Íslensku vefverðlaunin fyrir árið 2013 voru nýlega afhent við bráðskemmtilega athöfn í Gamla bíói. Ég ætla ekki að fara í saumana á einstökum vefjum sem unnu til verðlauna heldur skoða heildarmyndina og ræða hvort við erum á réttri leið með SVEF hátíðina.

NIkita Clothing - besti íslenski vefurinn 2013

Ég skrifaði í nýlegri grein að með nýjum flokkum þá væri að skapast tækifæri fyrir lítilmagnann í vefiðnaðinum, ekki síst með að setja innri vefi og velgjörðarvefi (non-profit) í kastljósið. Niðurstaðan var líka sigur fyrir litlu veffyrirtækin. Form5 gekk út með tvenn verðlaun fyrir Nikita Clothing en sá vefur var valinn besti íslenski vefurinn. Einstaklingar unnu til verðlauna (Vegvísir, Haraldur Þorleifsson og Draumamaðurinn) og „stóru“ vefstofurnar voru minna áberandi en oft áður. Hugsmiðjan gengur líklega sáttust frá borði af þeim með þrenn verðlaun en Janúar og Kosmos og Kaos með ein en TM Software og Advania fóru tómhent heim.

Sneypuför stórfyrirtækja

Annað sem vakti eftirtekt er að Landsbankinn fór aldrei þessu vant heim án verðlauna og í raun má segja að þetta hafi verið sneypuför stóru fyrirtækjanna á Íslandi. Bankar, tryggingafélög, símafyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki hafa verið áberandi í hópi verðlaunahafa síðastliðin ár. Ferðaþjónustan var sigurvegari síðasta árs.

Vefverðlaunin í ár voru sigur fyrir litlu vefina og litlu fyrirtækin. Það var líka gaman að sjá Vísindavef HÍ fá viðurkenningu enda sérlega gagnlegur vefur og núna enn aðgengilegri.

Dómnefndin var vel skipuð, kannski með örlítilli yfirvigt af forriturum (3) en fulltrúar hönnunar, viðmóts og vefstjórnar voru á sínum stað.

Það má líka segja að einkenni íslenskrar vefhönnunar sem ég ræddi um í pistli sjást mjög glögglega í verðlaunavefjum. Stórar myndir, flekar, snjallir (responsive) og ekki síst einfaldir með fá skilaboð standa uppi sem sigurvegarar.

Glæsileg hátíð… eða ættarmót?

Tölum um hátíðina. Þetta var allra besta uppskeruhátíðin sem ég hef farið á. Gamla bíó hæfir svo vel, þéttsetið niðri og talsverður hópur á svölunum eða alls um 350 manns. Þetta er tvöföldun á aðsókn frá hátíðinni í Eldborg 2013 sem var engan veginn rétti staðurinn fyrir 150-200 manna hátíð. Vonandi verður Gamla bíó áfram notað á næstu árum nema aðsókn sprengi staðinn.

Þarna skapaðist skemmtileg stemning fyrir og eftir hátíðina, flott að fá Berg Ebba skemmtikraft, Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra mætti og Rósa, formaður SVEF, stóð sig mjög vel í að stýra samkomunni. Svo var vel til fallið að hafa veitingar á sama stað í kjölfarið þannig að hópurinn splundraðist ekki en á vissan hátt er eins konar ættarsamkomustemning á hátíðinni þar sem fólk knúsar hvert annað og kætist.

Sagði ég ættarmót? Er það kannski einmitt málið sem þarf að ræða? Þessi stemning er bæði hinn stóri kostur við vefiðnaðinn í dag og um leið líklega helsti veikleikinn. Við erum enn í grasrótinni, gerum hlutina lágstemmda, íþyngjum ekki félagsmönnum með háum gjöldum, höfum frítt inn, gestir óformlegir í fasi og kannski er afslappað besta lýsingarorðið fyrir hátíðina.

Eigum við að læra af ÍMARK?

Í vikunni verður ÍMARK dagurinn haldinn þar sem kollegar okkar í markaðsmálum fagna sinni uppskeru. Þar er verulega mikið lagt í, dýrir fyrirlesarar (vænti ég), kostar slatta inn, mikil umgjörð og talsvert meiri umfjöllun í fjölmiðlum og glamúr.

Þetta kann markaðsfólkið en við veffólkið höfum það enn pínulítið notalegt á flókaskóm. Ég tók ekki eftir mikilli fjölmiðlaumfjöllun um SVEF hátíðina, heyrði smá upplestur í fréttum, ekkert sjónvarp á staðnum eða áberandi blaðaljósmyndarar. Kannski missti ég af einhverju.

Ég er ekki að leggja ti að við gerum hlutina nákvæmlega eins og markaðsfólkið en við eigum að læra af þeim. Við erum jú mörg hver of mikilir introvertar til að fara leið extrovertanna í ÍMARK.

Við þurfum samt meiri athygli á vefmálin og rafræna þjónustu yfirhöfuð. Við eigum ekki að læðast með veggjum. Þurfum að blása til sóknar fyrir ímynd iðnaðarins. Ná betur eyrum áhrifamanna, stjórnenda og láta öllum lýðum ljóst að vefmál eru stórmál.

Gerum góðan viðburð enn betri

Stígum eitt skref fram á við á næstu hátíð . Gerum þennan viðburð að eftirsóttum viðburði fyrir alla í vefiðnaðinum og kollega í tengdum greinum. Fáum afburða fyrirlesara til að draga að fleiri en þá sem eiga tilnefningar og tengda aðila. Mig grunar að stór hluti þeirra sem hafa áhuga á vefiðnaðinum, en voru ekki tilefndir eða einhvern hátt tengdir tilnefningum, hafi setið heima. Það er ekki gott.

Hækkum félagsgjöldin (3500 kr. í dag). Flestir myndu sætta sig við tvöföldun. Látum kosta á viðburðinn eða fáum góða styrktaraðila til að kosta komu fyrirlesara. Gerum aðeins meira úr verðlaunaafhendingunni. Ég vil vita meira um hvert verkefni. Við eigum ekki að gefa okkur að allir viti t.d. hvað innri vefur Mílu gerir eða hvað verkefnið Höldum fókus stóð fyrir. Sýnum meira af tilnefndum verkefnum en eitt skjáskot. Setjum jafnvel upp sýningu í anddyri á tilnefndum verkefnum. Þeir sem eru tilefndir eiga það skilið.

Ráðum almannatengil til að fá góða umfjöllun. Stórt nafn utan úr heimi hjálpar til. Segjum frá því hvað vefiðnaðurinn er merkilegur og hverju hann skilar. Drögum fram staðreyndir og áhugaverða tölfræði sem sýna almenningi að við erum iðnaður sem ber að taka alvarlega.

En hættum samt ekki að vera svona skemmtileg og notaleg. Bjóðum bara aðeins fleirum inn fyrir og höldum áfram skemmtilegasta partý ársins í Gamla bíó 2015!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.