Margir vefstjórar kannast líklega við þá upplifun að vera eins og háseti á eigin skipi. Að hafa ekki fullt umboð til athafna.
Getið þið ímyndað ykkur skip þar sem enginn skipstjóri er um borð en stýrimenn skipta jafnvel tugum og gefa skipanir í allar áttir? Á fleyinu vinnur svo harðduglegur háseti sem af samviskusemi sinni reynir að gera öllum til hæfis. Á slíki skipi getur engum liðið vel, það er mikill veltingur og skipið er eins og rekald. Örlög þess geta ekki verið önnur en skipbrot ef útgerðin áttar sig ekki í tíma. Hún þarf að ráða skipstjóra sem hefur skýrt umboð til athafna og skeytir ekki alltaf um álit annarra.
Margir kannast örugglega við það viðhorf að vefstjóri sé fyrst og fremst tæknimaður sem er til þess eins bær að taka við skipunum og setja inn efni frá öðrum. Markaðsstjórinn, upplýsingafulltrúinn, lögfræðingurinn og forstjórinn eiga allir efni í sínum fórum sem þeir telja að eigi heima á vefnum. Ekki bara einhvers staðar á vefnum heldur mjög líklega á forsíðu vefsins.
Vandamálið við þessar beiðnir er þó að samkvæmt notendaprófunum, tölum um umferð á vefnum og rannsóknum vefstjórans þá er lítil sem engin eftirspurn eftir reglugerðum, sjónvarpsauglýsingum, ræðu forstjóra né fréttatilkynningum. Vefstjórinn er búinn að átta sig á að viðskiptavinir vilja bara áreiðanlegar upplýsingar um helstu vöru fyrirtækisins og staðsetningu verslana, geta flett upp símanúmerum starfsmanna og gengið frá pöntun á vörum.
Framangreinda lýsingu kannast margir vefstjórar við í einhverri mynd. Ef árangur á að nást á vefnum þá verður að einblína fyrst og fremst á mikilvægustu verkefnin. Það er mjög líklegt að fimm helstu verkefnin sem viðskiptavinurinn þarf að leysa skipti mun meira máli en önnur 25 sem búið er að setja í forgrunn vegna þrýstings frá öðrum innan fyrirtækisins.
Vefstjóri verður að forgangsraða ef honum á að líða vel í starfi. Hann þarf að móta skýra stefnu, þekkja höfuðverkefni notenda og verja stærstum tíma sínum í þau. Hann þarf líka að hafa bein í nefinu og sækja sér skýrt umboð til að taka ákvarðanir og um leið sætta sig við að eignast mögulega óvini um tíma. Það sem ávinnst þegar frá líður er virðing annarra fyrir starfinu og áður en vefstjórinn veit af er komin aukafjárveiting í þróun vefsins vegna þess að hann spilar vaxandi hlutverk í afkomu fyrirtækisins.