Á þessum tíma árs fer mig að þyrsta í fróðleik, ekki þennan sem ég sæki mér í hverri viku með lestri greina, bóka og bloggfærslna. Heldur að sækja spennandi viðburði þar sem ég hef tækifæri á að hitta framsæknasta fólkið í bransanum. Meðtaka útpælda hluti um hvernig við getum búið til betri vefheim.

Ég hef sett mér það markmið að hlýða á helstu áhrifavalda mína. Ég hef náð að hlýða á Steve Krug, Jakob Nielsen, Gerry McGovern og nokkra aðra sem ég fylgist með í gegnum Twitter og með bloggáskriftum. Enn á ég eftir að finna ráðstefnu þar sem ég hef tækifæri á að hlýða á Paul Boag. Reyndar langar mig mest að fá hann hingað til lands. Hver veit nema af því verði einhvern tímann. Hann hefur sýnt því áhuga en við þurfum að hamra járnið.

Það skal fúslega viðurkennt að fyrir mig, sem er “intróvert” út í ystu æsar, þá er það nokkuð átak að mæta á stórar ráðstefnur og blanda geði (mingla). En mér finnst það nauðsynlegt. Þess vegna er ég þátttakandi í Faghópi um vefstjórnun hjá Ský og tek þátt í starfi Samtaka vefiðnaðarins (SVEF). Á viðburðum sem Ský og SVEF skipuleggja gefst gott tækifæri til að stækka tengslanetið og hlýða á þá sem fremst standa í íslenskum vefiðnaði.

Ísland er æðislegt en á vefsviðinu þurfum við á erlendum áhrifum að halda. Ef við ætlum að loka okkur af og láta duga að innbyrða fróðleik sem landar okkur hafa fram að færa færumst við ekki nægilega langt áfram. Að mínu mati er brýnt að leita út fyrir landsteinana til að svala fróðleiksþorstanum. Það kostar vissulega en ef valið er vandað þá skilar það ríkulegri ávöxtun.

Euro IA 2014

Síðastliðin tvö ár hef ég sótt ráðstefnu EuroIA sem eru samtök evrópskra upplýsingaarkitekta. Ég var svo heppinn að komast í gegnum nálarauga skipuleggjenda í fyrra og fékk ómetanlegt tækifæri til að flytja erindi á alþjóðlegri ráðstefnu.

Næsta ráðstefna EuroIA verður haldin í Brussel í september og það má eitthvað mikið gerast ef ég læt mig vanta þar. Fyrir það fyrsta er þetta 10. árið sem ráðstefnan verður haldin og vænta má enn metnaðarfyllri dagskrár en áður. Í annan stað verður hún haldin í borg sem er Mekka borg fyrir Tinna aðdáandann og ekki síður bjóráhugamannsins. Í raun hef ég enga afsökun fyrir að fara ekki! Dagskráin lítur vel út. Þarna má finna fólk sem ég hef verið að fylgjast með undanfarin ár, svo sem Donna Spencer, Paul Rissen, Steve Portigal, Eric Reiss, Alberta Soranzo og Francis Rowland. Kannski eru þessi nöfn ekki kunnug lesendum en þau verðskulda athygli þeirra sem láta sig notendaupplifun varða.

Content Strategy Forum 2014

Svo er önnur ráðstefna sem ég er mikið að spá í að sækja. Það er CS Forum14 sem er með áherslu á efnisstefnu (e. content strategy). Ég hef fylgst með þessari ráðstefnu sl. ár en fórnaði henni í fyrra fyrir EuroIA og árið 2012 var hún haldin í Suður-Afríku. Það var aðeins of langur vegur að fara fyrir eina ráðstefnu. Nú skal það játað að ég skutlaði inn tillögu að erindi fyrir þessa ráðstefnu en náði ekki í gegnum nálarauga ráðstefnuhaldara að þessu sinni. Er engu að síður sáttur með 50% hlutfall í að ná inn með erindi á erlendar vefráðstefnur fram að þessu.

Á CS Forum14 sem verður haldin í Frankfurt í byrjun júlí er margt spennandi í gangi. Ekki síst erindi frá Margot Bloomstein sem er eitt af stærri nöfnunum í mótun efnisstefnu og svo er Leisa Reichelt frá Government Digital Services í Bretlandi á meðal fyrirlesara að ónefndum Eric Reiss sem ég hef miklar mætur á. En hann hefur skrifað eina bestu bók um nytsemi sem ég hef lesið (Usable Usability).

Aðrar vefráðstefnur

Ég get vel skilið að þessar tvær ráðstefnur séu ekki endilega á ykkar áhugasviði. Þið hafið kannski meiri áhuga á vefhönnun, tæknimálum, forritun eða annars konar nálgun á notendaupplifun (UX) á vefnum. Örvæntið ekki, það er haugur af ráðstefnum í boði. Google er auðvitað nærtækasta verkfærið til að skoða sig áfram en til að skerpa fókusinn bendi ég á eftirfarandi vefslóðir.

  • Lanyrd vefurinn er besti vettvangurinn til að finna góðar ráðstefnur. Þarna er hægt að leita eftir fyrirlesara, efni, stað og ýmsu öðru. Held að það sé nánast ekkert sem Lanyrd missir af
  • Yfirlit um UX (notendaupplifun) ráðstefnur á þessu ári. Þarna eru í raun tenglar á ráðstefnur um flest það sem hugurinn girnist í vefmálum (takk @valurthor fyrir ábendinguna)
  • The Web is… þar sem fagnað verður 25 ára afmæli veraldarvefsins. Stór nöfn og áhugavert efni á ferðinni

Að lokum tenglar í þessar ráðstefnur sem ég tíni sérstaklega út og höfða sérstaklega til þeirra sem eru uppteknir af efni (content), upplýsingaarkitektúr (information architecture) og notendaupplifun (user experience).

Hvert leita ég annað um fróðleik?

Í gegnum Twitter reikninginn minn er hægt að sjá yfirlit um þá helstu sem ég fylgist með í vefbransanum (sjá Following). Hvet ykkur til að skoða þann lista. Twitter nota ég nær eingöngu í að fylgjast með vefmálum.

Veffréttabréf og póstlistar finnast mér ómissandi til að fá reglulegan fróðleik í “inboxið” mitt. Nota líka Feedly til að draga þetta saman. Helstu fréttabréf eða einstaklingar sem ég fylgist með eru Paul Boag, Gerry McGovern, Nielsen Norman Group og Brad Frost. Pósthólfið tekur ekki endalaust við en Twitter er í raun betri mælikvarði á það sem ég fylgist með að öllu jöfnu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.