Í fyrra gerði ég úttekt á frammistöðu flokkanna sem buðu fram í alþingiskosningum. Frá síðasta ári hefur orðið nokkur sveifla í báðar áttir. Einn flokkur er ósýnilegur á vefnum, nokkrir standa í stað en þrír flokkar hafa tekið sín vefmál í gegn.

Niðurstaða mín 2013 var að enginn þeirra stæði sig sérstaklega vel en það var helst að Björt framtíð og Framsóknarflokkurinn sýndu smá metnað í vefmálum. Af flokkunum sem náðu inn á þing 2013 fékk Samfylkingin falleinkunn, Vinstri grænir, Píratar og Sjálfstæðisflokkur voru nokkru skárri án þess að sýna mikinn metnað.

Til að einfalda úttektina tók ég aðeins eitt sveitarfélag fyrir eða Reykjavík. Það væri ekki vinnandi vegur að skoða öll sveitarfélög og almennir vefir flokkanna gefa engan veginn rétta mynd af stöðu mála í sveitarfélaginu.

Frá síðasta ári hefur orðið talsverð breyting. Einn flokkur er nánast ósýnilegur á vefnum, nokkrir standa í stað en þrír flokkar hafa tekið sín vefmál í gegn og fá prik fyrir það, þ.e. Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir. Þeir síðasttöldu reyndar rétt korteri fyrir kosningar en nýr vefur leit dagsins ljós á allra síðustu dögum.

Skiptir vefurinn máli?

Einhver kann að spyrja: Skiptir vefurinn einhverju máli fyrir árangur í kosningum? Er ekki nóg að gefa út bæklinga, trufla fólk á vinnustöðum, kaupa heilsíðuauglýsingar, halda úti síðu á Facebook og treysta svo á frammistöðu frambjóðenda í sjónvarpi daginn fyrir kosningar?

Ef við tökum eitthvað mark á hegðun neytenda síðastliðin ár þá taka þeir ákvarðanir á vefnum áður en þeir velja vöru, hvort sem gengið er frá kaupum eða ekki. Þar er upplýsinga aflað og ákvörðun tekin.

Í nýlegu viðtali við Ólaf Þ. Harðarson, prófessor og helsta sérfræðing Íslendinga í kosningarannsóknum, kom fram að um fjórðungur kjósenda tekur ákvörðun á kjördag. Þetta kom líka fram í könnun Gallup vegna kosninganna árið 2009. Það eru örugglega margir í þessum hópi sem heimsækja vefina á kjördag til að gera upp hug sinn.

Ég fæ ekki séð að önnur hegðun sé ríkjandi hjá neytendum í kosningum án þess þó að ég hafi rannsóknir til að styðjast við. Flokkarnir eru varan. Á netinu leita kjósendur upplýsinga og taka í kjölfarið ákvörðun, oftast upplýsta ákvörðun þó án nokkurs vafa eru margir sem taka ákvörðun út frá hefð, þrýstingi eða skyndiákvörðun í kjörklefanum.

Hvaða kröfur þarf vefurinn að uppfylla?

Líkt og fyrir ári síðan skoða ég hvernig vefir flokkanna sinna lykilverkefnum sem flokkar verða að hafa í forgangi út frá markmiðum þeirra og markhópum sem og almennum prinsippum í vefhönnun.

Meðal þátta sem ég skoða eru samfélagsmiðlar en þeir eru mikilvægir í baráttunni, bæði til að eiga samtal við kjósendur og eins til að styðja við vefinn. Eru þeir sýnilegir þar? Vaxandi hluti kjósenda í Reykjavík skilur ekki íslensku, hafa flokkarnir skilning á því? Kjósendur snjalltækjavæðast sem aldrei fyrr en gera má ráð fyrir að umferð á flesta vefi sé komin í 20% eða yfir með þeim tækjum. Mæta vefir flokkanna þessum kröfum? Eru þeir með snjalla vefi?

Eftirfarandi skilgreindi ég sem lykilverkefni:

  • Er listabókstafur framboðsins sýnilegur?
  • Er augljóst hvernig hægt sé að styrkja flokkinn? Þurfa þeir ekki allir stuðning?
  • Er strax hægt að sjá hvernig má hafa samband (a.m.k. netfang)?
  • Er kynning á frambjóðendum og myndir birtar með?
  • Sjást helstu stefnumál á forsíðu?
  • Skalast vefurinn fyrir snjalltæki?
  • Er framboðið á samfélagsmiðlum og má sjá það á vefnum?
  • Eru upplýsingar á fleiri tungumálum?
  • Er leit á vefnum?

Skjáskot voru tekin af vefjum flokkanna 25. maí en vefirnir rýndir af og til síðustu tvær vikur bæði í tölvu og snjallsíma.

