Hversu flókið er að skrifa fyrir vef eða skipuleggja efni á vefnum? Ekki svo flókið í rauninni. Nokkrar grundvallarreglur þarf að hafa í heiðri en fyrst og fremst snýst verkefnið um aga.

Ef þú ert vefstjóri í fyrirtæki þá er líklegt að þú fáir skilaboð í pósthólfið á hverjum degi með skilaboðum á borð við: „Vinsamlegast birtið eftirfarandi efni á vefnum”. Þetta efni getur verið texti, skýrsla, mynd, myndband eða blanda af þessu.

Hlýðnir og þjónustulundaðir vefstjórar grípa efnið og birta það undireins gagnrýnislaust og fá klapp á bakið. Skynsamur vefstjóri, en líka þjónustulundaður, spyr sig fyrst spurninga áður en setur efnið inn:

 • Er þörf á þessu efni?
 • Þjónar það markmiðum vefsins?
 • Hjálpar það notendum?

Ef hann getur ekki svarað neinni af þessum spurningum játandi þá svarar hann kurteislega til baka: „Því miður þá tel ég ekki að þetta efni eigi heima á vefnum”.

Líklega kemur upp einhver óánægja í byrjun með slík viðbrögð en með tímanum öðlast vefstjórinn virðingu. Allir sem skila efni á vefinn þurfa að þekkja vinnubrögðin og þá er líklegt að skilningurinn fáist með tímanum. Ert þú háseti eða skipstjóri á þínum vef?

Leiðbeiningar um skrif fyrir vef

Ef efnið á erindi á vefinn þá þarf að huga að ýmsu áður en það er gefið út.

Gæði efnis og málfar

 • Lagaðu stafsetningarvillur og orðalag ef þörf er á
 • Tónninn í skrifunum þarf að ríma við annað efni á vefnum
 • Eru sömu orð notuð í textanum og viðskiptavinir þínir nota? Þekkirðu þau orð? Hefurðu skoðað leitarorðin sem viðskiptavinir nota á vefnum?
 • Bættu mikilvægustu orðunum í „tags” (val í vefumsjónarkerfi)
 • Nær allur texti þolir niðurskurð. Fjarlægðu óþarfa orð og setningar. 50% niðurskurður á texta ætti að vera markmiðið

Umbrot og útlit

 • Skrifaðu lýsandi fyrirsögn ef hún hefur ekki fylgt með
 • Aðalatriðin þurfa að koma strax fram í fyrstu málsgrein
 • Mundu að textinn á vefnum er ekki morðgáta með lausn í blálokin
 • Forðastu HÁSTAFI og skáletrun
 • Gott er að brjóta upp lengri texta með millifyrirsögnum sem þurfa að vera lýsandi
 • Feitletraðu mikilvægustu orðin
 • Býður textinn upp á að brjóta hann upp með bólulistum (bullets)?
 • Eru leiðbeiningar í textanum sem útskýra má í skrefum? Notaðu þá númeraða lista

Snurfus og útgáfa

 • Prófaðu að lesa textann upphátt. Það er prófsteinn á hvort texti er brúklegur
 • Nýtt helstu kosti vefsins og settu tengla í ítarupplýsingar
 • Notaðu myndefni ef það styður við textann
 • Gefðu efnið út
 • Mundu eftir að biðja ábyrgðarmann að uppfæra það reglulega

Halló! Jörð kallar veruleiki!

Einmitt, getur svo einhver farið eftir þessu? Það þarf að gefa út textann ekki seinna en í gær. Þannig er veruleikinn hjá flestum vefstjórum.

Jú vissulega. Það getur verið ómögulegt að hlíta þessum reglum í hvívetna en gerðu þitt besta. Fljótt verða þessi vinnubrögð hluti af eðlilegu ferli. Það er enginn sómakær forritari eða hönnuður sem myndi sætta sig við vinnulag hlýðna vefstjórans.

Ef þú berð ekki virðingu fyrir efninu á vefnum, hver gerir það þá?