Það skal fúslega játað að ég er undir áhrifum nokkurra leiðtoga í vefiðnaðinum. Mín speki er innblásinn (mismikið) af þessum höfundum sem ég hvet lesendur til að kynna sér nánar.

Árið 2001 las ég bók Jakob Nielsen Designing Web Usability. Sú bók opnaði augu mín fyrir grundvallaratriðum í skrifum fyrir vefinn og skipulagningu vefja með hagsmuni notenda að leiðarljósi. Honum hefur fatast nokkuð flugið hin síðari ár en mörg grunn prinsipp frá honum eru í fullu gildi. Ég sótti workshop NNGroup 2002 og tók þá í spaðann á gúrúinum!

Árið 2004 varð ég fyrir opinberun í vefmálum þegar ég las bók Steve Krug Don’t make me think. Þetta er líklega besta bók sem hefur verið skrifuð um vefmál og nytsemi á vefnum. Enginn vefáhugamaður ætti að láta hana fram hjá sér fara. Hann er skriflatur en allt sem kemur frá honum jaðrar við snilld. Ég fór á námskeið hjá Steve 2006 og kynntist honum lítillega.

Gerry McGovern er virtur sérfræðingur í skipulagi stórra vefja og innri vefja. Hann hefur sinnt ráðgjöf um vefmál vel á annan áratug, gefið út bækur og heldur úti vikulegum pistlum um vefmál. Gerry leggur höfuðáherslu á lykilverkefni og nálgun út frá þörfum viðskiptavina. Ég hitti Gerry á EuroIA 2012 í Róm og á ráðstefnunni An Event Apart í Boston 2016, frábær fyrirlesari og geðþekkur náungi.

Árið 2010 „uppgötvaði“ ég Paul Boag og bók hans Website Owner’s Manual. Allir vefstjórar ættu að skoða þá bók. Á vefnum boagworld.com birtir hann greinar, heldur úti hlaðvarpi (podcasti) og þar er jafnframt samfélag þeirra sem vinna í vefmálum. Paul hitti ég í janúar 2017 þegar hann talaði á ráðstefnunni IceWeb en þá tókst mér einnig að fá hann í viðtal.

 

Uppfært 1. ágúst 2017