Árið 2013 var gott vefár, betra en mörg ár þar á undan. Og það er bjart framundan, mörg teikn á lofti með það. Í þessari grein geri ég upp árið í vefannál. Ekki vísindalega eða í réttri tímaröð. Meira persónulega.

Fyrir hvað verður ársins minnst? Ekki bara eitt en þó fyrst og fremst þetta:

Þetta var árið sem virknin (fúnksjónin) varð ofan á í vefhönnun, upprisa orðsins og mikilvægi efnis fékk þann sess sem það á skilið.

Varúð! Persónuleg mærð og stór markmið

Þetta ár markaði mikil tímamót fyrir mig. Ég ákvað að nú væri tíminn til að kveðja fyrirtækjamenninguna, vefstjórahlutverkið og fara að miðla. Ákvörðun sem ég sé ekki eftir. Fúnksjón vefráðgjöf varð til. Ekki til að gera mig ríkan eða byggja upp stórveldi. Nei, til að bæta vefheiminn ofurlítið og gera það sem ég hef mest gaman af.

Með firmabrölti mínu langar mig að gera mikilvægasta fólkið í vefbransanum, vefstjórana, að virðingarstétt. Mennta, fræða og efla. Mig langar að upphefja efnið og orðið. Vegsama nytsemina og gera vefi aðgengilega öllum. Rétta vanræktum verkefnum hjálparhönd og auka skilning vefbransans á þeim. Ekki síst þarfagreiningu, undirbúningi, notendaprófunum og skrifum fyrir vef.

Þetta eru stór markmið en ég hef nógan tíma. Og ég er ekki María Teresa. Bara náungi sem sér hið augljósa. Þar sem fáir virðast ætla að sinna því gaf ég mig fram, nestaður með 16 ára reynslu af vefstjórn.

Það er í tísku að tala um að hafa ástríðu fyrir einhverju og allt er svo frábært eða geðveikt. Klárlega, heyri ég ykkur jánka. Þetta var árið þar sem orðið fékk uppreisn æru og vinsælasti sjónvarpsþáttur landsins fjallaði um orð og orðbragð. Heimur batnandi fer. Kannski förum við að hætta að tala um heimasíður! Hver veit?

Efnismarkaðssetning reis úr öskunni eins og fuglinn Fönix

Þetta var líka árið sem markaðsfólk og stjórnendur öðluðust aukinn eða jafnvel margfaldan skilning á mikilvægi efnis. En hvers vegna? Aðallega vegna þess að nýtt markaðshugtak var hafið til skýjanna – Efnismarkaðssetning (e. Content Marketing). Þetta er samt ekkert nýtt. Ekki fyrir okkur sem höfum predikað mikilvægi efnis í mörg ár.

Kátínan yfir því að hafa náð til stjórnenda jafnast á við að hafa rofið haft á risastórri virkjun. Það opnast flóðgáttir. Og hverjir græða? Jú elskulegur Herra Venjulegur, Notandinn, Jón og Gunna. Það græða allir, meira að segja hefur leitarvélabestun gengið í endurnýjun lífdaga í kjölfarið.

Ríkisfúnksjón sigrar glamúr

Gov.uk
Gov.uk: Fúnksjón ofar fagurfræði

Þetta var árið sem krúnan í Bretlandi ákvað að veita ríkisvef Stóra Bretlands, gov.uk, æðstu viðurkenningu fyrir hönnun. Ekki afmörkuð bransaverðlaun. Nei fyrir yfirburðahönnun þar sem fúnksjónin var metin ofar fagurfræði. Fyrir upplýsingahönnun, nytsemi og upplifun. Þetta var hreint út sagt æðislegt, ekki frábært, meira svona unaðslegt. Allavegana fyrir okkur sem höfum staðið á kassa í fáförnum almenningsgarði vefsins og talað fyrir fremur daufum eyrum um nytsemi, texta, upplýsingaarkitektúr (IA) og notendaupplifun (UX).

Þetta var líka árið sem UX skolaði fyrst almennilega á Ísland með smá IA þangi. Þessi systkin UX og IA eru eins og vinstra og hægra heilahvelið í hverjum vef. Efnið er svo hjartað. Nema hvað. Vandræðalegt væri að bæta í þessa myndlíkingu svo ég hætti hér.

Vefurinn og efnahagur hönd í hönd

Vefurinn er ekki eyland. Það sáum við á uppskeruhátíð vefiðnaðarins í febrúar 2013. Ferðabransinn hrifsaði til sín helstu verðlaunin sem endurspeglar þann mikla vöxt og mikilvægi sem hann hefur í efnahagslífinu. Þarna eru peningarnir.

Hver verður sigurvegarinn í ár? Mig rennur í grun að ferðabransinn verði áfram fyrirferðamikill. En ég ætla að útiloka banka (enginn nýr vefur 2013), símafyrirtæki (nenna ekki að vera responsive) og útgerðina (peningarnir fara í annað). Það skyldi þó ekki vera að (hálf)opinbert fyrirtæki eða lítilmagni fái uppreisn æru í ár? Svo finnst mér að dv.is eigi að fá verðlaun. Langbesta vefhönnunin af stóru fréttavefjunum. En meiri fabúlasjónir um íslenska vefhönnun og þróun hennar í væntanlegum pistli.

