Information Architecture
Information Architecture – Ísbjarnarbókin

Það hefur lítið farið fyrir umræðu um upplýsingaarkitektúr á Íslandi. Reyndar man ég aðeins eftir einum Íslendingi sem hefur stundað nám í þessari fræðigrein (en eru vafalaust fleiri) og lét að sér kveða um skamma hríð.

Í Evrópu og Bandaríkjunum eru öflug samfélög í kringum þessa fræðigrein en upphaf hennar má rekja til “Ísbjarnarbókarinnar” sem Louis Rosenfeld og Peter Morville gáfu fyrst út 1998. Ekki að furða. Veröldin er að drukkna í upplýsingum og það þarf að koma böndum á þær.

En hvað er upplýsingaarkitektúr? Er þetta bara enn einn starfstitillinn sem bransinn er að skreyta sig með?

Skilgreining á upplýsingaarkitektúr

Skilgreining Information Architecture Institute er eftirfarandi:

“Við skilgreinum upplýsingaarkitektúr sem list og vísindi þess að skipuleggja og nefna (e. label) vefi, innranet, samfélög á netinu og hugbúnað sem styður nytsemi.”

Ef þetta hjálpar ekki lesendum þá getum við umorðað og sagt að upplýsingaarkitektúr snúist um að:

  1. Að skipuleggja efni eða hluti
  2. Lýsa þeim með skýrum hætti
  3. Útvega leiðir fyrir fólk til að komast að þeim

Við sem höfum unnið við vefstjórn getum því líklega réttilega kallað okkur upplýsingaarkitekta. Ég upplifi a.m.k. ekki annað en að ég hafi einmitt verið að sinna þessu undanfarin 15 ár, reyndar ásamt ýmsum hliðarstörfum eins og umhverfi okkar á Íslandi býður upp á. Þessi sérhæfing hefur ekki orðið hér sem er að sumu leyti gott en miður að öðru leyti.

Ráðstefna evrópskra upplýsingaarkitekta

Á morgun hefst árleg ráðstefna evrópskra upplýsingaarkitekta í Róm. Þar er ég einmitt staddur. Án efa á þessi ráðstefna eftir að verða uppspretta að mörgum greinum á þessum vef.

Meðal fyrirlesara er Gerry McGovern og Stephen Anderson en ég hef áður fjallað um skrif þessara sérfræðinga. Aðrir fyrirlesarar sem ég hef miklar væntingar til eru Eric Reiss, Andrea Resmini og Martin Belam. Auk þess vonast ég til að uppgötva enn fleiri snillinga á þessu sviði.

Eric er “kallinn” i þessum geira, mikilsvirtur og nýbúinn að gefa út spennandi bók um nytsemi Usable Usability sem mér finnst við fyrstu kynni eiga nokkurn skyldleika með bók Donald Norman Design of Everyday Things sem er klassísk í þessum fræðum. Martin Belam er höfundur Guardian appsins sem hefur notið mikilllar velgengni en vinnur sjálfstætt í dag. Andrea Resmini er annar höfundur áhugaverðrar bókar sem ég hef verið að kynna mér: Pervasive Information Architecture.

En meira um upplýsingaarkitektúr síðar. Það er víst.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.