Af minni reynslu eru svo til allir vefstjórar í vandræðum með vefstefnu. Það reynist oft erfitt að finna tíma til að móta vefstefnu þó ásetningurinn sé góður. Mikilvægi hennar er líka vanmetið. Fyrir vefstjóra er hún mikilvægt haldreipi þegar hagsmunaaðilar gerast of ágengir í að stjórna vefnum út frá eigin duttlungum.

Vefstefna er ekki skrifuð í tómarúmi. Hún þarf að endurspegla hugmyndafræði þíns fyrirtækis og þarf að taka mið af grunngildum sem þar koma fram. Það er ekki til klár uppskrift að vefstefnu en hún á að vera auðskilin og mikilvægt að allir hagsmunaaðilar þekki inntakið og vinni eftir henni.

Meginstefnan á einni blaðsíðu

Til að ná þessu markmiði er mikilvægt að meginstefnan rúmist á einni blaðsíðu. Vefstefnuna á ekki að geyma í skúffu, hún á að vera sýnileg og daglegt leiðarljós þeirra sem vinna í vefmálum.

Vefur/ir fyrirtækisins er miðpunkturinn í vefstefnunni. Til stuðnings vefstefnu þurfa að fylgja ítarlegri kaflar þar sem farið er í einstaka vefi, innri vef / innranet, samfélagsmiðla, veffréttabréf, leitarvélar, blogg, tækniumhverfi, vefumsjónarkerfi og fleira. Úr verður n.k. vefhandbók sem er gagnlegt að viðhalda og verður núverandi vefteymi og þeim sem kunna að taka síðar við mjög gagnleg.

Í vefstefnu þarf að tilgreina ábyrgð og eigendur verkefna. Óskýrt eignarhald veldur árekstrum og getur hindrað framgang vefstefnunnar.

Þegar vefstefna er mótuð er mikilvægt að leita samráðs hjá mikilvægustu hagsmunaaðilum vefsins í fyrirtækinu. Til að tryggja stuðning við stefnuna er nauðsynlegt að kalla eftir viðhorfum sem víðast úr fyrirtækinu. Þetta má gera með viðtölum við einstaklinga og kynningum fyrir mikilvægum hópum. Einnig er gott fá nokkra viðskiptavini í viðtöl.

Hvar ætlar þú EKKI að vera?

Í stefnunni er ennfremur mikilvægt að ákveða hvar fyrirtækið ætlar EKKI að vera. Vefstjórar eru iðulega undir þrýstingi að smíða alls kyns undirvefi sem sérhagsmunahópar kalla eftir. Það þarf að smíða sér krakkavef, sér vef fyrir „verðmætustu“ viðskiptavinina, sér vefi sem tengjast tilteknum átaksverkefnum eða markaðsstarfi. Er það skynsamleg þróun?

Í dag er iðulega hlaupið af stað og komið upp reikningi á öllum samfélagsmiðlum, ekki bara Facebook, LinkedIn og Twitter. Nei líka á Pinterest, YouTube, Tumblr og Google+. Hefurðu tíma í þetta allt saman?

Í vefstefnu er tilvalið að fara með gagnrýnum augum yfir alla vefi sem eru í rekstri, veffréttabréf, samfélagsmiðla, öpp og önnur veftengd verkefni. Það er líklegt að vefumhverfið sé orðið vefstjóranum ofviða og þá getur verið skynsamlegt að taka ákvarðanir um að loka tilteknum vefjum og reikningum á samfélagsmiðlum.

Efnisstefnan er hjartað í vefstefnunni

Hluti af vefstefnunni er efnisstefna. Það á enginn að velkjast í vafa um að afburðaefni er lykillinn að velgengni á vefnum. Efni sem fólk vill lesa og deila, fær fólk til að hafa samband, kaupa, hlaða niður efni, fær aðra til að setja tengla á vef fyrirtækisins og gerir það sýnilegra í leitarvélum. Gott efni skapar traust. Í vefstefnunni þarf því að vera skýr efnisstefna.

Ekki mikla verkefnið fyrir þér. Gakktu í málið sjálf/ur eða fáðu ráðgjöf frá óháðum aðila. Utanaðkomandi ráðgjöf getur verið skynsamleg, ekki síst til að ganga í málið og klára það því tíminn er gjarnan óvinur vefstjórans.

 

Mynd fengin frá kymogorman.com.au

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.