Ég er mættur á hina þekktu vefráðstefnu An Event Apart í Boston og ætla að gera grein fyrir nokkrum erindum sem vöktu mesta athygli hjá mér. Upphafserindið var frá Jeffrey Zeldman sem er þekktastur fyrir skrif sín um vefstaðla og bókina Designing With Web Standards.

Jeffrey_Zeldman_onstage_at_An_Event_ApartZeldman leitaðist við að svara þvi hvað framtíðin ber í skauti sér með hönnunarstaðla á vefnum en hann er einn af helstu leiðtogum í vefiðnaðinum sl. 20 ár og einn af upphafsmönnum þessa viðburðar An Event Apart, vefritsins List Apart og bókaútgáfunnar A Book Apart. Zeldman nýtur mikillar virðingar fyrir sitt framlag og augljóslega stjarna á sviðinu.

Það er mikið rætt um hve miklar áskoranir sérfræðingar í vefmálum þurfa að glíma við í dag. Skalanleg hönnun (responsive web design) og snjalltækjavæðingin (mobile) hefur breytt miklu. Vefir þurfa að virka alls staðar. En er þetta ný staða? Nei, segir Zeldman. Vefhönnun hefur stöðugt þurft að glíma við sambærilegar áskoranir t.d. varðandi mismunandi skjái, vafra og tæki (hver man ekki eftir Palm Pilot?)

Það er ekkert nýtt undir sólinni. En núna er það hraðinn sem hefur svo mikil áhrif á vefhönnun, við getum leyft okkur meira en áður. Það er rétt en það er heldur ekkert nýtt. Við erum kannski ekki að glíma við 33kb hraða á mótöldum (sjá myndband) en við erum að glíma við margs konar takmarkanir í hraða á vefjum.

Netsamband er slæmt víða í heiminum og nettengingar eru víða hægar eins og við þekkjum örugglega öll. Það þarf stundum að hafa mikið fyrir því að tengjast og fá hraða tengingu í dag. Þess vegna getum við ekki leyft okkur að gera vefina sífellt þyngri.

Hvað sem öllum breytingum líður á hönnun og forritun vefja þá gildir áfram að vefstaðlar eru gulls ígildi og HTML er áfram langöflugasta aðferðin við að kóða vefi, hvað sem öllu javascript líður. Vefurinn er fyrir alla, eins og upphafsmaður veraldarvefsins, Tim Berners Lee, lagði svo mikla áherslu á. Vefur sem hann smíðaði fyrir 26 árum er enn hægt að skoða án takmarkana. Vefir sem byggja mikið á javascript valda mörgum notendum vandræðum og hindra aðgengi t.d. blindra að vefsíðum.

Bootstrap var til umræðu og var undir talsverðri gagnrýni hjá Zeldman. Þetta er frábært “prototype” tól en allt of margir halda að þeir geti skilað tilbúnum vef með Bootstrap einu saman. Verkfærið gerir okkur kleift að komast hratt af stað en þetta er eins og með Dreamweaver í gamla daga, takmarkað. Við verðum að reiða okkur á vefstaðla, sérsníða vefi að þörfum notenda og prófa þá ítarlega. Bootstrap styttir okkur leið en gerir okkur kærulaus. Fyrir utan einsleitnina sem Bootstrap hefur leitt af sér.

Það er því ekkert nýtt undir sólinni. Við erum enn að fást við mismunandi vafra í dag, tækjaframleiðendur, mismunandi stærðir, bandvíddir og netkerfi. Þess vegna þarf að sérhanna vefi og kóða. Það er auðvitað fínt að nýta kóða og hönnunareiningar til að koma okkur hratt af stað en þetta er ekki allsherjarlausn.

Í bók sinni “Designing with Web Standards” fullyrti Zeldman að 99,9% af vefjum verða úreltir (obsolete). Í dag myndi hann segja að 99,9% vefja væru til vandræða (problematic).

Við verjum (vonandi) miklum tíma í notendaupplifun (UX), notendaprófanir, notendarannsóknir, hönnun og kóðun og vonum að vefirnir virki alls staðar. Það er hins vegar ekki hægt að gera eitthvað sérstakt fyrir hvern vafra og hvert tæki. Það gengur ekki upp. Við þurfum því áfram vefstaðla og eigum að fylgja þeim.

Mikið er fjallað um hraða á hverri einustu vefráðstefnu sem er haldin í dag. Hraði er talinn vera úrslitaatriði fyrir vefina okkar. Kóði er hins vegar gjarnan svo illa skrifaður að það kemur niður á hraðanum sem er svo mikilvægur.

“Write once, publish anywhere” eru einkunnarorð Tim Berners Lee. Þetta er einnig leiðarljós Zeldmans allt frá því að hann skrifaði upphaflegu bókina um vefstaðla árið 1998. Bókin er enn í gildi að langmestu leyti og er til í 3. útgáfu, nema hvað að við erum með html5 í stað xhtml / html.

Þeir sem fylgja ekki vefstöðlum sögðu einu sinni að þeir fylgdu Flash stöðlum og í dag segja menn að þeir fylgi Bootstrap stöðlum. Ekki kann ég að deila við Zeldman um takmarkanir Bootstrap en tek orð hans góð og gild.

Í lokin skildi Zeldman okkur eftir með nokkrar umferðarreglur. Ég leyfi mér að birta þær á ensku:

  • Mobile is today’s first screen. So design responsively, focusing on content and structure first
  • Remove distractions. Let people interact as directly as possible with content
  • 90 percent of design is typography. And the other 90 percent is whitespace (!)
  • Design your system to serve your content, not the other way around
  • Style is the servant of brand and content. Style without purpose is noise
  • Remove each detail from your design until it … breaks
  • Nobody waits. Speed is to today’s design what ornament was to yesterday’s
  • Don’t design to prove you’re clever. Design to make the user think she is

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.