en það er samt langur vegur frá því að fólk þekki almennt hvað felst í starfi vefstjórans. Og við sem höfum langa reynslu af starfinu erum jafnvel enn pínulítið óviss um hvernig eigi að skilgreina það.

Hin mörgu andlit vefstjórans

Af ofangreindri ástæðu fannst faghópnum ástæða til að efna til fundar um starf vefstjórans og skoða ólíkar skilgreiningar og hliðar á því. Til að hafa einhvern grundvöll fyrir frekari umræðu ákváðum við að efna til netkönnunar á meðal þeirra sem vinna við vefmál um viðhorf þeirra til starfsins m.a. með eftirfarandi spurningum:

  • Hvað gera vefstjórar?
  • Eru þeir ánægðir í starfi?
  • Fá þeir virðingu og fjármagn?
  • Hvað vinna margir í vefmálum?
  • Hvernig sækja þeir sér þekkingu?
  • Hverjir sinna þessu starfi?
  • Eru vefstjórar ungir, gamlir, langskólagengnir, konur eða karlar, starfsmenn í einkageira eða hjá hinu opinbera?

Netkönnunin tókst vel að mínu mati. Við vildum fá að lágmarki 100 svör og þau voru orðin 111 þegar samantekt var unnin. Þettta eru því klárlega marktækar niðurstöður. Við vitum ekki um nákvæman fjölda vefstjóra á Íslandi en þeir hlaupa væntanlega á nokkrum hundruðum. Vel á fjórða hundrað eru í Facebook grúbbunni „Vefstjórnun“ og þar eru reyndar þó nokkrir sem í ströngum skilningi eru ekki í vefstjórahlutverki.

Um netkannanir

Netkannanir er eitt vopnið í vopnabúri vefstjórans til að komast nær notendum. Þær eru fremur einfaldar í framkvæmd en það þarf þó að vanda vel orðalag spurninga. Þær mega ekki vera leiðandi, forðast þarf misskilning, könnunin má ekki vera of löng og við þurfum að leggja á okkur að rýna vel niðurstöðurnar, ekki síst opnu svörin.

Það síðastnefnda er líklega það verðmætasta sem við fáum út úr netkönnunum og um leið tímafrekast að rýna. Af rúmlega 100 þátttakendum lögðu 43 það á sig að skrifa hugleiðingar og ábendingar. Í flestum netkönnunum hefur mér sýnst hlutfall þeirra sem tjá sig í opnum svörum liggja í kringum 20% en þarna erum við með um 40%. Það sýnir áhuga og stuðning vefstjóra við málefnið. Fyrir það erum við þakklát.

Við notuðum Survey Monkey sem líklega flestir í vefbransanum nota. Þetta er þjónusta sem er endurgjaldslaus í sinni einföldustu útgáfu en háð talsverðum takmörkunum, t.d. er hámark 10 spurningar og 100 svör. Ég ákvað að uppfæra áskriftina og borga litlar 4000 krónur fyrir mánaðaráskrift sem gerði mér kleift að vera með ótakmarkaðar spurningar (héldum okkur við 14 spurningar) og allt að 1000 svör. Niðurstöður birtast sjálfkrafa með skýrum hætti og auðvelda mjög úrvinnsluna eins og glærurnar bera með sér. Í Survey Monkey er hægt að gera ýmsa greiningarvinnu, sía út upplýsingar út frá bakgrunnsbreytum t.d. með því að greina hvað ungt fólk sagði um starfið í samanburði við þá sem eldri eru o.s.frv.

Niðurstöður netkönnunar um starf vefstjórans

Á eftirfarandi myndum má sjá helstu niðurstöður úr könnuninni. Þær skýra sig að mestu sjálfar en í lokin dreg ég saman helstu niðurstöður.

Kyn: Konur frekar en karlar

Karlar eða konur í starfi vefstjóra

Aldur: Reynsluboltar í vefstjórn

Aldur vefstjóra

Menntun: Langskólagengið fólk

Menntun vefstjóra
Önnur menntun sem var nefnd: Margmiðlun / Iðnmeistari / Ótal námskeið / Námskeið í kerfisstjórnun / Diplómanám frá EHÍ

Starfsheiti: Vefstjóri eða verkefnastjóri.

