Í lok janúar voru bestu íslensku vefirnir verðlaunaðir á hinni stórskemmtilegu SVEF hátíð. Mig langar í stuttum pistli fjalla um vefinn sem hlaut verðlaun fyrir besta hönnun og viðmót – vefur Vátryggingafélags Íslands, vis.is.

Þegar ég sá tilnefningarnar birtar í byrjun janúar var ég gapandi hissa á því að sjá ekki vis.is tilnefndan í flokki stærri fyrirtækjavefja en þessi vefur hafði vakið athygli mína fyrir mjög góða vefhönnun, vönduð efnistök og ekki síst áhugaverða framsetningu á leiðarkerfi. Ég gerðist nú ekkert sérstaklega spádómslegur fyrir hátíðina en þó var ég viss um að vefir VÍS og Nordic Visitor yrðu a.m.k. meðal tilnefndra vefja. Ég skil reyndar ekki af hverju Nordic Visitor hreppti ekki verðlaun fyrir besta fyrirtækjavefinn en það var gott að sjá hann vinna flokkinn Val fólksins.

Leiðarkerfi á vis.is í tölvu
Leiðarkerfi vis.is er nýstárlegt

 

Samtök vefiðnaðarins, SVEF, eru að öðlast nýtt líf eftir að félagið réð framkvæmdastjóra síðasta haust. Til marks um það er fjölgun viðburða og fljótlega eftir SVEF hátíðina efndi félagið til fundar um hvernig ætti að smíða verðlaunavef. Ég sá að vis.is var á dagskrá og lét mig því ekki vanta. Baldur Páll Guðmundsson, vefstjóri VÍS, fór yfir vinnuna við vefinn og ég var í einu orði sagt stórhrifinn. Eftir erindið varð ég enn sannfærðari um að dómnefndin hafi gert vel með því að verðlauna vis.is í þessum flokki.

Frá því að Fúnksjón tók til starfa árið 2013 hef ég lagt áherslu á mikilvægi þarfagreiningar áður en haldið er af stað í vefverkefni. Auðvitað eru mörg dæmi um að vefir hafi fengið fínustu vefverðlaun án ítarlegrar þarfagreiningar en maður er heldur ekki alltaf sammála um ágæti þeirra vefja sem hljóta þau! En ég læt vera að nefna slík dæmi, listinn væri of langur. Sem betur fer virðist eitthvað vera að marka eigin sannfæringu um vandaðan undirbúning því vefir sem Fúnksjón hefur komið að hafa tölfræðina með sér þegar kemur að tilnefndum og verðlaunuðum vefjum síðustu tvö ár. En um það verður fjallað í öðrum pistli.

Þjónustuskrifstofa á netinu

Forsíða vis.is í síma
Forsíðan í síma

Baldur sagði mikilvægt að hafa skýra stefnu og vefurinn styðji við stefnu fyrirtækisins. Þannig er t.d. litið á vis.is sem þjónustuskrifstofu fyrirtækisins á netinu. Í þjónustunni er einfaldleiki stóra markmiðið.

Þau voru fyrir með skalanlegan vef og reyndar líklega þann fyrsta á Íslandi. En hann var orðinn lúinn, ofhlaðinn efni og of flókinn. Á gamla vefnum fengu allir að setja inn efni óháð því hvort eftirspurn væri eftir því. Þau urðu því að gera annan vef.

Fyrirtækið leit m.a. til vefs Tryggingamiðstöðvarinnar sem þeim þótti góður. Mikil áhersla var á efnið og það var smíðuð efnisstefna þar sem m.a. var lögð áhersla á að það yrði að tala mannamál. Tryggingar eru flókið fyrirbæri en almenningur þarf að skilja efnið sem er áskorun.

VÍS vann þarfagreiningu með Capacent og í undirbúningsvinnunni var unnið í rýnihópum um verkefni VÍS, þarfagreining var unnin með stórum hópi starfsmanna, tölfræði var rýnd, gerðar notendaprófanir, persónur (personas) smíðaðar, unnin mikil tiltekt (tættu arfann) í efni, mikið af öðrum vefjum skoðaðir o.fl.

VÍS fann sér samstarfsaðila í Kolibri, sem kom að hugmyndavinnu, hönnun, vefun og forritun. Saman gerðu þau vinnusamning sem var nefndur Undrið. Unnið var í sprettum sem voru nefndir eftir Star Wars karakterum og Baldur mælti með slikri aðferð sem gerði verkefnið enn skemmtilegra.

Einlægni, hlýja og einfaldleiki voru einkunnarorð í vinnunni. Þetta eru ekki aðeins falleg orð heldur forsenda árangurs og þá sérstaklega auðmýkt (einlægni) og einfaldleiki.

Þau vildu hugsa út fyrir boxið, t.d. gagnvart fyrirtækjasviði sem var áður með mikinn texta á vefnum sem nær enginn las. Aðalmálið var að gefa viðskiptavinum skjótan aðgang að ráðgjöfum því sala til fyrirtækja fer ekki fram með sama hætti á netinu og gagnvart einstaklingum.

Smáa letrið á vis.is birt með nýstárlegum hætti
Hugsað út fyrir boxið með smáa letrið

 

Í valmyndinni var farin nýstárleg leið í birtingu á undirsíðum. Haldið er í hefðirnar á vefnum með merki (logo) á sínum stað, valmynd ofarlega þvert yfir og leit í hægra horni auk upplýsinga í fæti um hvernig megi hafa samband sem og tenglar í samfélagsmiðlareikninga. Mega valmynd var ekki birt með sama hætti og “hefðin” segir til um heldur opnast hún hægra megin. Mikil vinna var lögð í heiti flokkanna. Fljótlega var tekin ákvörðun um að síðurnar mættu vera síðar enda á flestra vitorði í dag að notendur eru sáttir við að skíða niður síður. Neðst á hverri síðu átti að vera skýrt áframhald með tengdu efni og aðgerðum (call to action). Unnið var mikið með myndmálið í samstarfi við hönnuð sem styður vel við texta vefsins.

Lærdómur af vis.is

Vinnan með Kolibri fór af stað í nóvember 2014 og vefurinn fór svo í loftið í maí 2015. Fyrir þennan tíma var VÍS búið að vinna sína undirbúningsvinnu. Baldur nefndi að lokum nokkra lærdóma af vinnunni og þeir voru helst þessir:

  • það þarf að vera skýr stefna
  • nauðsynlegt er að hafa stjórnendur með
  • tíminn er fljótur að líða
  • það þarf að gera reglulegar prófanir
  • mælt er með að fá óháða öryggisúttekt og gera álagspróf
  • það þarf að mæla vefinn
  • efnisvinna og leitarvélabestun (SEO) tekur tíma
  • það þarf að muna að fagna hverjum áfanga
  • það voru allir boðnir og búnir að hjálpa innan fyrirtækisins

Orð að sönnu. Mér finnst full ástæða til að óska VÍS til hamingju. Þau hafa svo sannarlega uppskorið eins og sáð var til.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.