Íslenskir vefir 2013
Sýnishorn af íslenskum vefjum 2013

Í þessari grein rýni ég í íslenska vefhönnun. Ég gerði mér það að leik að skoða vefi sem hafa farið í loftið árið 2013. Þetta eru vefir frá nokkrum vefstofum (Kosmos og Kaos, Skapalón/Janúar, Hugsmiðjunni, TM Software og Sendiráðinu). Alls 36 vefir. Þetta er yfirborðsskoðun og gerð fyrst og fremst fyrir sjálfan mig til að átta mig á hvert stefnir í vefhönnun.

Föstudaginn 31. janúar verður uppskeruhátíð vefiðnaðarins haldin og mikil eftirvænting í loftinu. Þá fáum við að vita hverjir hreppa vefhnossin þetta árið. Fróðlegt verður að sjá hvort tiltekin stefna í vefhönnun verði ofan á eða hvort ákveðinn geiri, eins og ferðabransinn í fyrra, standi uppi sem sigurvegari.

Ég er þakklátur fyrir að litli vefurinn minn komst á blað yfir 5 tilnefnda vefi einstaklinga. Er þar í flottum hópi, m.a. með frægustu poppstjörnu landsins, Páli Óskari, og frægasta vefhönnuði landsins, Haraldi Þorleifssyni. Að funksjon.net skuli hafa verið tilnefndur er smá uppreisn fyrir fúnksjónina, einfaldleikann og ekki síst orðið í vefsmíði.

Vefrýni á 36 íslenskum vefjum

Arnar Ólafsson, einn af okkar fremstu vefhönnuðum, skrifaði blogg um helstu strauma og stefnur í vefhönnun í nýlegum pistli á vef hinnar nýju markaðssamsteypu Janúar. Hvet ykkur til að lesa greinina. Tilhneigingar sem hann nefnir gætir ekki svo mikils í þeim dæmum sem ég skoðaði fyrir utan að stórar myndir eru mjög áberandi í bakgrunni.

Flöt hönnun, parallax, einnar síðu hönnun og innbyggð myndbönd eru án nokkurs vafa það sem er í farvatninu en tilfinning mín er að það sé aðallega verið að gera tilraunir með það fyrir minni vefi. Síður hefðbundna fyrirtækjavefi.

Skalanlegir vefir eru ráðandi

Venjulegur vefur?
Krúttlega kjánalegt – fara á venjulegu síðuna

Á síðasta ári spáði ég því að það myndi heyra til undantekninga ef nýir vefir yrðu ekki skalanlegir. Það hefur reynst rétt. Af þessum 36 vefjum sem ég rýndi voru 29 skalanlegir (responsive). Af þeim 7 sem eftir stóðu voru 2 frá flugfélögum, WOW og Icelandair, og 2 voru áheitavefir. Líkleg ástæða þess að flugfélagavefirnir eru ekki skalanlegir er bókunarkerfið sem vefir þeirra byggja á. Styðja líklega ekki við skalanlega vefhönnun og það gæti tafið vegferð flugfélaga inn í nútímavefhönnun, sem er miður.

Í þremur tilvikum af sjö var vísað beint á mobile útgáfu af vefnum sem orkar tvímælis og einn þeirra var með tengil á „venjulega vefinn“ sem er dálítið krúttlegt en um leið lýsir gamaldagshugsun. Hefðbundinn, venjulegur og aðalvefur eru allt heiti sem hafa verið notuð um „desktop“ vefina. Í dag er normið orðið einn vefur fyrir alla og öll tæki. Ekkert óvenjulegt, óhefðbundið eða síðra við það.

Hefðir ekki virtar – or.is tilraunin

Hefðir á vefnum eiga aðeins undir högg að sækja, 8 af 36 vefjum virða ekki algengustu hefðir. Þá á ég við t.d. að notandinn er vanur því að finna merki (logo) í vinstra horni, hafa leiðarkerfi þvert á síðuna, leit í hægra horni og hafðu samband upplýsingar í fæti svo dæmi sé tekið. Mobile þróunin hristir vitaskuld upp í þessu og það er eðlilegt að vefhönnuðir geri ákveðnar tilraunir með nýja hluti. Við sjáum t.d. víða að þriggja þverlínu táknið fyrir leiðarkerfi fyrir mobile er að ryðja sér til rúms í desktop vefhönnun.

