Google verkfæriÞað er vandfundinn eigandi vefs sem nýtir sér ekki einhver verkfæri frá Google. Flestir vefstjórar gefa sér þó takmarkaðan tíma til að læra á þau og nýta til fulls. Af þeirri ástæðu sá faghópur um vefstjórnun hjá Ský tilefni til að kynna þrjú helstu verkfæri Google, þ.e. Analytics, AdWords og Webmaster Tools.

Fundurinn var haldinn 21. maí sl. og áhuginn var greinilega mikill þar sem yfir 80 manns mættu í kjallarann hjá Ský á Engjateig. Hér má finna stutta samantekt á efni fundarins.

Fundarstjóri Hákon Ágústsson, verkefnastjóri hjá Icelandair, byrjaði á að kanna hve margir nýta sér þessi verkfæri. Nánast allir sögðust nýta sér Google Analytics, talsvert færri Google Adwords og aðeins lítill hluti Google Webmaster Tools. Niðurstöður sem koma í sjálfu sér ekki á óvart.

Byrjar allt með Google Webmaster Tools

Hannes Agnarsson Johnson og Soffía Kristín Þórðardóttir frá TM Software fóru yfir helstu virkni í Webmaster Tools. Þau hafa bæði langa reynslu af vefmálum og markaðssetningu á netinu.

Það var við hæfi að byrja á kynningu á Webmaster Tools enda verkfæri sem vefstjórar ættu fyrst að huga að. Þar er vefurinn skráður, veftré (sitemap) hlaðið inn og nauðsynlegar stillingar gerðar, t.d. val á markaðssvæði og hvort nota eigi www slóð eða ekki, til að tryggja sýnileika vefsins í leitarvélum. Hér er einnig hægt að bæta við lénum og gera ráðstafanir um vísanir (redirect) hafi orðið breytingar á vefslóðum eða nýr vefur litið dagsins ljós.

Reglulegum heimsóknum í Webmaster Tools má líkja við læknisvitjanir þar sem líðan vefsins er könnuð. Hannes benti sérstaklega á að fylgjast með skilaboðum frá Google um það sem betur má fara í kóða, síðuheitum og viðvaranir vegna óæskilegs hugbúnaðar (malware).

Með þessu verkfæri er ennfremur hægt að sjá hvaða síður virka best, hverjar mega missa sín, hvaða leitarorð skila flestum birtingum á síðum vefsins, hversu margir vefir vísa á þína síður o.fl.

Með öðrum orðum hjálpar Webmaster Tools vefstjórum að halda úti góðum vef sem uppfyllir kröfur notenda og þar með leitarvéla.

Webmaster Tools útskýrt á einni mínútu (myndband)

Í Google Analytics er púlsinn tekinn

Snorri Páll Haraldsson frá Hugsmiðjunni hefur verið í vefbransanum í 13 ár og er mikill áhugamaður um tölfræði. Hann byrjaði á því að vekja athygli á nauðsyn þess fyrir vefstjóra að nýta tölfræði til að taka upplýstar ákvarðanir. Hún væri nauðsynleg í vopnabúrinu til að rökstyðja ákvarðanir, fá fé til úrbóta og almennt sinna rekstri vefs.

Vefur án vefmælinga er eins og búð með ósýnilegum gestum.

Google Analytics gerir okkur að betri vefstjórum og þarf ekki að taka svo mikinn tíma. Tíu mínútur á dag með morgunkaffinu duga að hans mati eða 3-4 klukkustundir á mánuði. Með því að vakta umferðina erum við stöðugt að taka púlsinn á vefnum.

Hann tók sem dæmi nauðsyn þess að skoða hvernig umferð er með mobile tækjum (símum og spjaldtölvum). Ef umferðin er komin yfir 3-4% af heildarumferð er tímabært að huga að skalanlegum vef að mati Snorra. Í mörgum tilvikum er þessi prósentutala mun hærri nú þegar.