Starfsheiti þeirra sem við vinna við vefstjórnun
Aðrir starfstiltar sem voru nefndir: Markaðsstjóri / Vefritstjóri og upplýsingafulltrúi / Deildarstjóri / Kynningar- og markaðsstjóri / Forstöðumaður / Kynningarfulltrúi / Sérfræðingur / Grafíker / Vef- og viðmótssérfræðingur / Director Digital CorpCom / Vef- og verkefnastjóri / Þjónustufulltrúi / Tölvu- og vefumsjón / Markaðs- og upplýsingafulltrúi / Director of Ecommerce

Fjöldi stöðugilda í vefmálum: Ekki eru allir einmana

Fjöldi stöðugilda í vefmálum

Vinnustaður vefstjóra

Vinnustaðir vefstjóra

Annað sem var nefnt: Sjálfeignarstofnun (2) og lífeyrissjóður

Hvaða verkefnum sinna vefstjórar?

Hvaða verkefnum sinna vefstjórar?

Annað sem var nefnt: Upplýsingagjöf til almennings – Almenn markaðsmál – Sjálfsafgreiðsla – Leitarvélabestun – Skjákerfi – App – Rafræn markaðssetning – Starfsmannaskjáir – Vefverslun – Auglýsinga- og markaðsstörf – Ljósmyndun – Offline fréttabréf innanhúss – Auglýsingaskjáir – Prentvinnsla – SMS – Markpóstur

Staðsetning í skipuriti

Staðsetning vefstjóra í skipuriti

Annað sem var nefnt: Fræðslu- og miðlunardeild / Vörustýring / Yfirstjórn / Gæðastjórnun / Stoðdeild / Upplýsingamiðstöð / Þjónustu- og samskiptadeild / Sala / Rekstrar- og þjónustudeild / Upplýsinga- og vefdeild / Nýmiðladeild / Rekstrardeild / Sala og þjónusta

Upplifa vefstjórar stuðning stjórnenda við vefmálin?

Upplifa vefstjórar skilning stjórnenda við vefmálin?

Eru vefmálin með fast fjármagn í fyrirtækinu?

Eru vefmálin með fast fjármagn?

Hvernig hafa vefstjórar styrkt þekkingu sína í faginu sl. tvö ár?

Hvernig hefurðu styrkt þekkingu þína í faginu sl. tvö ár?
Annað sem var nefnt: Námskeið hjá Hugsmiðjunni og tengslanetið.

Eru vefstjórnendur ánægðir í starfi?

Eru vefstjórar ánægðir í starfi?

Viltu nefna eitthvað að lokum?
Í lok netkönnunarinnar voru þátttakendur beðnir um segja sína skoðun á hlutum eins og:

  • Hver er upplifun þín af starfinu?
  • Finnst þér starfsheitið rétt?
  • Finnst þér þú hafa næga þekkingu til að sinna því?

Alls bárust 43 svör frá 111 þátttakendum. Ég hef tekið saman 10 bestu gullkornin að mínu mati. Margt kannast maður vel við úr eigin reynsluheimi.

GULLKORN #1

Stundum er eins og stjórnendur fyrirtækja haldi að þeir geti fengið allt í sama einstaklingnum, forritara, hönnuð, textasnilling, myndasmið, þjónustuborð. Myndi þiggja þessa ofurkrafta alla saman ef það er hægt.

GULLKORN #2

… Tók eftir því í VR blaðinu í morgun að starf vefstjóra er ekki undir flokknum stjórnendur sem ég tel vera áhugavert, en ég vinn sem stjórnandi í mínu fyrirtæki og ber ábyrgð á mínu sviði og málum því tengdu. Viðmið launa hjá VR eru því lægri en þau ættu að vera… menntun skiptir þó mestu máli og mín háskólamenntun sem upplýsingafræðingur og upplýsingaarkitekt hefur verið góður grunnur að uppbyggingu á mínu starfi og þróun þeirra vefsíða sem ég ber ábyrgð á.

GULLKORN #3

Starfið er flókið samspil efnisstjórnunar og tæknistjórnunar (grunnþekking á umhverfi tækninnar, virkni samfélagsmiðla o.þ.h), ef vel á að vera. Einnig þarf vefstjóri að kunna vel þann business sem fyrirtækið starfar í, til að vita hvaða þarfir þarf að leysa fyrir fyrirtækið og geta brúað bilið milli fyrirtækisins/stofnunarinnar og notenda sem þetta allt er jú gert fyrir.