Það varð talsverð hægri sveifla í vefhönnun og hefðir hafa víða látið í minnipokann. Er F-mynstrið góða á undanhaldi? En aftur, meira um vefhönnun í öðrum pistli.

Um lygi og efndir á vefnum

facebook-logoÞetta var árið þar sem sprenging varð í mobile notkun. Facebook gaf það út í uppgjöri á fyrsta ársfjórðungi að notkun á samfélagsmiðlinum vinsæla væri orðin meiri í mobile tækjum (snjallsímum og spjaldtölvum) en í borð/fartölvum (desktop). Þetta ár var líka fyrsta alvöru snjallvefsárið (responsive/skalanlegt). Flestir nýir vefir sem máli skipta (nema auðvitað hjá símafyrirtækjunum) tóku mið af því að notendur vilja gera allt með tækjunum sínum.

Þetta var líka árið sem margir Íslendingar áttuðu sig á að fólk lýgur á Facebook. Í sakleysi mínu í lok fæðingarorlofs skrifaði ég um það augljósa, að fólk hagræðir sannleikanum á miðlinum bláa og þá sérstaklega fólkið sem þykist vera í fæðingarorlofi. Þessi grein fór um allar koppagrundir netsins, skekkti allar heimsóknartölur á minn jaðarvef og hélt mér föstum á Google Analytics í tvo daga samfleytt. Það var gaman.

Fúskari kallaði eftir aukinni vefmenntun

Þetta var líka ár játninga. Það var orðið tímabært að gangast við fúskinu sem ríkir í bransanum. Í vefgeiranum starfa fúskarar í öllum kimum og ég þar meðtalinn. Það var góð umræða um menntunarmálin á árinu í fjölmiðlum, fundum og í bloggi. Og ekki bara orð heldur líka efndir. Vefstofan á Snorrabraut stofnaði Vefakademíu og fær stórt prik fyrir. Háskólasetrið í Nauthólsvík hefur hafið þreifingar um nám í vefforritun. Tækniskólinn við Hallgrímskirkju kom á fót braut fyrir þá sem vilja gera vefinn að ævistarfi. Þetta er ekki bara jákvætt. Þetta er rugl flott.

Þetta var árið sem opinberu vefirnir fengu sitt kastljós og það gerist reyndar annað hvert ár þökk sé góðu starfi innanríkisráðuneytisins. Bestu vefirnir í þjónustu við almenning voru vefir Reykjavíkurborgar og Ríkisskattstjóra. Fyrir hvað? Jú þetta eru vefir sem þjóna. Eru gerðir fyrir almenning sem þarf að nota þá, aðgengilegir öllum og tækjum þar með talin. Vei fyrir því.

Bloggið ekki lengur eign kverúlanta

Leitarvélabestun í Google
Fúnksjón og leitarvélabestun

Bloggið gekk í endurnýjun lífdaga í bransanum. Við sáum líflegt blogg frá Hugsmiðjunni, TM Software, Advania og Kosmos og Kaos. Og jú eitthvað spriklaði ég líka,með 39 færslur á árinu. Þarna sé ég áhrif frá efnismarkaðssetningunni. Auðvitað átta þessi fyrirtæki sig (og ég) að regluleg skrif skila árangri. Ekki síst sýnileika og trúverðugleika. Hvað er það að minn vefur skuli hafa náð á fyrstu leitarniðurstöðusíðu í Google fyrir orð eins og „vefhönnun“, „auglýsingastofur“ og jafnvel „leitarvélabestun“ (sver það, það hefur gerst!). Að ógleymdum öllum orðunum sem ég vil finnast undir.

Bransinn áttar sig á meðbyrnum. Þessi vöxtur í SEO (leitarvélabestun) umræðu skilaði sér í mörgum bloggfærslum, námskeiðum og hinni geðþekku Vanessu Fox sem hélt góða málstofu í haust á vegum TM Software.

Samtök vefiðnaðarins (SVEF) og Faghópur um vefstjórnun hjá Ský stóðu fyrir mörgum viðburðum á árinu og flestir þeirra vel sóttir. Það er eftirspurn eftir fróðleik og ekki síður að fá tækifæri til að stækka tengslanetið sem svo miklu máli skiptir. Næst langar mig að sjá alvöru UX / IA ráðstefnu í Reykjavík sem gæti með tíma orðið vefútgáfan af Airwaves.

Mikilvægi Nova.is fyrir vefkennslu

Það kætti mitt litla kennsluhjarta að hið rómaða fyrirtæki Nova opnaði nýjan vef á árinu, eða a.m.k. hluti hans var nýr, og hélt sig við gömlu tenglaheitin sem fáir nema innmúraðir skilja.* Þessi vefur hefur gagnast mér afar vel til að efla skilning nemenda minna á mikilvægi þess að vanda uppbyggingu leiðarkerfis. Takk Nova. Ævinlega þakklátur.