Or.is er tilraun í íslenskri vefhönnun

Hvergi gengur tilraunamennskan lengra en í or.is vefnum þar sem í raun flestu er snúið á hvolf frá ríkjandi hefðum. Merki fyrirtækisins er hægra megin, leiðarkerfið er lóðrétt hægra megin og leitin þar undir en upplýsingar í fæti á sínum stað. Miðað við F-mynstrið sem endurspeglar lestur notenda á vef þá er hér tekin talsverð áhætta. Þess er þó getið á vef Kosmos og Kaos sem hannaði vefinn að notendaprófanir hafa komið vel út og hvað getur maður þá sagt? Ekki deili ég við þær. Kannski hefur F-mynstrið riðlast.

Leitarvél á vef er á undanhaldi

Ég hef orðið var við undanhald leitarinnar á vefnum undanfarin ár, fannst þetta einkenna verðlaunavefi fyrir árið 2011 og í dag er svo komið að liðlega þriðjungur af þeim vefjum sem ég skoðaði bjóða ekki upp á neina leit.

Hér er verið að leika sér með nytsemi vefsins því ég giska á að hinn þekkti hópur „leitarnotenda“ er væntanlega með böggum hildar á þessum vefjum. Fólkið sem anar beint út í leit án þess að gefa leiðarkerfi séns. Hvað verður um þessa notendur?

Það þurfa samt ekki allir vefir leitarvél. Litlir, vel skipulagðir vefir þurfa hana ekki en flestir meðalstórir og stærri vefir ættu að bjóða upp á þessa sjálfsögðu þjónustu að ég tali nú ekki um fínerí eins og TM býður upp á með ritstýrðri leit.

Skammur líftími róterandi bannera og megaleiðarkerfa?

Síðastliðin ár hefur varla verið opnaður vefur án þess að vera með stóra bannera sem gjarnan rótera. Þetta fyrirbæri nefni ég gjarnan friðþægingarbannera vefstjórans, því með því að bjóða upp á nokkra bannera á forsíðu sem ýmist koma inn á víxl, einn á eftir öðrum eða hægt er að fletta í, eru fyrst og fremst ætlaðir til að róa hagsmunaaðila í fyrirtækjum. Vefstjórar vita það vitaskuld að það skoðar nánast enginn banner númer 2, hvað þá 3 eða 4! En ef þetta róar liðið í fyrirtækinu þá er það fínt.

En nú er öldin önnur. Á þessum 36 vefjum sem ég skoðaði voru kannski 8-9 (fer eftir skilgreiningu) með friðþægingarbannera. Hefur skynsemin náð völdum? Í staðinn er meirihluti vefjanna með risabakgrunnsmyndir sem stundum þekja allan bakgrunn vefsins eða á 20 af 36 vefjum samkvæmt minni talningu.

Í grein í lok árs 2012 var mér tíðrætt um upprisu megaleiðarkerfisins. Það virtist vera ansi mikil fylgni við þá leið i vefhönnun á Íslandi en nú er hún Snorrabúð stekkur. Það er tæplega hægt að tala um nema þrjá vefi sýnist mér, eða innan við 10%, sem skarta megaleiðarkerfi. Vitaskuld hafa litlir vefir ekkert með slíkt leiðarkerfi að gera en það kemur mér pínulítið á óvart að flestir stærri vefir hafi ekki fylgt hjörðinni 2012. Tekið skal fram að ég hef talsverðar efasemdir um nytsemi megaleiðarkerfa og fagna því þessari þróun.

Einfaldari og minna mas

Ekki mikið mas á Alvogen vefnum
Lítið mas á Alvogen vefnum en hvað segir hann mér um fyrirtækið?

Ég hef ekki gert talningu á orðum á forsíðum þessara vefja sem ég rýndi en mér sýnist vera skýr tilhneiging í þá átt að fækka orðum. Letrið er orðið stærra á vefnum og færri orð á hverri síðu. Lykilverkefni fá meiri athygli. Þetta er góð þróun. Það er löngu vitað að notendur skanna helst forsíður og milliforsíður á vef. Það er ekki fyrr en á efnissíðum sem lesturinn hefst. Fram að því vilja notendur bara sniffa sig áfram og smella. Íslensk vefhönnun tekur mið af þessu. Það er vel.  Forsíðan verður þó að segja skýrt um hvað vefurinn snýst. Það vantar sums staðar.

