Steve Krug
Lesið bók Steve Krug: Don’t make me think

Tæknin hefur gert okkur löt. Við framleiðum of mikið af upplýsingum. Mikilvægu skilaboðin týnast í kjaftæði. Tökum til á vefnum áður en illa fer.

Við heyrum reglulega í fréttum um flóð sem ógna tilveru fólks um allan heim. Þetta eru náttúruhamfarir sem eðlilega vekja athygli. Það heyrist hins vegar minna af skelfilegum hamförum sem fylgja ógnvænlegu upplýsingaflóði sem skekur alla heimsbyggðina.

IBM segir að 90% af öllum upplýsingum, sem finna má í heiminum í dag, hafa verið búnar til á sl. 2 árum.  Vefurinn er að drukkna í kjaftæði. Ég skrifaði gestablogg um efnið á vef Hugsmiðjunnar.

Hvað er til ráða? Eigum við bara að brosa í kampinn og miklast af þessum „árangri“ og halda ótrauð áfram. Setja nýtt met á næsta ári?

Leti bjó til Miklahvell í upplýsingum

Nei, við þurfum að hverfa til baka. Til einföldunar. Hætta að vera löt. Það er því miður leti sem orsakar þennan Miklahvell í upplýsingum. Við nennum ekki að skera niður. Það er svo auðvelt að framleiða og koma því út. Ekkert sem stoppar okkur.

Það má leiða líkum að því að það hefði ekki orðið neitt bankahrun ef veröldin hefði ekki verið djúpt sokkin í kjaftæði. Fjármálasnillingum tókst að búa til svo flóknar vörur að enginn skildi þær. Þeim var pakkað í svo þykkar umbúðir að engum tókst að taka utan af þeim og sjá hið raunverulega innihald.

Brýnum hnífinn

Í einu af 11 heilræðum sem ég gaf út í ársbyrjun var tiltekt á vefnum. Nú þegar árið er senn hálfnað er vert að rifja þetta heilræði upp. Vefstjórar þurfa að brýna hnífinn og fara í almennilegan niðurskurð á efni vefsins. Þetta þýðir tiltekt á einstökum síðum, fjarlægja efni sem enginn eftirspurn er eftir og er í vegi fyrir mikilvægasta efninu.

Áður en þú setur inn nýtt efni á vefinn þinn spurðu þig a.m.k. þriggja spurninga

  • Hversu margir eru að spyrja eftir þessum upplýsingum?
  • Hver er að óska eftir efninu? Ef það er enginn úr þínum markhópi slepptu því
  • Hvernig áhrif hefur það á annað efni? Hugsaðu um orsakasamhengið. Nýjar fúnksjónir geta dregið athygli frá því sem máli skiptir

Steve Krug, sá höfuðsnillingur, segir að aðal ávinningurinn af því að fjarlægja efni sé sá að:

  • Hávaði á síðunni minnkar
  • Mikilvæga efnið fær meiri athygli

Algjörlega rétt. Við þurfum stöðugt að leita leiða til einföldunar og hlúa að því sem máli skiptir. Tími okkar er takmarkaður. Með niðurskurði á efni minnkar viðhaldið. Við höfum meiri tíma til að klappa vefnum og njóta þess að hlusta á malið í stað braka og bresta.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.