Megin tilgangur minn er að vekja athygli á stöðu vefmála. Taka stjórnmálamenn vefinn alvarlega sem miðil? Á ég að treysta flokki, sem sýnir honum vanvirðingu, fyrir atkvæði mínu? Er líklegt að sá flokkur gangi í takt við samfélagið?

Ég efast um að meirihluti kjósenda muni á endanum láta frammistöðu á vefnum ráða atkvæði sínu í kjörklefanum en ég er þó sannfærður um að hún skipti máli. Ef þessi umfjöllun vekur einhverja til umhugsunar og breytts hugsunarháttar gagnvart vefmálum og rafrænni þjónustu þá er ég kátur.

Hvernig standa flokkarnir sig?

Ég er ekki sérstaklega hrifinn af sérvefjum og mæli almennt með því að fyrirtæki og stofnanir smíði aðeins einn vef fyrir starfsemi sína. Fyrir átaksverkefni á borð við kosningar sem líkja má við markaðsátak sem stendur yfir í nokkrar vikur þá er vel réttlætanlegt að skapa sér vígstöðu með sér vef. Sérstaklega á það við sveitarstjórnarkosningar þar sem flokkar þurfa að nálgast markhópinn með ólíkum hætti eftir því hvort framboðið er á Djúpavogi eða í Reykjavík.

Fyrir stjórnmálaflokk er nauðsynlegt að halda úti góðum vef allt árið um kring til að kynna stefnumál, frambjóðendur, flokksstarfið og miðla upplýsingum til almennings og fjölmiðla. Fyrir stakar kosningar er fjárfesting í sér vef þar sem öll áhersla er á eitt markmið að koma skilaboðum skýrt á framfæri og ná að “toppa” á einni tiltekinni dagsetningu, vel réttlætanleg.

Þessa leið hafa tveir flokkar valið fyrir sveitarstjórnarkosningar í Reykjavík 2014: Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Þessir flokkar sýna mikinn metnað í að koma skilaboðum á framfæri á vandaðan og áhugaverðan hátt og ekki annað hægt en að hrósa þeim fyrir það.

Samfylkingin sem bauð upp á bæklingavef árið 2013 er komin í nútímann; er með snjallan vef, aðgengilegar upplýsingar um frambjóðendur, stefnumál og skemmtilega virkni sem veitir gott aðgengi að umræðunni í kjölfar kosninga. Auk þess er vefurinn með skilaboð á mörgum tungumálum, reyndar ótrúlega mörgum! Á vefnum vantar tengingu við aðra samfélagsmiðla en Facebook.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nýja ásýnd á vefnum, með fagmannlega unninn vef, nýtir myndbönd á skemmtilegan hátt og gagnvirkni með kortum og skemmtilegri framsetningu. Þetta er vefur sem veitir góða upplifun í öllum tækjum og er með helstu upplýsingar á ensku.

Í drögum að þessari grein var ég búinn að afskrifa Vinstri hreyfinguna grænt framboð og fannst hún stöðnuð með óáhugaverða framsetningu á sínum vef en viti menn… þar sem ég ákvað að draga lokaútgáfu fram á þennan dag þá var nýr vefur kominn í loftið sem er umtalsvert betri en sá fyrri, snjall og mun aðgengilegri þó enn sé treyst á pdf skjöl til að koma stefnunni á framfæri. Engar uppýsingar eru á öðrum tungumálum. En gott framfaraskref.

Aðrir flokkar valda vonbrigðum. Framsóknarflokkurnn og flugvallarvinir telja nægilegt að koma skilaboðum sínum á framfæri í gegnum Facebook. Engar upplýsingar er að finna á vef flokksins um áherslur, stefnumál, frambjóðendur eða annað í Reykjavík. Facebook getur vel þjónað sem stuðningur við vef en að stóla á samfélagsmiðilinn til að koma öllum skilaboðum á framfæri er í besta falli vond ákvörðun.

Björt framtíð er hress og björt á vefnum en lítið meira en það. Síðan um Reykjavík er fremur óspennandi en þar er þó að finna helstu upplýsingar um stefnumál og frambjóðendur. Yfirlýsing framboðsins er birt á pólsku og ensku en ekki annað. Vefurinn er snjalll þ.e. skalast fyrir tæki en upplifunin gerir ekki mikið fyrir notendur. Framboðið nýtir styrk dagbókar Jóns Gnarrs á samfélagsmiðlum sér til framdráttar og hefur algjöra yfirburði hvað fjölda fylgjenda varðar með þeirri nálgun.

Alþýðufylkingin er líkt og í fyrra með sitt bráðabirgðavefsetur og fátt um þann vef að segja. Kannski verður fullburða vefur kominn í næstu kosningum.