GULLKORN #4

Í rauninni hef ég ekki næga tæknilega þekkingu til að sinna starfinu vel. Vefirnir eiga meira og betra skilið. Það þarf að vera aðili sem er eingöngu að sinna vefmálum svo vel sé að hlutunum staðið. Sá aðili þarf hinsvegar að vera til í að setja á sig ýmis gleraugu. Held að margir átti sig ekki á því hversu fjölbreytt þetta starf er. Vinna við vef verður að vera unnin í samvinnu við aðrar deildir fyrirtækisins og í eins góðri sátt og hægt er. Annars mun vefurinn aldrei ná að endurspegla fyrirtækið. Vefstjóri verður að hafa góða yfirsýn yfir verkefnin, hafa framtíðarsýn og áhuga á þróun, vera góður í samskiptum og hafa auga fyrir framsetningu efnis og hönnun.

GULLKORN #5

Starfið er gríðarlega fjölbreytt og skemmtilegt en um leið krefjandi. Sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn skilja ekki endilega hversu viðamikið og margslungið þetta starf er. Jafnframt er það skemmtileg áskorun að tækla skoðanir starfsmanna (allir eru þeir jú vefstjórar :)) …. Skilningur stjórnenda eykst jafnframt ár frá ári um mikilvægi vefsins og gildi þess hve öflugt tæki vefurinn er í snertingu fyrirtækisins við notendur og því má segja að framtíðin sé björt.

GULLKORN #6

Starf mitt er ekki skilgreint sem vefstjórastarf en engu að síður hef ég það hlutverk, ásamt öðrum hlutverkum er varða vefinn sem væru á hendi fleiri starfsmanna hjá stærri stofnun eða fyrirtæki. Starfstitill minn er verkefnastjóri enda sinni ég fleiru en vef-, kynningar- og auglýsingamálum. Af þessum sökum er áherslan á vefmálin kannski ekki nógu skýr þótt þau séu meginstarfssvið mitt. Hvað þekkingu varðar þá er svarið nei. Ég vildi fá mun fleiri tækifæri til endurmenntunar og starfsþróunar.

GULLKORN #7

Starfið er mjög fjölbreytt og skemmtilegt og tel ég mig hafa góðan bakgrunn til að sinna því. Ég myndi hins vegar vilja vefstjórnendanám á háskólastigi hér á landi. Ég veit ekki hvort það er starfsheitið, eða hvernig við vefstjórar markaðssetjum heitið, en það eru mjög fáir sem átta sig á í hverju starf mitt sem vefstjóri felst. Mjög margir halda að ég sjái um efnisinnsetninguna eingöngu, en átta sig ekki á öllum hinum verkefnunum sem felast í starfinu.

GULLKORN #8

Mér finnst við vefstjórar sem vinnum við fagið og lifum og hrærumst í þessum heimi þurfum að styrkja okkur og starfið og aðgreina okkur frá „vefstjórum“ sem setja inn frétt einu sinni í viku eða sjaldnar og sinna þessu með öðrum störfum og kalla sig “vefstjóra”. Upphefjum starfið 🙂

GULLKORN #9

Þetta starfsheiti á í rauninni ekki við því maður er orðinn ákveðið powerhouse af upplýsingum og þekkingu en er enn „bara vefstjóri“ á markaðsdeild. Mér finnst að þessi málaflokkur megi fá meira vægi innan fyrirtækja. Titillinn vefstjóri á ekki við í þessu starfi þar sem að allir þeir vefstjórar sem ég þekki eru að vinna við miklu meira en bara vefinn sjálfan…

GULLKORN #10

Þúsundþjalasmiður / altmuligmand væri réttara heiti.

Hver er þá hinn dæmigerði vefstjóri?

Getum við dregið þá einhverja ályktun um starfið – er hægt að skilgreina hinn dæmigerða vefstjóra?

Kona á fimmtugsaldri, með háskólapróf, er með starfsheitið vefstjóri í markaðs- og samskiptadeild í einkafyrirtæki þar sem hún fær góðan stuðning við vefmálin en á í vandræðum með að fá eyrnamerkt fjármagn fyrir vefinn.

Mestur tími hennar fer í að stýra vefnum frá degi til dags, móta stefnu fyrir vefinn, annast verkefnastjórn, sinna ritstjórn, vefgreiningum og grípa í myndvinnslu. Hún sinnir eigin endurmenntun með lestri bóka og fróðleiks á netinu auk þess sem hún fer reglulega á hádegisverðarfundi SKÝ.

Og meðalvefstjórinn okkar er ánægð í starfi. Næstum því mjög ánægð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.