Stjórnendur fyrirtækja eru uppteknir af afkomunni, eðlilega.  Af henni eru þeir dæmdir. Þeir hafa líka áhyggjur af ímynd. Þess vegna sinna þeir öflugu markaðsstarfi, byggja upp þjónustu á netinu, halda úti vef, verja fé í auglýsingar og kynningarstarf út á við. En átta þeir sig á hver grunnforsendan er fyrir góðri afkomu? Ég efast um það. Nefnilega innranetið eða góð innri upplýsingamiðlun.

Stjórnendur vilja ánægða viðskiptavini því þeir þekkja samhengið á milli þess að eiga ánægða viðskiptavini og skila góðri afkomu. En til þess að viðskiptavinir verði ánægðir þurfa þeir að fá góða þjónustu. Og forsenda þess að starfsmenn geti veitt góða þjónustu er ekki að sækja nokkur brosnámskeið heldur að þeir séu ánægðir í starfi. Þeir þurfa auðvitað góða aðstöðu, kjör, vinnuanda og ekki síst vera vel upplýstir. Þar er nefnilega oft pottur brotinn.

Lesendur rétti upp hönd þar sem innri upplýsingamiðlun í fyrirtækinu fær toppeinkunn. Einhver, einhver?

Innranetið er óhreina barnið hennar Evu

Ef fyrirtækið þitt ætlar að skila hámarksarði (hvernig svo sem hann er mældur) þá þurfa starfsmenn að vera vel upplýstir. Hin einfalda mynd:

  • Góð afkoma krefst góðrar þjónustu/vöru
  • Góð þjónusta krefst ánægðra starfsmanna
  • Til að starfsmenn verði ánægðir þurfa þeir að vera vel upplýstir
  • Til að vera vel upplýstir þarf að vera öflug innri upplýsingamiðlun
  • Ergo: Gott innranet (upplýsingamiðlun) er forsenda  góðrar afkomu

Þrátt fyrir þessar (augljósu) staðreyndir þá á uplýsingamiðlun undir högg að sækja í flestum fyrirtækjum. Ástæðan? Skilningsleysi fyrst og fremst. Það er bara svo lítið sexí við innranet. Óhreina barnið hennar Evu.

Þetta er fjarri því að vera bundið við íslenskan veruleika. Flest innranet eru ömurleg. Staðreynd.

Umsjón með innraneti er virðingarstarf

Sem betur fer eru þó undantekningar á þessu. Ég hef átt skilningsríka stjórnendur sem eru meðvitaðir um mikilvægi innranetsins og eru tilbúnir að fjárfesta í því. Einn þeirra gekk svo langt að setja innranet í hæsta forgang, áttaði sig á að það væri mikilvægasta einstaka verkfærið til að búa til heildstæða fyrirtækjamenningu úr mörgum ólíkum menningarheimum.

Stjórnendur eiga líka að segja það. Gera umsjón með innraneti að eftirsóttu verkefni og virðingarstarfi. Það munu þeir vonandi gera þegar þeir átta sig á samhenginu sem lýst er hér að ofan.

Innranetið krefst umhyggju. Það þarf einhver að eiga verkefnið og ekki bara einhver heldur einhver sem veldur verkefninu. Sá sem hefur ábyrgð á innraneti þarf að þekkja grundvallaratriði í nytsemi, vefsmíði, upplýsingamiðlun, upplýsingaarkitektúr, skrifum og umfram allt hafa áhuga á verkefninu. Hafa áhuga á að þekkja þarfir starfsmanna og metnað til að mæta þeim.

Nánari upplýsingar

Fundur um innri vefi 30. október

Faghópur um vefstjórnun hjá SKÝ ætlar að efna til fundar um innri vefi 30. október nk. Þar fáum við innsýn í smíði tveggja góðra innrineta (Landspítali og Síminn) og vonandi góðar og uppbyggjandi umræður um þetta mikilvæga verkefni í rekstri fyrirtækja. Allir þangað!

 

One Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.