Hvað er það sem fær fólk til að smella og drífur fólk áfram á vefnum? Til að komast að því verðum við að þekkja notendur og hafa nokkurn skilning á sálfræði og mannlegri hegðun. Leiðir til að hafa áhrif á hegðun notenda á vefnum eru m.a. að gera hlutina meira tælandi, aðlaðandi, skemmtilegri og búa jafnvel til leiki í kringum verkefni á vefnum.

Hönnunin á að leiða okkur áfram

Usability vs Motivation
Hvatning tekur við af nytsemi

Stephen Anderson gaf út bók á síðasta ári sem hann nefnir Tælandi viðmótshönnun (Seductive Interaction Design). Góð lesning fyrir vefhönnuði og aðra áhugasama um þróun á vef. Fagurfræði skiptir máli, við þurfum að hafa hönnun aðlaðandi þannig að hún leiði okkur áfram eða með öðrum orðum sé tælandi.

Það hefur verið skrifað mikið um nytsemi (e. usability) á vefnum sem snýst um að fjarlægja hindranir í að nota vef. Það sem Stephen skrifar um í sinni bók er hins vegar hvernig auka megi hvatningu fólks til að nota hluti þegar nytseminni sleppir og öðlast frábæra upplifun (sjá skýringarmynd). Ég hef áður fjallað um sex stig upplifunar í módeli Stephens í notendamiðaðri hönnun.

Góð vefhönnun skapar traust

Það er þekkt í fræðunum að notendur móta álit sitt á vef á örstuttum tíma. Við dæmum líka gjarnan bækur út frá bókakápunni. Ef það sem mætir manni í fyrstu heimsókn er ekki aðlaðandi má vera að við komum ekki aftur. Góð hönnun skapar traust. Ef við komum inn á óaðlaðandi vef þar sem smáatriðum hefur verið lítill gaumur gefinn þá er líklegt að við drögum þá ályktun að það sama gildi um áreiðanleika efnisins. Aðlaðandi hlutir virka því betur segir Stephen og styður það með rannsóknum og t.d. skrifum Donald Normans (Design of Everyday Things).

Þegar við komum inn á aðlaðandi vef þá verðum við afslappaðri, heili okkar er móttækilegri og líklegri til að finna leiðir fram hjá erfiðum verkefnum. Við eigum því auðveldara með að fyrirgefa einhverju sem er vel hannað jafnvel þó að okkur gangi ekki sem skyldi að leysa verkefnið. Fagurfræði bætir því upp dapra nytsemi á vef og hefur áhrif á þann tíma sem við þurfum til að leysa verkefni og fækkar villum. Fegurð er því svo miklu meira en skraut. Það sannar heilinn í okkur.

Ekki til algild fegurð

Bland.is vefurinn
Bland.is vefurinn

Fagurfræði þarf ekki alltaf að snúast um fegurð sem slíka. Hún snýst um hvernig við skynjum og túlkum heiminn í gegnum okkar eigin skynfæri. Það eru ekki allir sammála um hvað sé fallegt í myndlist, hönnun, vef eða öðru.

Vefi þarf að hugsa í samhengi. Stundum er ekki viðeigandi að vera með vefi of hannaða þar sem nostrað er við hvert smáatriði. Eigandi bland.is gæti mögulega hafa haft þetta sjónarmið í huga þegar sá vefur var hannaður. Þetta er vefur sem er notaður af gríðarlegum fjölda og er stærsta sölu- og markaðstorg á Íslandi og virkar greinilega vel. Á þessum vef er mikilvægt að almennum notanda líði vel og finnist ekki eins og hann þurfi að ganga um í sínu fínasta pússi. Á vefjum framleiðenda lúxusbíla er allt annað uppi á teningnum, þar á allt að vera ofurhannað og upplífunin á að vera lúxus, sem aðeins er ætlaður útvöldum.

Við getum endalaust deilt um hvað sé falleg eða ljót hönnun en samhengið í því sem við erum að hanna á allaf á endanum að hafa áhrif á sjónræna fagurfræði.

Húmor og leikir

MailChimp
MailChimp brúðan

Það hefur fáum íslenskum fyrirtækjum tekist að nota húmor í markaðsnálgun. Erlendis má víða sjá húmor notaðan til búa til skemmtilega upplifun. Veffréttabréfakerfið MailChimp sem margir Íslendingar þekkja er þekkt fyrir að nota húmor í sinni markaðssetningu. Eigendur fyrirtækisins tóku meðvitaða ákvörðun í upphafi að einblína á tilfinningalega upplifun í sinni nálgun. Lykilhlutverk spilar brúðan Freddie, áreynslulaus húmor sem virkar.

Foursquare appið hefur slegið í gegn og þar spilar leikur stóran þátt. Notendur deila með vinum sínum upplýsingum um hvar þeir séu staddir og vinna sér inn stig fyrir að tékka sig inn á ýmsa staði, hvort sem það er bar, verslun, sundlaug eða annað. Það sem gerir þetta forrit svona aðlaðandi í huga fólks er leikurinn á bak við, að safna stigum og ekki síst að öðlast höfðingjatign (mayorship). Ekki er verra að stela henni af einhverjum félaga og deila svo sigrinum á Facebook eða Twitter. Fólk keyrir jafnvel bæjarhluta á milli til þess eins að endurheimta höfðingjatign sem hefur glatast.

Lágmarkaðu val og gefðu ráð

Sálfræðin kennir okkur líka að eftir því sem færri möguleikar eru í boði á vefnum er líklegra að við fáum notendur til að taka ákvörðun, kaupa hluti eða gera það sem vefurinn ætlast til af þeim. Ekki flækja hlutina eins og framleiðendur sjónvarpstækja gera t.d. með fjarstýringum. Fyrir flesta og sérstaklega þá sem eldri eru nægir að vita hvar hægt sé að hækka og lækka, skipta um rás og kveikja/slökkva.

Sama gildir um texta og annað efni á vef. Um leið og þú setur inn fullt af efni og skrifar langan texta þá torveldarðu aðgang að því sem skiptir máli og færð fólk til að gera það sem það kom til að gera. Það sem virkar best er að vera stuttorður og koma sér beint að efninu.

Það er gott ráð á vef að koma með ráðleggingar rétt eins og á mörgum veitingastöðum þá mælir kokkurinn með ákveðnum réttum eða tilteknir réttir eru dregnir fram sem auðvelda valið. Þetta getum við líka gert á vefnum. Facebook, LinkedIn og Twitter gera þetta með árangursríkum hætti. Ráðleggja þér hvað aðrir gera, hverjir hafa svipaðan bakgrunn og hvernig best sé að finna fólk af sama sauðahúsi. Við erum líka alltaf að bera okkur saman við aðra. Fólk spyr gjarnan hvað sé vinsælast til að auðvelda sér valið í verslun eða á veitingahúsi. Af hverju ekki að gera þetta líka á vefnum?

Hvað snýst þá tæling um?

Með orðum Stephen Anderson snýst tæling ekki um blekkingar, fá fólk til að gera eitthvað sem það ætlaði ekki að gera. Hún snýst um að láta einhvern hafa meira af því sem hann langar nú þegar í, þráir eða þarf, jafnvel þegar fólk veit ekki af því sjálft. Tæling snýst um að smíða brú á milli elskenda sem annars hefðu aldrei vitað hvor af öðrum. Gerir þinn vefur það?

Nánari upplýsingar

One Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.