Afar forvitnilegt er að fylgjast með rauntímaumferð á vefnum en þá geta vefstjórar séð t.d. hvernig tiltekin herferð, fréttabréf eða deiling á Facebook skilar sér. Snorri sýndi þennan möguleika með skemmtilegum hætti þegar hann bað viðstadda um að opna vef Hugsmiðjunnar og gestir gátu fylgst með fjölda heimsókna í beinni.

Fyrir þá sem selja á vefnum þá er nauðsynlegt að fylgjast með “conversion”, skoða t.d. hvar notandi dettur út í ferlinu við kaup á vöru og hversu hátt hlutfall þeirra sem koma inn á síðu klára aðgerð. Einnig má setja upp A/B prófanir í “experiments” hlutanum. Prófa að nota mismunandi orð í fyrirsögnum og sjá hvaða fyrirsagnir virka best.

Í grunninn snýst vinnan sem við leggjum í Google Analytics um að gera vefinn betri fyrir notandann og þar með skilar hann meiri ávinningi fyrir eigendur sagði Snorri.

Google AdWords snýst um notendaupplifun

Google auglýsingar
Ekki víst að Samsung setrið sé að borga meira en aðrir fyrir auglýsinguna. Líklegt að Google gefi henni bestu einkunn

Guðrún Birna Finnsdóttir vann við þróun Google AdWords 2004-2007 og hefur því einstaka sýn á vöruna hér á landi.

Í fyrstu fór hún yfir hugmyndafræði Google. Þar snýst allt um (fyrir utan að græða væntanlega) notendaupplifun. Verðmætasta eign fyrirtækisins eru notendur og þeir eru hverfulir. Fyrir þá er enginn kostnaður að skipta um þjónustuaðila. Því skiptir öllu að halda notendum ánægðum og út á það gengur þróun verkfæranna sem Google býður upp á.

Margir myndu ætla að þeir sem bjóða hæst fyrir einstök leitarorð í AdWords tryggi sig ávallt efst í keyptum leitarniðurstöðum. En svo er ekki. Google metur líka nytsemi auglýsingarinnar og vefsins sem notandinn lendir á. Eru einhver verðmæti í skilaboðunum eða er þetta bara nafn fyrirtækisins, jafnvel endurtekið þrisvar sinnum en engin alvöruskilaboð? Ertu sendur á forsíðu vefsins þar sem þú mátt svo hafa fyrir því að finna vöruna sem þú varst að leita að eða ferðu beint á tiltekna síðu sem hjálpar þér að nálgast það sem þú leitaðir að?

Þessi hlutir skipta máli, ekki bara hæsta boð. Og ástæðan er enn og aftur notendaupplifun. Google metur  gæði vefsins og upplýsinganna sem eru veittar meira en hæsta boð þó vissulega sé nauðsyn að borga ákveðna lágmarksfjárhæð til að eiga möguleika á að birtast. Langbest er auðvitað að þurfa ekki að auglýsa og vera efstur í leitarniðurstöðum.

Ef þú hugsar um notandann þá vegnar þér vel í AdWords.

Guðrún Birna vakti athygli á því að við getum ekki fylgt leiðbeiningum Google í einu og öllu því mikið af þeim taka mið af stærri markaði og Ísland er míkrómarkaður.

Guðrún mælti með því að vanda vel orðalag auglýsinga. Ekki tönnlast á einu orði (sjá t.d. Tölvutek hér að ofan þar sem nafnið kemur fram mörgum sinnum) heldur nota nokkur lýsandi leitarorð.

Miðað við þann áhuga sem þessum fundi var sýndur þá er ljóst að fullt tilefni er til að efna til vinnustofa eða stærri ráðstefnu um Google verkfærin. Enda vilja allir verða númer 1 í Google.

Það er aldrei að vita nema að faghópur um vefstjórnun hjá Ský boði til slíks viðburðar í haust.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.