Á síðustu fimm árum hafa orðið mjög jákvæðar breytingar í stafvæðingu þjónustu hins opinbera með tilkomu Stafræns Íslands árið 2018. Ísland er komið í hóp fremstu þjóða og árangurinn vakið eftirtekt. Það er hins vegar langur vegur frá því að verkefninu sé lokið og margt sem miðar mjög hægt. Í þessari grein ætla ég að reifa tækifærin framundan og þau mistök sem ég tel að hafi verið gerð í uppbyggingu stafrænnar þjónustu hins opinbera.

Árið er 2014 – hvað getum við lært af Bretum?

Fyrir um 10 árum síðan skrifaði ég blogg á vefinn minn og hélt fyrirlestur á UT-messunni um það sem Ísland gæti lært af breska ríkinu í stafrænni þjónustu hins opinbera. 

Þessa þróun setti ég í samhengi við íslenska ríkið og vægast var samanburðurinn ekki hagstæður Íslandi. Nánast engin samvinna átti sér stað á þeim tíma milli ríkisstofnana í vefmálum. Fjöldi stofnana var ótrúlegur miðað við höfðatölu og þar af leiðandi lítil sérhæfing eða stafræn þekking til staðar hjá þorra opinberra stofnana.

Mér var talsvert niðri fyrir. Mér blöskraði sóunin, óskilvirknin og bág staða vefmála hjá hinu opinbera. Um leið var ég hneykslaður á þeim skorti á mannskap og fjármagni sem var veitt í stafræn verkefni. Í þá daga voru hátt í 200 opinberar stofnanir á þessu litla landi og nánast engin þeirra að ganga í takt. Sama átti við um sveitarfélög þó ég hafi ekki tekið þau með í þessa umfjöllun. Þeir einu sem græddu á ástandinu voru sölumenn og eigendur misgóðs hugbúnaðar og þjónustu sem lögðu að mestu upp verkefnin út frá sínum þörfum frekar en þörfum íbúa.

Í niðurlagi greinarinnar lagði ég til að það yrðu gerðar róttækar breytingar.

Það er kominn tími á róttækar hugmyndir …

Við eigum að nýta reynsluna hjá gov.uk og endurnýta vinnu sem þar hefur verið unnin…

Nýtum fé skattborgara betur. Sameinum vefmál og rafræna þjónustu ríkisins á einn stað og færum efst í pýramídann. Undir sjálft forsætisráðuneytið. 

Um fjórum árum síðar var sett á laggirnar Verkefnastofa um stafrænt Ísland eða í ársbyrjun 2018 sem seinna varð Stafrænt Ísland. Allir sem hafa fylgst með þróuninni á síðustu 5-6 árum hafa tekið eftir miklum breytingum. Þetta teymi, sem er undir fjármálaráðuneytinu (ekki forsætisráðuneytinu eins og ég lagði til), hefur gert frábæra hluti. Með lítilli yfirbyggingu en nánu samstarfi við hóp fyrirtækja á markaði hafa verið þróaðar stórar sem smáar lausnir sem snerta svo til alla íbúa landsins. 

Við getum verið þakklát í dag fyrir að geta sótt stafrænt ökuskírteini, sótt um fæðingarorlof, þinglýst kaupsamningum, fundið yfir 20 stofnanir á Ísland.is, fundið meiri not fyrir Mínar síður á Ísland.is og fjölda annarra góðra verkefna sem hafa verið unnin sl. ár. Teymið hefur fengið verðskuldaðar viðurkenningar innanlands og erlendis og Ísland hefur klifið hratt upp lista yfir ríki sem standa framarlega í stafrænni þróun og það er magnað.

Árið er 2024 – hver er staðan á Íslandi?

Þrátt fyrir þessa óumdeildu velgengni er staðan þessi í dag:

  • 25 stofnanir hafa fært vefi sína yfir á Ísland.is sem þýðir að enn eru vel á annað hundrað íslenskar stofnanir að sinna eigin vefþróun og stafrænum verkefnum án aðkomu Stafræns Íslands. Gott og vel það stefnir í rétta átt en hvers vegna gengur þetta ekki hraðar?
  • Samkvæmt útttekt Ríkisendurskoðunar árið 2022 voru opinberar stofnanir yfir 150. Þeim hefur því fækkað eitthvað en Ríkisendurskoðun bendir á að það hafi gengið hægt í sameiningu stofnana, þær séu litlar og vanmáttugar og stofnunin bendir á að ástæða sé til að líta til aukinna tækifæra við aukna stafræna þróun í samskiptum við viðskiptavini stofnana.
  • 17 stofnanir hafa tengst Mínum síðum og 43 stofnanir nota innskráningarþjónustu Ísland.is. Gott og vel það stefnir í rétta átt en hvers vegna gengur þetta ekki hraðar?