Talandi um nemendur og nú er mál að gerast enn persónulegri. Ég hef mikla ánægju af kennslu og fyrirlestrahaldi (fyrir utan kvíðann sem ég losna aldrei almennilega við). Á síðasta ári telst mér til að ég hafi kennt tæplega 200 manns fræðin á bak við vefstjórnun. Líklega hef ég kennt vel yfir 300 manns einhvern anga af vefstjórnarfræðum á námskeiðum frá árinu 2010. Og ég ætla að halda áfram.

Ég kenni við þrjár deildir Háskóla Íslands (aumur stundakennari á unglingavinnukaupi). Þar fæ ég tækifæri til að koma boðskapnum á framfæri við ritstjóraefni, blaðamenn, sagnfræðinema og menningarfræðinga svo nokkrir hópar séu nefndir. Vefstjórar og annað áhugasamt fólk hefur sótt námskeið mín hjá Endurmenntun frá árinu 2010. Loks kenni ég í Vefakademíu Hugsmiðjunnar nokkur námskeið sem standa öllum opin.

Ég finn nú þegar fyrir því að þessi fræ sem ég hef verið að sá eru að skila sér í nokkrum sprotum sem verða vonandi nýir kyndilberar hinnar almennu skynsemi á vefnum sem vefstjórnun gengur jú fyrst og fremst út á.

Fyrirlestra hélt ég nokkuð víða og fyrir stóra hópa, m.a. hjá Advania, Ríkiskaupum, SVEF og að ógleymdu erindi mínu hjá EuroIA í Edinborg. Þar fékk ég tækifæri til að samtvinna áhugamál mitt og sannfæringar mínar í vefmálum og gaf erindinu heitið Buddhism and User Experience. It’s Not About Religion. Erindið fékk dálítið skrítnar undirtektir. Mærður í hástert af fólki sem skilur mig en undrun og “kúkú” af hinum þögla meirihluta.

Hvað las fólk á funksjon.net?

Umferð á vefinn minn nærri fjórfaldaðist frá árinu 2012 enda fáfarinn vefur þannig séð hingað til. Svona nördavefur.

Ég fékk 10.761 heimsóknir á vefinn frá 7.016 notendum sem skoðuðu 23.735 síður eða 2,21 að meðaltali og dvöldu 2,50 mínútur á vefnum. Brotthvarfshlutfall var 64% og sama hlutfall nýrra heimsókna.18,2% heimsókna komu frá símum og spjaldtölvum.

Funksjon.net 2013 umferð
30. júlí – Fólk lýgur á Facebook

Vinsælustu greinarnar voru þessar (skoðað í sviga):

  1. Fólk lýgur á Facebook – 2.471
  2. Stjórnmálaflokkarnir og vefmálin – 867
  3. 11 heilræði vefstjóra 2013 – 428
  4. 15 sannfæringar í vefmálum – 398
  5. Ferðabransinn kom sá og sigraði á SVEF 2012 – 370
  6. 10 bestu innri vefirnir 2013 – 342
  7. Íslenskir responsive (skalanlegir) vefir – 317
  8. Viðvörun! Nýr texti á vefinn – 269
  9. Reynslusögur frá starfi vefstjórans – 255
  10. Er vefurinn þinn forarpyttur? 244

Vefmottó 2014: Gerum rugl einfalda vefi!

Að síðustu. Það er svo hollt og gott að lesa. Ég er innblásinn af bókinni Insanely Simple. The Obsession That Drives Apple Success, eftir Ken Segall. Þó ég sé fjarri því að vera með Apple heilkennið (á ekkert Apple dót) þá er ég gagntekinn af hugmyndafræðinni sem á svo vel heima á vefnum. Að gera vefi rugl einfalda hlýtur að vera markmiðið okkar. En ég er ekki svo viss um að ég sé hrifinn af persónu Steve Jobs (blessuð sé minning hans). Framsóknarbúddisminn sem hann stundaði fer í mig en Zen búddismi spilar stærra hlutverk í aðferðafræði Apple en flestir gera sér grein fyrir. Skrifa kannski meira um Framsóknarbúddisma síðar.

Svo er ekki hægt annað en að minnast á endurgerð bestu vefbókar allra tíma, þ.e. Don’t Make Me Think eftir Steve Krug sem ég er að lesa núna. Núna með köflum um mobile. Þið sem hafið ekki lesið fyrri útgáfur. Vá hvað ég öfunda ykkur!

Eigiði svo gott vefár. Það er margt framundan í starfi Fúnksjón vefráðgjafar. Já og svo er að verða orðið tímabært að opinbera hvaða (og hvort) fyrirtæki eru í viðskiptum við litla einyrkjafyrirtækið á Klapparstíg. Fyrirtækið sem langar ekki til að verða stórt. En bíðum með það aðeins.

Góðar stundir.

 

* Mig langaði hreinlega á Barinn til að fagna þessu og kanna hvort ég fengi VIP meðhöndlun í Arne Jacobsen Stólnum (afsakið hástafina).

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.