Annað skýrt batamerki á íslenskum vefjum er að fréttir hafa ekki lengur ráðandi stöðu á forsíðu vefja. Mér sýnist sem að innan við þriðjungur þessara vefja hafi fréttir áberandi á forsíðunni og sumir bara alls engar. Það er áhugavert og skynsamlegt því það er ansi langlíf mýta að notendur á vef séu sólgnir í fréttir. Þeir eru fyrst og fremst komnir til að leysa verkefni og fréttirnar hjálpa lítið til við það.

Skrun er ekkert mál!

Snertiskjáir, spjaldtölvur og snjallsímar (s-in þrjú!) hafa haft það í för með sér að notendum finnst ekki lengur neitt tiltökumál að skruna niður vefi sem jaðra við meðalklósettrúllulengd. Jæja kannski smá ýkjur en þetta er skýr tilhneiging. Skrun er ekkert mál!

Við sjáum talsvert um það að vefir eru hannaðir í risaflekum, stundum parallax og stundum ekki. Þetta er býsna góð upplifun fyrir snertinotendur og skrunmúsaeigendur því fylgifiskur þessarar þróunar er milkil aukning á síðulengd. Það er víst ekkert tiltökumál lengur að vera „above the fold“ á vefnum sem lengi var ófrávíkjanlegt fyrir lykilverkefni á vefnum.

Eltihrellir kveðinn niður?

Eltihrellir á vefnumFyrir nokkrum misserum birtist lítið skrítið fyrirbæri á ansi mörgum vefjum. Ég vil kalla það eltihrelli, sem grátbiður notandann um hafa samband, þ.e. að segja ef hann kann að lesa frá hlið (snúa sér í 90 gráður). Ég man fyrst eftir eltihrellinum á Vodafone vefnum á sínum tíma (og er þar enn). Hann hefur dúkkað upp á ansi mörgum vefjum á sl. 2-3 árum m.a. á vefjum ferðaþjónustuaðila, fjármála- og símafyrirtækja. Og enginn veit í raun af hverju.

Ég hef spurt nokkra vefstjóra um hverju þetta skilar og undantekningalaust verða þeir hálf skömmustulegir og segja afar litlu. Þeir viti ekki alveg af hverju þetta datt inn. Eltihrellirinn er eins og megaleiðarkerfið dæmi um hjarðhegðun í vefhönnun en er samt fljót að vinda ofan af sér, sem betur fer.

Niðurstaða

Þessi rýni var unnin áður en ljóst var hvaða vefir voru tilnefndir til SVEF verðlauna 2013 en niðurstaða dómnefndar verður efni í aðra grein.

Hinn dæmigerði vefur á Íslandi í dag er snjall vefur. Hann skalast fyrir öll tæki og það er, hvort sem fólki líkar það betur eða verr, óumflúið í vefhönnun í dag. Hvað sem kann að gerast í nálægri framtíð. Þú verður að bjóða upp á alla þjónustu í gegnum hvaða tæki sem notendum dettur í hug að nota.

Íslenskir vefir í síma
Íslenskir vefir í síma

Það eru mikil og stór flekaáhrif í vefhönnun í dag. Stundum parallax. Stundum með myndbandi. Stundum með risabakgrunnsmyndum. En flekar eru það og vísast sjáum við mikið af þeim árið 2014.

Fyrirsagnir og letur stækkar en skjáir minnka. Kann að vera mótsögn en er það ekki. Skalast bara svo ljómandi vel í snjallsímunum, þetta stóra letur.

Við sjáum áhrif úr mobile hönnun í desktop (fyrirgefið en mig vantar góðar þýðingar fyrir desktop og mobile). Það eru skýr merki um vefi þarna úti sem eru líklega fyrst hannaðir með þarfir snjallsíma og spjaldtölva í huga frekar en borð- og ferðatölva. Þetta mun halda áfram.

Notendur eru sífellt á betri tengingu jafnvel þó að síminn sé til brúks. 4G væðing er á blússandi siglingu og ljósleiðaratenging í fyrirtækjum og heimilum gera netvafrið að formúlubraut sem bjóða upp á nýjan leikvöll fyrir vefhönnuði.

Nóg er komið að orðum. Sjáum hvað SVEF viðurkenningar fyrir árið 2013 færa okkur og ég ætla að japla á þeim niðurstöðum í væntanlegum pistli. Góðar stundir og ekki síður skemmtun!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.