Af hverju tók breska ríkið aðeins örfá misseri að koma nær öllum sínum opinberu vefjum undir eina regnhlíf á gov.uk? Hugmyndafræði ætti ekki að vera hindrun, Íhaldsflokkurinn í Bretlandi var við völd þegar þessi ákvörðun var tekin um aukna miðstýringu í stafrænni þróun og síðari ríkisstjórnir hafa heldur ekki fallið frá þessari ákvörðun. Bretar byggðu upp miðlæga stofnun Government Digital Services sem var með nægan mannskap og stuðning til að keyra þetta verkefni áfram. Útreikningar sýndu að hagræðið fyrir ríkið var verulegt. 

Stjórnvöld á Íslandi gætu hagrætt mikið í rekstri ríkisins með því að sameina stofnanir, styrkja miðlæga þjónustu enn frekar hjá Stafrænu Íslandi og hraða stafvæðingu þjónustunnar. Ef Bretar gátu þetta fyrir 10 árum þá getum við gert þetta árið 2024. 

Lykillinn að árangri er að gefa Stafrænu Íslandi enn skýrara umboð og framkvæmdavaldið gefi það skýrt út að Ísland.is sé opinber þjónustugátt ríkisins og það sé ekki val fyrir stofnanir að fara þangað inn heldur skylda. 

Opin gögn og X-Road

Mikilvægur þáttur í stafvæðingunni er deiling gagna og gera þau sem aðgengilegust. Þetta er lykilþáttur í að auka samvinnu milli stofnana, veita einkaaðilum aðgang að gögnum til að þróa þjónustu og hagnýta opinber gögn. Þarna hefur alltof lítið gerst síðustu ár. 

Umm hlutverk opinna gagna segir á opingogn.is:

Allir opinberir aðilar eru hvattir til þess að birta gögnin sín á vefnum sem opin gögn á þessu vefsvæði opingogn.is.

Með opnum gögnum er ekki aðeins átt við að almenningi sé veittur aðgangur að gögnunum heldur að hver sem er geti notað, umbreytt og deilt gögnunum með hvaða hætti sem er. Það snýst um að hámarka aðgang og endurnýtingu á opinberum gögnum.

Aðgangur að opinberum gögnum og hvatning til endurnýtingar á þeim getur meðal annars fjölgað nýsköpunarmöguleikum, styrkt atvinnulífið, ýtt undir rannsóknir og aukið traust og gagnsæi í stjórnsýslunni.

Staðan varðandi opin gögn er þannig í dag:

  • 118 gagnapakka er að finna á vefnum opingogn.is í mars 2024 en fjöldinn var 109 fyrir fimm árum og því sáralítið gerst þar síðustu ár en Reykjavíkurborg á helminginn af þessum gagnapökkum eða 61. Vel gert Reykjavíkurborg.

Árið 2014 var haldinn fundur á vegum SVEF um opin gögn og þar kom fram í máli Guðbjargar Sigurðardóttur, þáverandi skrifstofustjóra upplýsingasamfélagsins hjá innanríkisráðuneytinu, að stefnt sé að því að opnað verði fyrir aðgang að 80% af mikilvægustu gagnagrunnum ríkis og sveitarfélaga fyrir árslok 2016. Átta árum síðar efast ég um að 8% af mikilvægustu gagnagrunnunum séu komnir þangað. Af hverju í ósköpunum gengur þetta svona hægt?

Straumurinn eða X-Road hefur ekki heldur staðið undir væntingum. X-Road er skilgreint sem gagnabraut ríkisins þar sem örugg samskipti eiga að geta farið í gegnum. Ég hef ekki tölu á þeim kynningum sem ég hef fengið á X-Road undanfarin ár þar sem kynt er undir væntingum um þýðingu þessarar þjónustu enda hefur hún spilað lykilhlutverk í stafrænni þjónustu Eistlands, Færeyja og fleiri ríkja sem hafa hagnýtt hana í miklu meiri mæli en við.

Hlutverk Straumsins er skilgreint þannig:

Straumurinn (X-Road) er gagnaflutningslag sem er ætlað að auðvelda samskipti milli upplýsingakerfa á öruggan hátt sem gerir stofnunum kleift að veita stafræna þjónustu.

Straumurinn er undirstaða miðlægrar þjónustugáttar fyrir borgara landsins. Lögð er áhersla á að sinna öllum borgurum jafn vel. Straumurinn er undirstaða þess að borgarar landsins geti sótt alla þjónustu hins opinbera á einum stað í miðlægri þjónustugátt.

