Ég hrífst af einfaldleika og fegurð hins smáa á vefnum. Mér leiðast ljótir vefir en ég þoli enn síður ofhlaðna og flúraða vefi sem villa mér sýn. Því ég er óþolinmóður. Fúnksjón og einfaldleiki vega þyngra en fagurfræði. Gov.uk ynni aldrei til íslenskra vefverðlauna en hann hlaut virt hönnunarverðlaun fyrir notagildið fyrst og fremst. 

Velgengni ljótra vefja

Könnun HubSpot
Könnun HubSpot 2011

Fyrir liðlega ári síðan skrifaði Gerry McGovern pistil um velgengni ljótra vefja. Kjarninn í þeirri grein er að hinn dæmigerði notandi á vefnum er ekki kominn til að dást að fagurfræði heldur er hann kominn til að ljúka tilteknu verkefni. Hann studdi þetta m.a. með rannsókn sem var gerð af HubSpot 2011 (sjá kökurit).

Notandinn vill skýrt leiðarkerfi, lýsandi tengla, gott efni og góða leit til að leiða sig áfram. Það er góð notendaupplifun, að leysa verkefnin á skjótan hátt. Hann tók sem dæmi velgengni hins forljóta Craigslist sem er smásölu- og samfélagsvefur, n.k. Bland vefur.

Á vef er fallegri hönnun, myndskreytingu og skrauti jafnað við innihaldsleysi, eitthvað sem ber að varast. Sorglegt en engu að síður staðreynd. Efni sem lítur út fyrir að vera auglýsing er iðulega sniðgengið af notendum. Það staðfesta rannsóknir og ég hef séð þetta ítrekað í notendaprófunum. Oft kennt við bannerblindu.

Gov.uk leysir verkefni fólks

Gov.uk
Gov.uk: Fúnksjón ofar fagurfræði

Gerry var fljótur til að halda fram mikilvægi fúnksjónarinnar í vefhönnun þegar ríkisvefurinn breski gov.uk hlaut virt hönnunarverðlaun á dögunum – Design of the Year Awards. Um þann vef geta flestir verið sammála um að hann er ekkert augnayndi. En þar ræður fúnksjónin og einfaldleikinn ríkjum.

Með orðum yfirhönnuðarins Ben Terrett:

“People come to GOV.UK to get something done and then get on with their lives,” says Terrett. “No one is coming to look at the graphic design. We believe that form follows function and that from this comes a visual elegance.”

Þessi verðlaun eru ágæt áminning til okkar sem störfum í vefbransanum að þegar allt kemur til alls þá er besti vefurinn og þar með best hannaði vefurinn sá sem uppfyllir þarfir fólks. Og það virðist gov.uk gera. Þar eru grundvallarupplýsingar um þjónustu breska ríkisins saman komnar á einn stað og vefurinn einfaldar þegnunum að sækja sér gagnlegar upplýsingar og ljúka verkefnum sem þeir þurfa að sinna.

Það væri reyndar áhugavert að sjá stjórnarráðið íslenska og ríkisvefi taka höndum saman um að einfalda þjónusta íslenska ríkisins á netinu. Margt er þar vel gert en það skortir tilfinnanlega aukinn skilning hjá ráðamönnum eins og kom fram í máli Björns Sigurðssonar, vefstjóra stjórnarráðsins á ráðstefnu Ský nýlega.

Notendaupplifun ræður í samkepppni

Í samkeppnisumhverfi er upplifun viðskiptavina oftar en ekki það sem ræður úrslitum um hver ber sigur úr býtum. Á vefnum munu þeir sigra sem gefa sér tíma til að kynnast notendum og þörfum þeirra. Bjóða upp á þjónustu sem leysir þeirra verkefni og skilja þá eftir með upplifun sem vert er að deila með öðrum. Og þar kemur til kasta snilldar vef- eða viðmótshönnuðarins ekki síður en sérfræðingsins sem skipuleggur vefinn og heldur utan um efnið.

Ekki reiða þig því á að ljótur vefur skili þér ávinningi. Málið er ekki svo einfalt!

2 Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.