Dögun er með þokkalegan vef en mætir ekki kröfum eigenda snjalltækja. Framboðið velur að koma sínum upplýsingum fram í appi en mér er til efs að margir velji þá leið til að kynnast framboðinu. Auk þess er appið vel falið á vefnum en umfjöllun má finna í frétt neðarlega á vefnum þar sem kemur fram að Dögun sé fyrsti (og síðasti?) stjórnmálaflokkurinn til að nýta þá leið. App getur verið frábær leið til að nálgast notendur með ýmsa þjónustu en til að kynna framboð og fólk þá gerir það ekkert sem snjall vefur getur ekki komið til skila.

Píratar*  halda áfram að valda vonbrigðum frá síðasta ári. Flokkur sem er með internetið á oddinum í sinni baráttu gæti gert svo miklu miklu betur á sínum vef. Og peningaleysi er ekki afsökun því þeir ættu að hafa mikinn mannauð til að setja upp mjög frambærilegan vef sem er hægt að skoða í öllum tækjum. Og hver er bókstafurinn ef ég vil kjósa framboðið? Það má ekki klikka á svona grundvallaratriðum.

* >Uppfært 27.05.14:  Búið er að uppfæra vefinn nokkuð frá því að greinin birtist upphaflega. Listabókstafur er nú mjög sýnilegur og stutt er í að Píratar endurnýi sinn vef skv. upplýsingum sem ég fékk 26.05 kl. 17. Býst við að endurrýna vefinn í kjölfarið.

 

Yfirlit um flokkana og vefmálin

Helstu niðurstöður gagnvart lykilverkefnum má finna hér fyrir neðan, tenglar eru á vefi flokkanna í heiti þeirra:

AlþýðufylkinginAlþýðufylkingin

Listabókstafur sýnilegur? Nei
Snjalltækjavænn? Nei en vefurinn er með “mobile” útgáfu
Facebook? Já
Twitter? Nei
Instagram? Nei
Leit? Já
Auðvelt að styrkja flokk? Nei
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Nei
Helstu stefnumál á forsíðu? Nei
Önnur tungumál? Nei


Björt framtíðBjört framtíð

Listabókstafur sýnilegur? Já
Snjalltækjavænn? Já
Facebook? Já, dagbók borgarstjóra
Twitter? Já
Instagram? Já
Leit? Nei
Auðvelt að styrkja flokk? Já
Hafðu samband upplýsingar? Nei
Frambjóðendur og myndir? Já
Helstu stefnumál á forsíðu? Já
Önnur tungumál? Já en aðeins viljayfirlýsing á ensku og pólsku


DögunDögun

Listabókstafur sýnilegur? Já
Snjalltækjavænn? Nei en með app
Facebook? Já
Twitter? Já
Instagram? Nei
Leit? Nei
Auðvelt að styrkja flokk? Nei
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Já
Helstu stefnumál á forsíðu? Já
Önnur tungumál? Nei


FramsóknarflokkurinnFramsóknarflokkurinn

Listabókstafur sýnilegur? Já
Snjalltækjavænn? Nei
Facebook? Já
Twitter? Nei
Instagram? Nei
Leit? Nei
Auðvelt að styrkja flokk? Nei
Hafðu samband upplýsingar? Nei
Frambjóðendur og myndir? Nei
Helstu stefnumál á forsíðu? Nei
Önnur tungumál? Nei


PíratarPíratar

Listabókstafur sýnilegur? Nei
Snjalltækjavænn? Nei
Facebook? Já
Twitter? Já
Instagram? Já
Leit? Nei
Auðvelt að styrkja flokk? Já
Hafðu samband upplýsingar? Nei
Frambjóðendur og myndir? Já
Helstu stefnumál á forsíðu? Já, tengill á undirsíðu
Önnur tungumál? Nei


SamfylkinginSamfylkingin

Listabókstafur sýnilegur? Já
Snjalltækjavænn? Já
Facebook? Já
Twitter? Nei (ekki sýnilegt á vef)
Instagram? Nei
Leit? Já
Auðvelt að styrkja flokk? Nei
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Já
Helstu stefnumál á forsíðu? Já
Önnur tungumál? Já fjölmörg


SjálfstæðisflokkurinnSjálfstæðisflokkurinn

Listabókstafur sýnilegur? Já
Snjalltækjavænn? Já
Facebook? Já
Twitter? Já
Instagram? Já
Leit? Nei
Auðvelt að styrkja flokk? Nei
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Já
Helstu stefnumál á forsíðu? Já
Önnur tungumál? Já enska


Vinstri hreyfingin grænt framboðVinstri hreyfingin grænt framboð

Listabókstafur sýnilegur? Já
Snjalltækjavænn? Já
Facebook? Já
Twitter? Já
Instagram? Já
Leit? Já
Auðvelt að styrkja flokk? Já
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Já
Helstu stefnumál á forsíðu? Já, tengill í pdf skjal
Önnur tungumál? Nei


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.