Allar opinberar stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki í landinu geta nýtt sér Strauminn til að flytja gögn sín á milli með það að markmiði að bæta þjónustu við almenning í landinu.

Þarna eru stór orð notuð, Straumurinn er ekkert minna en undirstaða miðlægrar þjónustugáttar fyrir borgara landsins. Það liggur ofboðslega mikið undir. Af hverju í ósköpunum er þá staðan sú að það er enn sex árum eftir að verkefninu var hleypt af stokkunum svona lítið komið inn á Strauminn? 

Ég get heilshugar tekið undir stóru orðin um mikilvægið fyrir þjónustugátt borgaranna. Sveitarfélög og stofnanir hafa beðið eftir mikilvægum gögnum á borð við gögn frá Skattinum, Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun o.fl. til að kallað eftir gögnum rafrænt, aukið skilvirkni, sjálfsafgreiðslu, aukið öryggi og bætt þjónustu við borgara landsins. Af hverju í ósköpunum hefur svona lítið gerst?

Milljón dollara svarið við spurningunni: Af hverju í ósköpunum?

Svarið liggur vitaskuld í fyrirsögn þessarar greinar. Og líklega allir búnir að átta sig á því. Smákóngarnir segja einfaldlega NEI! 

Af hverju? Af því bara, af því að ég þarf þess ekki. Kannski er ég hvattur til þess eða get nýtt mér þjónustuna. En ég bara kýs að gera það ekki segir Smákóngurinn. 

Fjármálaráðherrar síðustu ára virðast ekkert geta haft áhrif á Smákónginn. Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum. 

Á Íslandi þrífst Smákóngurinn vel og aldrei jafn vel líklega. Örfáir smákóngar hafa misst spón úr aski sínum undanfarin ár með sameiningu stofnana. En Kóngurinn sjálfur, Íslenska ríkið, er afskaplega meðvirkur og vill ekki snerta á Bjarti í Sumarhúsum. Við ráðum okkur sjálf. Þetta er vandinn í hnotskurn. 

Í Bretlandi (68 milljón íbúar) getur æðsti maður framkvæmdavaldsins sagt öðrum fyrir verkum eins og vera ber. Forsætisráðherra Bretlands gefur út skipun um að þar hafi verið mótuð vel ígrunduð og rökstudd stefna í stafrænni þjónustu ríkisins og eitt skal yfir alla ganga. Vandað er til verka, verkefnið þaulskipulagt og allir ganga í takt. Því er ekki haldið hér fram að það sé betri stafræn þjónusta hins opinbera í Bretlandi, alls ekki, en ríkið kann þá list að ganga í takt og limirnir dansa eftir höfðinu. 

Örríkið Færeyjar (54 þúsund íbúar) hefur farið svipaða leið. Þar ganga opinberar aðilar, sveitarfélög meðtalin, í takt og árangurinn sem þau hafa náð með sínum Heldin eða X-Road er allt annar og betri en á Íslandi. 

Í stafrænni stefnu sem var mótuð hjá Færeyingum þá er ábyrgð sett á einstaka stofnanir að gera þjónustu sína aðengilega miðlægt og útvega gögn í miðlægan grunn. Þetta er með öðrum orðum ekki val.

This also means that a national citizen service portal is developed and driven centrally. The individual authorities are responsible for making their data and services accessible on the national citizen service portal, as well as making sure that their technology and IT systems are updated and compatible with the infrastructure, guidelines and standards set forth by the Digital Strategy.

Ég get fullyrt að smákóngarnir hjá Skattinum, Tryggingastofnun og fleiri lykilstofnunum hins opinbera gengur örugglega ekkert illt til með því að opna ekki aðgang að sínum gögnum. Þeir vilja bara gera hlutina eins og þeir hafa alltaf gert og það er enginn sem skipar þeim að gera þá öðruvísi. Þess vegna mega tugir stofnana og sveitarfélaga fara í biðröð og naga þröskuldinn með þá veiku von í brjósti að fá aðgang að gögnunum sem þeir sitja að. Vonin um að geta bætt þjónustu við íbúa veltur á geðþótta smákóngsins sem vegur og metur hvort eigi að hleypa fleirum inn fyrir dyrnar. 

Svona er Ísland í dag.

Á næstunni ætla ég að halda áfram að fjalla um stöðu mála í stafrænni þróun hins opinbera og sveitarfélaga. Skoðanir sem ég set fram hér eru mínar og aðeins gerðar í nafni sjálfstæðs ráðgjafa.