Það styttist í uppskeruhátíð vefiðnaðarins sem verður haldin 31. janúar 2014. Það er um að gera að taka daginn strax frá og ekki síður að muna að senda inn tillögur fyrir 10. janúar. Vandið umsóknir ykkar, ekki bíða með að senda inn fram á síðasta dag.

Það er búið að tilkynna um verðlaunaflokkana en þeir verða 14 að þessu sinni. Í fyrra vakti ég athygli á að þörf væri á að endurskoða flokkana og kom með tillögur i þá veru. Ég er ánægður með að nokkrar af mínum hugmyndum fengu brautargengi þó ég eigni mér engan veginn heiðurinn.

Það er t.d. búið að leggja af “hand-smátækja” flokkinn og búið að bæta við flokki fyrir app auk þess sem innri vefir verða með og svokallaðir “non-profit” vefir eða velgjörðarvefir. Einnig fagna ég því að sjá flokk fyrir opinbera vefi sem er endurvakinn flokkur (hét einu sinni vefir í almannaþjónustu). Það var líka rétt hjá SVEF að breyta afþreyingar- og fréttavefs flokki í besti vefmiðillinn.

Þessar breytingar eru því sigur fyrir lítlimagnann á vefnum, upprisa þeirra sem hafa átt undir högg að sækja og þá á ég ekki síst við opinbera vefi, innri vefi og velgjörðarvefi (non-profit). Vel gert stjórn SVEF!

Þeir sem veljast til dómnefndarstarfa eru ekki sérstaklega öfundsverðir. Þetta er mikil vinna fyrir litla eða enga umbun. Miðað við aðferðafræðina sem dómnefnd vinnur út frá er veruleg yfirlega hjá hverjum og einum dómnefndarmanni. Ég tek ofan hattinn fyrir því fólki sem fórnar sér í þágu vefsamfélagsins með þátttöku í dómnefnd.

Svo vonast maður til þess að það takist jafn vel til með skipan dómnefndar og í fyrra þar sem var hópur með fjölbreyttan bakgrunn sem endurspeglar mikilvægustu stoðirnar á vefnum (hönnun, forritun, efni, nytsemi, aðgengi og markmið).

Rökstyðjið tillögur ykkar

Ég vek athygli á því að það borgar sig að senda inn rökstuðning með tillögum. Það væri t.d. skynsamlegt að setja upp síðu á vefnum ykkar þar sem vinnan á bak við smíði vefsins er útskýrð og láta tengil fylgja með umsókninni., Ég er þess fullviss að það auðveldar dómnefndinni störfin og ýtir undir trúverðugleika. Segið frá því hvernig þið höguðuð undirbúningi, prófunum, ferli við hönnun og forritun, hvert leiðarljós vefsins er og hvernig vefurinn styður við markmið sem þið hafið sett ykkur.

Notið desember til að rýna vefinn og betrumbæta fyrir 10. janúar. Það er enn tími. Þessi litlu atriði sem þið ætluðuð alltaf að klára. Leyfið vefnum að fá jólahreingerningu. Hann á það skilið.

Í fyrra var það klárlega ferðabransinn sem stóð uppi sem sigurvegari. Hver ætli verði það í ár? Mér finnst gróskan í vefbransanum hafa verið mikil í ár og líklega sjaldan eða aldrei jafn mikil samkeppni um bestu vefina. Get varla beðið eftir að 31. janúar renni upp. Verður Eldborg aftur fyrir valinu? Mætir forsetinn?

 

Mynd í haus: Eldborgarsalur. Ljósmyndari: Kristján Kristinsson.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.