Orðavaðall er ein mesta ógnin við góða upplifun á vef. Það er svo auðvelt að skrifa langlokur og láta móðan mása við lyklaborðið. Við gefum okkur ekki tíma til að vinna textann.

“Ég hefði skrifað styttra bréf en ég hafði ekki tíma í það”

Þessi tilvitnun er höfð eftir franska vísindamanninum Blaise Pascal sem var uppi á 17. öld. Svipuð tilvitnun er einnig höfð eftir Mark Twain.

Efni á vef er gjarnan síðasta púslið þegar kemur að skipulagi vefs. Við fókuserum á hönnunina og forritunina. Efnið á svo bara að dúkka upp í lokin. Það geta jú allir skrifað ekki satt?

Auðvitað á að byrja á efninu áður en hönnun lítur dagsins ljós. Efnið þarf ekki að vera fullbúið í uppphafi vefverkefna en góð mynd þarf að vera komin á umfang og skipulag þess.

Flestir vefir líða fyrir lélegt efni. Við gleymum því ekki bara í skipulaginu. Við stólum á að allir geti skrifað eða jafnvel enn verra, höldum að við getum lagt allt á einar herðar, breiðar herðar vefstjórans.

Tíminn er vandamál og þegar við flýtum okkur þá tapast vandvirknin. Textinn verður ómarkviss og notendur fá ekki skilaboðin sem þeir sækjast eftir. Efnið svarar ekki spurningunum sem þeir bera upp eða leysa ekki verkefnin sem þeir komu til að klára.

Við höfum gott af því að tileinka okkur vinnubrögð rithöfunda. Vandaðra penna sem eiga allt undir textanum.

Ólafur Gunnarsson, rithöfundur, var nýlega í viðtali í bókmenntaþættinum Kiljunni. Hann varð fyrir óhappi sem gerði honum ókleift að nota tölvu liðlangan daginn. Ólafur byrjaði að handskrifa bækurnar. Og hverju breytti það? Jú orðavaðallinn hvarf. Bækurnar urðu styttri .

“Í handskriftinni skrifaður maður bara nákvæmlega það sem þarf að segja” (Ólafur Gunnarsson, Kiljan 12. desember 2012)

Hvílík snilld og sannindi. Hvernig haldiði að vefir væru í dag ef þeir væru handskrifaðir? Enginn orðavaðall, engin óþörf orð. Bara það sem skiptir máli.

Hvernig væri að prófa að handskrifa einn vef? Er það ekki tilraunarinnar virði? Það styður svo sannarlega við mobile væðinguna. Við fáum svo einhvern til að pikka textann inn eins og Halldór Kiljan gerði forðum.

Pæling.

 

One Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.